Ákvarðanir um lokun gatna í miðborg Reykjavíkur hafa veruleg áhrif á eigendur fasteigna á svæðinu sem og verslanir og veitingastaði. Akbrautir vega séu fyrst og fremst ætlaðir fyrir umferð ökutækja. Þetta segir í áliti Umboðsmanns Alþingis og greint er frá í tilkynningu frá Miðbæjarfélaginu, sem leitaði eftir áliti umboðsmanns vegna lokana gatna í miðborginni yfir sumartímann.
Í áliti sínu, sem skoða má á heimasíðu umboðsmanns Alþingis, eru gerðar fjölþættar athugasemdir við málsmeðferð Reykjavíkurborgar og er því beint til borgaryfirvalda að það sé lögreglustjóra að kveða á um fyrirkomulag götulokana. Telur umboðsmaður einnig að endurskoða þurfi lögin til að kveða á um hvort sveitarfélög hafi heimild til að loka götum tímabundið:
M.a. með tilliti til þess að ekki ríki vafi um slíkar heimildir (þ.e. til lokana gatna) og þar með það inngrip sem leiðir af slíkum ákvörðunum í möguleika eigenda og afnotahafa fasteigna til aðgengis að þeim, að tilefni sé til þess að kveðið verði skýrar á um slíkar heimildir í lögum,
segir í áliti umboðsmanns. Það sé eðlilegt að ákvarðanir um lokun gatna séu viðfangsefni aðal- eða deiliskipulagsáætlana. Miðbæjarfélagið, hagsmunafélag atvinnurekenda og eigenda atvinnuhúsnæðis í miðbæ Reykjavíkur, fagnar áliti umboðsmanns og segir þetta sýna að borgaryfirvöld hafi ekki gætt að lagareglum í málinu. Skipulagslög og reglugerðir tryggji hagsmunaðilum víðtækan þátttöku- og athugasemdarrétt. Beinir umboðsmaður því til umhverfisráðherra að taka afstöðu til þess hvernig rétt sé að tryggja betur að grundvöllur ákvarðana um nýtingu gatna sé fundinn skýr staður í lögum og framkvæmd laga og reglna um skipulag.
Ari Brynjólfsson – ari@pressan.is