fbpx
Þriðjudagur 12.ágúst 2025
Eyjan

Jón Steinar Gunnlaugsson: Munnlegur málflutningur

Ritstjórn Eyjunnar
Sunnudaginn 22. janúar 2017 15:13

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrum Hæstaréttardómari. Mynd/Pressphotos.biz
Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrum Hæstaréttardómari. Mynd/Pressphotos.biz

Eftir Jón Steinar Gunnlaugsson:

Meginefni þessarar greinar:

  1. Það er þýðingarmikill þáttur í rekstri dómsmála að málsaðilum sé gefinn sanngjarn kostur á að tala máli sínu áður en dómur gengur. Að öðrum kosti er vegið að réttaröryggi þeirra við meðferð málanna.
  2. Íslensk réttarfarslög kveða á um að munnlegur málflutningur sé veigamikill þáttur í meðferð allra fullvaxinna mála fyrir dómi.
  3. Hinn skriflegi hluti í málatilbúnaði málsaðila á að vera knappur og skýr. Honum á svo að fylgja eftir með munnlegum málflutningi, þar sem aðilum gefst kostur á að skýra málsástæður sínar frekar, meðal annars með tilvitnunum í fræðirit og dóma.
  4. Meginregla samkvæmt lögum er að málsaðilar skuli sjálfir áætla hve langan tíma þeir þurfi til munnlegs málflutnings. Afskiptaréttur dómara af áætlun þeirra er bundinn við að hindra óþarfar málalengingar.
  5. Í seinni tíð hefur Hæstiréttur Íslands tekið að úthluta málsaðilum tíma til málflutnings í öllum málum og er þá lítt eða ekki tekið tillit til áætlunar þeirra um tímalengd ræðu. Undantekningarlaust er áætlun stytt svo um munar og þá án nokkurs rökstuðnings eða samráðs.
  6. Ástæðan er vafalaust írafárið sem ríkir í réttinum vegna allt of mikils málafjölda. Þessar aðstæður geta ekki réttlætt að brotið sé með alvarlegum hætti á lögmæltum rétti málsaðila til að flytja málin fyrir dóminum.
  7. Það er ámælisvert að Lögmannafélag Íslands skuli ekki hafa séð ástæðu til að gera á opinberum vettvangi alvarlegar athugasemdir við þá framkvæmd sem Hæstiréttur hefur tekið upp í þessu efni.

 

I.

 

Við rekstur dómsmála er afar mikilvægt að málsaðilum sé gefinn sanngjarn kostur á að tala máli sínu áður en dómur gengur. Í einkamálum gildir raunar meginregla um málsforræði aðila máls, sem felur það hreinlega í sér að þeir ákveða með málflutningi sínum úr hverju skuli leysa með dómi.

Enginn vafi er á að réttarfarslög eru á því byggð að réttur málsaðila til að flytja mál sitt sé tryggður. Nú er í sjálfu sér unnt að tryggja þennan rétt hvort sem er með skriflegum eða munnlegum flutningi máls. Íslenskar lagareglur gera ráð fyrir hvoru tveggja. Reglan um munnlega málsmeðferð er samt talin meðal meginreglna í einkamálaréttarfari.[1]

Af ákvæðum réttarfarslaga má ráða að hinn skriflegi hluti málflutnings skuli vera knappur og skýr en málsaðilar skuli svo fá tækifæri við hinn munnlega flutning málsins til að fjalla nánar um málsástæður sínar, skýra þær og styðja tilvitnunum í fræðiskrif og dóma. Þannig segir í e. lið 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála (EML), þar sem fjallað er um efni stefnunnar, að í henni skuli greina málsástæður stefnanda og eigi lýsing þeirra vera gagnorð og svo skýr að ekki fari milli mála hvert sakarefnið sé. Hið sama er að segja um skriflegan málflutning af hálfu stefnda. Í 2. mgr. 99. gr EML segir þannig um greinargerð stefnda að þar skuli lýst á gagnorðan og skýran hátt málsástæðum hans. Í lögum nr. 88/2008 um meðferð sakamála (SL) er í 1. mgr. 165. gr. kveðið svo á að gefa skuli ákærða kost á að leggja fram skriflega greinargerð af sinni hálfu í málum þar sem hann heldur uppi efnisvörnum. Varnir hans eiga að öðru leyti að koma fram í munnlegri málflutningsræðu skipaðs verjanda hans (eða hans sjálfs ef því er að skipta) og er ákvæði um málflutninginn að finna í 3. mgr. 166. gr. laganna.

