Birgitta Jónsdóttir þingmaður Pírata segir það enga tilviljun að fréttir séu sagðar af kannabisvökva í rafrettum á Íslandi í dag, í dag leggi Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra fram frumvarp um breytingar á tóbaksvörnum þar sem rafrettur eru settar undir sama hatt og tóbak. Píratar hafa gagnrýnt frumvarpið harðlega, sagt það illa unnið og skaðlegt, Ungir Píratar hafa að sama skapi sagt forgangsröðun heilbrigðisráðherra valda miklum áhyggjum þar sem hann sé að ráðast gegn rafrettum á sama tíma og heilbrigðiskerfið sé svelt.
Í Morgunblaðinu í dag er fjallað um Fésbókarfærslu Sigvalda Arnars Lárussonar varðstjóra hjá lögreglunni á Suðurnesjum frá því um helgina þar sem hann vakti athygli á kannabisvökva fyrir rafrettur sem sé kominn í umferð hér á landi. Sagði hann að sem foreldri hafi hann skrifað til að vekja aðra foreldra til umhugsunar:
Það er langt síðan ég heyrði fyrst af þessum kannabisvökva. Lögreglunni hafa borist ábendingar um að hann sé kominn á allar sölusíður á netinu og hann virðist vera kominn í dreifingu út um allt land núna,
sagði Sigvaldi við Morgunblaðið. Vísir ræddi svo við Grím Grímsson yfirlögregluþjón á höfuðborgarsvæðinu sem sagði að lögreglan hefði orðið vör við að talsvert magn af kannabisvökva sé komið í sölu hér á landi.
„Á að banna bíla vegna þess að sumir keyra fullir?“
Píratar hafa lagt fram sitt eigið frumvarp þar sem einstaklingar fá ríkari heimild til að flytja inn nikótínvökva og ekki er kveðið á um hámarksstærð flaskna fyrir vökva sem má selja, ólíkt frumvarpi heilbrigðisráðherra. Fyrsta umræða um frumvarp heilbrigðisráðherra er á dagskrá Alþingis í dag, Birgitta segir á Fésbók að fréttaflutningur dagsins sé engin tilviljun:
Engin tilviljun að þetta sé í fréttum sama dag og handónýtt frumvarp heilbrigðisráðherra um rafrettur fer í fyrstu umræðu. Hvað svo, á að banna pípur vegna þess að sumir reykja ekki tóbak með þeim? Á að banna bíla vegna þess að sumir keyra fullir? Forvarnir skipta máli en ekki forræðishyggja.