Lilja Alfreðsdóttir varaformaður Framsóknarflokksins segir lið í því að ná góðri samvinnu milli stjórnar og stjórnarandstöðu sé að bjóða minnihlutanum formennsku í fleiri fastanefndum Alþingis. Greint hefur verið frá því að stjórnarflokkarnir þrír hygðust vera með formennsku í sex af átta fastanefndum Alþingis, Sjálfstæðisflokkurinn með fimm og Viðreisn í einni. Stjórnarandstöðuflokknunum verður boðin formennska í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og velferðarnefnd.
Birgitta Jónsdóttir þingmaður Pírata lýsti þessu boði stjórnarflokkanna við Morgunblaðið í einu orði: „Klént.“
Lilja Alfreðsdóttir segir orð og efndir þurfa að fara saman:
Núverandi stjórnarflokkar hafa talað fyrir því að hversu mikilvægt sé að góð samvinna náist og að þingmenn temji sér ný og betri vinnubrögð,
sagði Lilja og bætti við að fyrsta skrefið í þá átt sé að stjórnin taki tillit til þingstyrks minnihlutans.
Innan stjórnarflokkanna eru einnig sterkar skoðanir um formennsku í fastanefndunum, líkt og Eyjan greindi frá um helgina er það ályktun Sjálfstæðismanna í Vestmannaeyjum að þar sem forystumenn Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi fengu ekki ráðherrastól sé eðlilegt og sanngjarnt að þeir fái formennsku í fastanefndum.
Ari Brynjólfsson – ari@pressan.is