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands.

Í 1. mgr. 101. gr. EML segir að flytja skuli mál, sem rekið er samkvæmt lögunum (einkamál), munnlega ef stefndi heldur uppi vörnum og máli verður ekki vísað frá dómi. Dómari má þó ákveða að mál verði tekið til dóms án málflutnings ef aðilar eru sammála um það.

Í 103. gr. EML er kveðið á um hinn munnlega málflutning fyrir héraðsdómi. Þar segir meðal annars í 3. mgr. að dómari stýri málflutningi og gæti þess að ræðumaður haldi sig við efnið og að málflutningur sé glöggur og sæmilegur. Þá geti dómari takmarkað málfrelsi þess sem ekki lagar sig að áminningum hans eða fer að mun fram úr þeim tíma sem hefur verið áætlað að málflutningur hans muni taka. Vísast um áætlun þessa til 1. mgr. 102. gr. i.f., þar sem gert er ráð fyrir að dómara sé rétt að inna aðila eftir því hve langan tíma þeir þurfi fyrir málflutningsræður við aðalmeðferð.

Svo mikið er lagt upp úr hinum munnlega málflutningi í einkamálum að 1. mgr. 115. gr. laganna hefur að geyma sérstakt ákvæði um að endurflytja skuli mál ef dómur hefur ekki verið kveðinn upp innan fjögurra vikna frá dómtöku þess. Frá þessu má þó víkja ef dómari og aðilar telja það óþarft.[2]

Reglum um munnlegan málflutning sakamála í héraði er háttað með nokkuð öðrum hætti en einkamála. Samt er munnlegur málflutningur aðalreglan í sakamálum þar sem ákærði heldur uppi vörnum. Í 3. mgr. 165. gr. SL segir að dómari skuli ákveða hvort mál verði flutt munnlega eða skriflega. Dómari skuli þó ekki ákveða skriflegan flutning máls nema aðilar óski þess og hann telji hættu á að málið skýrist ekki nægilega með munnlegum málflutningi. Í 3. mgr. 166. gr. laganna eru síðan efnisreglur um hinn munnlega málflutning og er þar að finna svipaðar reglur um stjórn dómara á honum og kveðið er á um í 103. gr. EML, sem vikið var að.

Í Hæstarétti er málum háttað á þann veg, þegar um einkamál ræðir, að skrifleg greinargerð áfrýjanda skal vera gagnorð um málsástæður þær sem hann ber fyrir sig, sbr. b. lið 2. mgr. 156. gr. EML. Hið sama skal gilda um greinargerð stefnda, sbr. c. lið 1. mgr. 159. gr. laganna. Síðan er svo á kveðið í 2. mgr. 160. gr. að strax að gagnaöflun lokinni skuli hvor aðili um sig tilkynna Hæstarétti hve langan tíma hann áætli að hann þurfi til að flytja munnlega málflutningsræðu í málinu. Í 5. mgr. 161. er Hæstarétti heimilað að takmarka ræðutíma aðila við munnlegan flutning máls. Þegar boðað sé til málflutnings megi taka fram hve langan tíma aðilar fái hvor um sig til umráða. Þessi ákvæði komu inn í EML með breytingarlögum nr. 38/1994. Var frumvarp til þeirra laga samið af réttarfarsnefnd, en núvarandi forseti Hæstaréttar átti þá sæti í henni og varð reyndar formaður hennar á því ári. Í athugasemdum með frumvarpinu sagði meðal annars svo um þessi ákvæði: „Ætla má að Hæstiréttur tæki að öðru jöfnu tillit til þeirra óska sem aðilar settu fram um tíma til málflutnings í tilkynningu skv. 2. mgr. 13. gr. frumvarpsins [innsk: 2. mgr. 160. gr. laganna]. Tillaga um nýmælin í 5. mgr. 14. gr. [innsk. 5. mgr. 161. gr. laganna] er því einkum gerð til að tryggja að unnt yrði að bregðast á þennan hátt við óskum frá aðila um óhæfilega langan tíma til málflutnings miðað við umfang máls, svo og til aðhalds að öðru leyti varðandi slíkar óskir.“

