Samfylkingin skoðar það mjög alvarlega að leggja fram þingsályktunartillögu á komandi þingi um að fram skuli fara þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Þetta sagði Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar við DV í dag. Segir Logi að leitað verði eftir samstarfi annarra flokka í þeim efnum, en þingflokkur Samfylkingarinnar telur einungis þrjá þingmenn af 63.
Logi segir hugsanlegt að tillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB verði til þess að knýja þingmenn stjórnarflokkanna til að gefa upp afstöðu sína gagnvart málinu:
„Þetta mál verður samt tekið á dagskrá og örugglega með öðrum hætti en um er rætt í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Þetta er mál sem allir flokkar ættu auðvitað að vera sammála um. Það voru allir flokkar búnir að lofa því meira og minna fyrir kosningar að þjóðin ætti að fá að ráða þessu. Það er langheiðarlegast,“
sagði Logi við DV. Bæði Viðreisn og Björt framtíð vilja þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort ljúka eigi aðildarviðræðum við Evrópusambandið:
Viðreisn hvetur til þess að þeim viðræðum verði haldið áfram og lokið með hagfelldum aðildarsamningi, sem borinn verði undir þjóðina og farið að niðurstöðum þeirrar atkvæðagreiðslu,
segir á heimasíðu Viðreisnar. Í stjórnarsáttmálanum segir orðrétt:
„Komi fram þingmál um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður við Evrópusambandið eru stjórnarflokkarnir sammála um að greiða skuli atkvæði um málið og leiða það til lykta á Alþingi undir lok kjörtímabilsins. Stjórnarflokkarnir kunna að hafa ólíka afstöðu til málsins og virða það hver við annan.“
Ari Brynjólfsson – ari@pressan.is