
Donald J. Trump hefur svarið embættiseið við hátíðlega athöfn í Washington D.C. höfuðborg Bandaríkjanna að viðstöddu margmenni. Þetta er 53. innsetningarathöfnin í sögu landsins. Það gerði hann með því að leggja hönd sína á tvær Biblíur, Lincoln Biblíuna svokölluðu og sína eigin sem fylgt hefur honum frá barnæsku. Forseti Hæstaréttar Bandaríkjanna, John Roberts, sem Trump hefur kallað ,,heimskingja‘‘ þuldi embættiseiðinn sem Trump endurtók.
Í ræðu sinni sagði Trump að þessi dagur táknaði ekki að valdið færðist á milli forseta eða stjórnmálaflokka, heldur frá stjórnvöldum til fólksins:
Ég mun aldrei bregðast ykkur,
sagði Trump. Lagði hann mikla áherslu á innviði landsins og sagði að Bandaríkin yrðu alltaf í fyrsta sæti þegar kæmi að ákvarðanatöku.
Hin sextán ára Jackie Evancho sem þekkt er úr sjónvarpsþáttunum America‘s Got Talent söng þjóðsöng Bandaríkjanna og sex trúarleiðtogar sem Trump valdi sjálfur veittu blessun sína.

Athöfnin er haldin við vesturhlið þinghússins og eru flestir framámenn og -konur landsins á staðnum, til að mynda Barack og Michelle Obama og Clinton hjónin.
Innsetningarræðu Trump hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu og að henni lokinni verður gengin skrúðganga frá þinghúsinu til Hvíta hússins en um 8 þúsund manns taka þátt í henni. Mikill viðbúnaður var í Washington í dag og voru rúmlega 30 þúsund öryggisverðir þar við vinnu í dag.
Þorvarður Pálsson – thorvardur@pressan.is / Ari Brynjólfsson – ari@pressan.is