Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra segir það mun þægilegra ef það væri hægt að taka frá hælisumsóknir fólks frá ríkjum á borð við Albaníu og Makedóníu, ríki sem talin eru örugg, en það sé mikilvægt að hér á landi sé stunduð vönduð stjórnsýsla.
Í viðtali í Kastljósi í gærkvöldi var Sigríður spurð út í gagnrýni Lögmannafélagsins um að réttaröryggi flóttamanna og hælisleitenda væri ekki nægjanlega tryggt vegna þess hve stuttur frestur er gefinn til að bera brottvísun þeirra undir dómstóla. Sigríður sagði að hér á landi væri boðið upp á mun meira réttaröryggi en í nágrannalöndunum:
Ég deili ekki sjónarmiðum Lögmannafélagsins. Þannig er það í dag að við tökum á móti hælisumsóknum og veitum öllum sem sækja hér inn umsókn um hæli talsmenn og lögfræðiþjónustu, bæði á fyrsta stjórnsýslustigi, Útlendingastofnun, og á seinni stjórnsýslustigi, gagnvart Kærunefnd útlendingamála, kjósi menn að kæra ákvörðun Útlendingastofnunar. Þetta er langt umfram það sem mörg nágrannalönd okkar bjóða upp á og þetta er vönduð stjórnsýsla, eftir þessi tvo stig bíða dómstólar, sem verða eftir áramót á þremur dómsstigum,
sagði Sigríður. Þá sagði Helgi Seljan þáttastjórnandi að allir hlytu að geta látið reyna á ákvarðanir stjórnvalda fyrir óháðum dómstól, þá sagði Sigríður:
Þetta eru útlendingar,
Svaraði Helgi því með:
Og hvað með það að þetta séu útlendingar? Hafa þeir ekki rétt?
Sigríður svaraði að bragði:
Jú jú og við erum að veita þeim það og gjafsókn get menn fengið standist þeir skilyrði eins og Íslendingar. Allt kostar þetta og það er það sem við stöndum frammi fyrir núna í dag að kostnaður við þessar hælisumsóknir sem eru að stórum hluta tilhæfulausar eins og við metum það er orðinn gríðarlegur. Hátt í þrír milljarðar.
Viljum að það sé bragur á stjórnsýslunni
Sigríður hvetur Útlendingastofnun til að stytta málsmeðferðartímann, einkum og sér í lagi tilhæfulausra umsókna. Aðspurð um hvort flóttamannasamningar kveði ekki á um að hvert mál sé skoðað fyrir sig segir Sigríður það vera gert en það sé vandi:
Það væri auðvitað miklu þægilegra fyrir okkur ef við gætum bara tekið frá, alla frá Albaníu eða Makedóníu, að þeir fái ekki hér hæli.
Sagði Helgi það hljóma eins og „reffilega mismunun“, þá sagði Sigríður:
Við viljum að það sé bragur á allri stjórnsýslu og ég ætla ekki að tala fyrir því að kastað sé til höndunum í þessu, alls ekki, en við getum gert ýmislegt áður en við grípum til einhverra örþrifaráða.