Í sakamálum, eins og í einkamálum, er gert ráð fyrir að skriflegur hluti málflutnings fyrir Hæstarétti sé stuttur og gagnorður, sjá b. lið 2. mgr. 203. gr. SL. Síðan er í 2. mgr. 205. gr. að finna ákvæði um hinn munnlega málflutning fyrir réttinum. Segir þar að hvor eða hver aðila fyrir sig skuli tilkynna réttinum hve langan tíma þeir áætli að þurfi til að flytja málflutningsræðu. Hæstiréttur á að tilkynna aðilum með hæfilegum fyrirvara hvenær málflutningur fari fram. Um leið skuli aðilum tilkynnt hve langan tíma þeir fái til að flytja málflutningsræður ef ekki sé fallist á óskir þeirra í þeim efnum.

 

II.

Segja má að þessar lagareglur byggist á þeim meginviðhorfum, sem fyrr voru nefnd, að gefa skuli málsaðilum kost á með sanngjörnum hætti að tala máli sínu fyrir dómi, áður en dómur er lagður á mál þeirra. Er þetta raunar sjálfsagt og hlýtur að teljast þýðingarmikill þáttur í að tryggja aðilum málanna réttaröryggi við úrlausn þeirra. Til hennar heyrir vissa fyrir því að málsaðilar hafi fengið tækifæri til að koma öllu að sem þeir sjálfir telja að skipti máli, þó að í reglunum felist auðvitað ekki heimild þeim til handa til að halda réttinum uppteknum af einhverju sem engu máli getur skipt fyrir úrlausn þess máls sem um ræðir.

domurAf framansögðu er ljóst að munnlegur málflutningur er að íslenskum réttarfarslögum þýðingarmikill þáttur í málfærslu aðila máls. Meginviðhorfið er að aðilarnir sjálfir skuli ákveða efni þess sem þeir vilja færa fram við málflutninginn og áætla tímann sem það tekur. Málflutningurinn er hugsaður sem nánari útfærsla af hálfu aðilans á því sem hann byggir á. Það fer auðvitað eftir atvikum hve langan tíma málflutningsræðan þarf að taka. Best er að hún sé svo stutt sem unnt er að komast af með. Er það raunar reynsla mín, bæði sem málflytjanda og dómara að málflutningurinn sé oft bestur ef reynt er að stilla tímalengdinni í hóf en þó þannig að allt komi fram sem þörf er á út frá sjónarmiðum aðilans. Hér verður þó að hafa í huga, einkum ef dómur er fjölskipaður, að ekki er unnt að ákveða fyrirfram hvað einstakir dómarar í hópnum kunna að telja skipta máli. Slíkt liggur auðvitað ekki fyrir fyrr en eftir að dómur er felldur.

 

III.

 

Nú hefur það gerst að Hæstiréttur hefur tekið upp starfshætti þar sem brotið er með alvarlegum hætti á rétti málsaðila til munnlegs málflutnings við meðferð mála fyrir réttinum.[3] Það er orðinn plagsiður að dómstóllinn úthluti málflutningstíma til málflytjenda í öllum málum og eru tilkynningar um þetta handskrifaðar inn á dagskrárblað sem rétturinn sendir frá sér. Við þessar úthlutanir verður ekki séð að nokkurt tillit sé tekið til þeirrar áætlunar um málflutningstíma sem aðilar hafa yfirleitt skilað til réttarins í samræmi við fyrirmæli laganna, svo sem áður var greint.[4] Óhætt er að fullyrða að flestir hæstaréttarlögmenn telja vera illa hugað að hagsmunum og raunar lögmæltum rétti málsaðila þegar þessar einhliða ákvarðanir eru teknar um málflutningstíma þeirra. Yfirleitt er úthlutað allt of stuttum tíma og ávallt að mun styttri en málflytjandinn sjálfur hefur áætlað að hann þurfi. Er jafnvel helst svo að sjá, að dómstóllinn hafi einatt lítt kynnt sér efni málanna og þeirra ágreiningsefna sem um þarf að fjalla, þegar hann tekur valdskotnar ákvarðanir sínar um málflutningstíma einstakra málflytjenda. Kemur þetta vel í ljós þegar fleiri en tveir málflytjendur koma að máli en hlutur umbjóðenda þeirra er verulega misjafn. Í slíkum tilvikum er oft enginn greinarmunur gerður á ræðutíma málflytjendanna við úthlutanir réttarins.

