„Maður spyr sig hvort nýr velferðarráðherra sé með réttu ráði. Þetta segi ég eftir að hafa starfað sem félagsmálastjóri í tuttugu ár,“ segir Marta Bergman, fv. félagsmálastjóri, í tilefni frétta um að Þorsteinn Víglundsson velferðarráðherra og Sveinn Kristinsson formaður Rauða krossins hafi undirritað samning um að flóttafólk á eigin vegum eigi sama rétt og kvótaflóttafólk.
Eyjan skýrði frá samningnum í morgun. Kvótaflóttafólk eru þeir flóttamenn sem hafa verið valdir í ákveðnu ferli, en gífurleg fjölgun hefur orðið á hælisumsóknum flóttafólks á eigin vegum, fólks sem er jafnvel frá löndum Evrópu þar sem ríkir friður, löndum eins og Makedóníu og Albaníu.
„Þetta hljómar afar fallega en á eftir að virka eins og móttaka Albananna forðum. Með þessu er verið að samþykkja að hingað komi fólk á eigin vegum í leit að betra lífi og eigi strax allan velferðarrétt hérna. Rétt sem landsmenn eiga ekki og jafnvel þótt þeir eigi að eiga fá ekki. Í tuttugu ár var Íslendingum skammtað úr hnefa eða synjað. Það var ekki af mannvonsku heldur vegna þess að það þurfti að byggja vegi, brýr og reka skóla og kakan óx ekki þótt þörfin væri meiri. Hingað getur fólk nú komið, eyðilagt pappírana sína og fengið uppihald, húsnæði, bestu heilbrigðisþjónustu, þar með talið tannlækna og sálfræðiþjónustu,“ segir Marta.
„Á sama tíma bíða 900 manns eftir húsnæði hjá Reykjavíkurborg og það á ekki rétt á ókeypis heilbrigðisþjónustu í nokkurri mynd. Mann grunar að þarna hafi komið að málum starfsmenn ráðuneytis og alþjóðlegrar stofnunar sem ekki hugsa um hagsmuni Íslands og Íslendinga fyrst,“ bætir Marta við.