Alþingi kemur saman í dag að loknu jólafríi, hefst þingfundur kl. 13:30. Enn hefur ekki náðst sátt í milli stjórnarflokkanna og stjórnarandstöðunnar um hvernig skipt verður í formannsembætti fastanefnda Alþingis. Líkt og fram hefur komið bjóða stjórnarflokkarnir stjórnarandstöðunni tvö formannsembætti af átta. Sjálfstæðisflokkurinn færi þá með formennsku í fimm nefndum og Viðreisn og Björt framtíð skipta með sér formennsku í einni nefnd. Stjórnarandstöðuflokkunum fjórum hefur verið boðin formennska í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og velferðarnefnd.
Lilja Alfreðsdóttir varaformaður Framsóknarflokksins sagði það lykil að góðri samvinnu milli stjórnar og stjórnarandstöðu að bjóða minnihlutanum formennsku í fleiri fastanefndum, kallaði Birgitta Jónsdóttir þingmaður Pírata tilboð stjórnarflokkanna „klént“.
Fundað var um málið í gær, í hádegisfréttum Bylgjunnar var greint frá því að stjórnarflokkarnir hafi boðið stjórnarandstöðunni formennsku í þriðju nefndinni, umhverfis- og samgöngunefnd. Engin sátt hefur þó náðst um málið.
Birgir Ármannsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir í samtali við Morgunblaðið í dag að stjórnarflokkarnir hafi teygt sig langt til að ná samkomulagi. Þar sem engin sátt náist fyrir þingfund í dag verða fimm stjórnarþingmenn og fjórir stjórnarandstöðuþingmenn í hverri nefnd, sem mun hver fyrir sig kjósa formann.
Ari Brynjólfsson – ari@pressan.is