Ástæðan fyrir þessum alvarlegu brotum á réttindum málsaðila er augljóslega írafárið sem ríkir í Hæstarétti vegna málafjöldans. Ein dagskipun gildir: Út með málin. Og við sjáum hvernig málsmeðferðin líður á mörgum sviðum fyrir þetta. Auðvitað er réttinum nokkur vorkunn því vinnuskilyrðin eru ótæk. Málafjöldinn er alltof mikill. Ástandið er grafalvarlegt. Að mínum dómi er það brýnasta þjóðfélagsmál á Íslandi að gera gagngerar breytingar á skipulagi og starfsháttum dómstóla, einkum Hæstaréttar. Stofnun millidómstigs var vissulega skref í rétta átt en samt fjarri því að vera nóg.

 

IV.

 

Það hefur vakið athygli að ekkert skuli hafa heyrst frá Lögmannafélagi Íslands um þau alvarlegu brot á rétti málsaðila sem felst í þessari nýju framkvæmd Hæstaréttar. Sé einhvern tíma þörf á að það góða félag láti í sér heyra ætti það að vera í tilvikum þegar brotið er á rétti málsaðila, og þá að sínu leyti einnig málflytjendanna, til að gæta hagsmuna sinna fyrir dómi með fullburðugum málflutningi. Fyrirsvarsmenn félagsins mega ekki vera undirgefnir valdaelítunni í dómskerfinu og skorta kjark til að andmæla þegar svo augljós brot eru framin á réttarfarsreglum sem varða málflutninginn. Það er því ástæða til að hvetja stjórn félagsins til dáða í þessu efni.

 

                  Jón Steinar Gunnlaugsson hrl. og fyrrverandi dómari við Hæstarétt

Greinin birtist fyrst á dögunum í Tímariti lögfræðinga.

—————————————————————————

[1] Sjá til dæmis rit Markúsar Sigurbjörnssonar og Kristínar Benediktsdóttur „Einkamálaréttarfar“, 3. útgáfa 2013, 3. kafli, bls 12 og áfram, einkum bls 13-15.

[2] Það er einkennilegt, svo ekki sé meira sagt, að sjá úrlausnir Hæstaréttar í málum þar sem lengri tími en átta vikur hafa liðið frá málflutningi og dómtöku, þar til mál er dómtekið á ný og þá án málflutnings, en með samþykki málsaðila. Til dæmis um þessa framkvæmd réttarins má vísa til H. nr. 267/2010, þar sem segir svo í forsendum: „Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefur verið litið svo á að héraðsdómur verði ekki að réttu lagi kveðinn upp samkvæmt síðastnefndri heimild án þess að mál sé munnlega flutt á ný ef liðnar eru átta vikur frá því að það var upphaflega flutt, enda geti málflutningur ekki komið að því gagni, sem til sé ætlast, þegar uppsaga dóms dragist í þeim mæli, sbr. meðal annars dóm réttarins 6. febrúar 1995 í máli nr. 384/1992. Eins og greinir hér að framan liðu réttir þrír mánuðir frá því að mál þetta var munnlega flutt þar til hinn áfrýjaði dómur var kveðinn upp. Ekki var því unnt að neyta þeirrar undantekningar, sem heimiluð er í 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, til að láta hjá líða með sammæli aðila og dómara að málið yrði flutt að nýju áður en dómur gengi í því “. Um þetta er það í fyrsta lagi að segja að Hæstiréttur hefur auðvitað ekki nokkra heimild til að búa til átta vikna reglu, sem hvergi er kveðið á um í lögum. Hitt er svo öllu verra að rétturinn virðist hafa gleymt því að í EML er að finna beina heimild í 1. mgr. 101. gr. i.f. til þess að dómtaka mál, án þess að nokkur munnlegur málflutningur fari fram ef aðilar eru sammála um það. Með hliðsjón af þessari reglu fær það auðvitað ekki staðist að ómerkja megi dóm þar sem aðilar og dómari hafa orðið sammála um það sem minna er, það er að ekki þurfi að endurtaka málflutning sem þegar hefur farið fram. Við þetta má svo bæta athugasemd um atriði sem allir málflytjendur þekkja vel í tilvikum, þar sem of langur tími hefur liðið frá málflutningi til dómsuppkvaðningar, sem sagt að dómarinn boðar aðila yfirleitt ekki á dómþing til að bóka um endurflutning fyrr en hann er búinn að skrifa dóminn. Er dómurinn oft kveðinn upp í sama þinghaldi og bókað er um að ekki sé þörf endurflutnings. Krafa Hæstaréttar um endurflutning ef meira en átta vikur líða er því ekkert annað en leiktjöld um eitthvað sem engu máli skiptir fyrir málsmeðferðina. Með henni er aðeins verið að lengja meðferðina og auka málsaðilum kostnað af henni.

