Svanur Kristjánsson, prófessor í stjórnmálafræði, segir að ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar, sem nýtekin er við völdum á Íslandi, sé siðferðilega ólögmæt og njóti ekki trausts.
„Núverandi forsætisráðherra er fyrrum fjármálaráðherra. Í því starfi braut hann að mínu mati alvarlega gegn hinum siðferðilega samfélagssáttmála sem m.a. kveður á um valdsmenn beiti ekki valdi sínum sjálfum sér í hag. Fyrrum fjármálaráðherra leyndi skýrslu um aflandsfélög en er sjálfur í Panamaskjölunum. Fyrrum fjármálaráðherra tók 19 mánuði að skila skýrslu um skuldaniðurfærslu ríkisstjórnar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks í þágu efnafólks,“ segir Svanur í pistli á fésbók.
Og hann spyr:
„Efast einhver um að úrslit Alþingiskosninga hefðu orðið önnur ef kjósendur hefðu haft þessar upplýsingar?“
Niðurstaða Svans er þessi:
„Ríkisstjórnin er því siðferðilega ólögmæt og nýtur ekki nauðsynlegs trausts til að endurreisa íslenska lýðveldið eftir Hrunið.“