„Það sem ég hef fyrst og fremst áhyggjur af er hans afstaða í stærstu viðfangefnum samtímans, þá er ég að tala um annars vegar loftslagsmál og hins vegar afstöðuna til misskiptingar í heiminum, félagslegs misréttis og ójöfnuðar. Það hvernig hann kemur fram í þessari umræðu er náttúrulega leiðandi í opinberri umræðu á heimsvísu, þannig að það kann að vera að fyrir hans tilstuðlan þá verðum við fyrir einhvers konar bakslagi í þessum efnum. Ég nefni líka umræðuna um konur, um minnihlutahópa o.s.f.v. sem ekki síður kemur til með að hafa áhrif á heimavelli.“
Þetta sagði Svandís Svavarsdóttir þingmaður Vinstri grænna í þættinum Morgunvaktin á Rás 1 í morgun, ræddi hún, ásamt Birgi Ármannssyni þingmanni Sjálfstæðisflokksins, um Donald Trump sem tekur við embætti forseta Bandaríkjanna á fimmta tímanum í dag.
Trump er mjög umdeildur, bæði í Bandaríkjunum sem og víðar í heiminum. Hafa margir gagnrýnt stefnu hans í utanríkismálum, bæði varðandi Atlantshafsbandalagið sem og múr við landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó. Orðræða Trump hefur farið fyrir brjóstið á mörgum og segir Svandís að ef maður í svo valdamiklu og virtu embætti tali niðrandi um konur og minnihlutahópa þá geti það haft áhrif á almenna orðræðu á heimsvísu:
„Þarna er því gefinn byr undir báða vængi að það sé eðlilegt að tjá sig með þeim hætti að gera lítið úr fötluðum, lítillækka konur og svo framvegis. Þetta er auðvitað þannig að maður í þessari stöðu hefur gríðarlega mikil og mótandi áhrif á alla samfélagsumræðuna þvert á landamæri. Þannig að þetta kann að vera, þegar að verður litið til baka, ein af mikilvægustu áhrifum Donalds Trump í sögunni.“
Stefnubreyting myndi snerta fleiri lönd en bara Ísland
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi að þrátt fyrir misvísandi yfirlýsingar af hálfu Trump þá eigi hann ekki von á mikilli stefnubreytingu hjá Bandaríkjunum þegar kemur að varnarsamstarfi vestrænna ríkja. Sagði ráðherra að grannt yrði fylgst með þróun mála:
„En ef til þess kæmi þá myndi það snerta fleira en bara Ísland. Það myndi snerta öll aðildarríki Nató og öll ríki heims ef út í það er farið,“
sagði Guðlaugur Þór. Birgir segir að yfirlýsingar Trump valdi vissulega áhyggjum um framtíð samstarfs Íslands við Bandaríkin, ekki einungis hvað varðar varnarsamstarf, en í stóru landi á borð við Bandaríkin taki þó oft einhvern tíma að innleiða stefnu:
Auðvitað verður maður að sjá hvað hann gerir af því sem hann hefur lýst yfir. Yfirlýsingarnar hafa hins vegar verið misvísandi, það er því ekki auðvelt að festa hönd á því hvaða breytingum hann raunverulega hyggst koma á. En þetta snertir okkur auðvitað með margvíslegum hætti og bæði með NATO-ríki, sem samstarfsríki í varnarsamningi og eins eru Bandaríkin auðvitað mikilvægt viðskiptaríki okkar þannig að þetta snertir okkur með ýmsum hætti og gerir það að verkum að við verðum hugsanlega að vera mikið á tánum gagnvart Bandaríkjunum til að gæta okkar hagsmuna.
Ari Brynjólfsson – ari@pressan.is