[3] Það vakti athygli margra að forseti réttarins skyldi viðhafa þau hrokafullu ummæli við hóp lögfræðinga sem kom í kynnisferð í réttinn að ekki kæmi oft fyrir að málflutningur lögmanna breytti afstöðu sem dómarar hefðu tekið til sakarefnis málanna fyrir málflutninginn eða eins og haft var eftir honum að „[hann teldi] það ekki koma oft fyrir að dómari skipti um skoðun við flutnings málsins.“ (sjá Lögmannablaðið, 1. tbl. 2015, bls. 16). Ummælin eru óviðeigandi og að mati þess sem hér skrifar beinlínis röng. Góður málflutningur getur hreinlega ráðið úrslitum máls.

[4] Að líkindum hefur þetta leitt til þess að skrifleg málflutningsskjöl hafa orðið að mun lengri og ítarlegri en lögin gera ráð fyrir. Ef ætlun væri sú að breyta reglum um málflutning og gera hann að mestu skriflegan þyrfti auðvitað að breyta lögunum. Slík breyting væri að mati greinarhöfundar hreint ekki til bóta. Auk almennra sjónarmiða sem þessu viðkoma væri hér, í ljósi írafársins sem ríkir við réttinn, hætta á að einhverjir dómaranna myndu alls ekki lesa greinargerðirnar til fulls. Við hinn munnlega málflutning er málflytjandinn að minnsta kosti með dómarana fyrir framan sig og þeir eiga ekki undankomu auðið þann tíma sem málflutningur stendur!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Segir Sjálfstæðisflokk og Framsókn hafa gert andstöðu við atkvæðagreiðslur að sérstöku baráttumáli

Segir Sjálfstæðisflokk og Framsókn hafa gert andstöðu við atkvæðagreiðslur að sérstöku baráttumáli
Eyjan
Fyrir 1 viku

Kolla hlustaði á tvo áhyggjufulla Sjálfstæðismenn tala um flokkinn sinn – „Voru þeir að gera nokkuð sem þeim féll greinilega þungt“

Kolla hlustaði á tvo áhyggjufulla Sjálfstæðismenn tala um flokkinn sinn – „Voru þeir að gera nokkuð sem þeim féll greinilega þungt“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Foringi herforingjastjórnarinnar hrósaði Trump sem aflétti þá refsiaðgerðum og tollum gagnvart landinu

Foringi herforingjastjórnarinnar hrósaði Trump sem aflétti þá refsiaðgerðum og tollum gagnvart landinu
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Er samtal svona hættulegt?

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Er samtal svona hættulegt?
Eyjan
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Keisarinn veginn á kamrinum

Björn Jón skrifar: Keisarinn veginn á kamrinum
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Við erum enn á móti litasjónvarpi

Sigmundur Ernir skrifar: Við erum enn á móti litasjónvarpi