Bjarni Halldór Janusson verður í dag sá yngsti í sögunni til að taka sæti á Alþingi, hann tekur sæti í dag í fjarveru Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur. Bjarni skipaði 4. sæti á lista Viðreisnar í Suðvesturkjördæmi og er því annar varamaður. Bjarni er fæddur 4. desember árið 1995 og er því 21 árs, 4 mánaða og 20 daga gamall. Fyrra met átti Jóhanna María Sigmundsdóttir, sem sat á þingi fyrir Framsóknarflokkinn á síðasta kjörtímabili, en hún var 21 árs og 303 daga gömul þegar hún tók sæti á þingi, hún á hins vegar enn metið yfir kjörna þingmenn.
Það er skammt milli meta en Jóhanna sló met Gunnars Thoroddsen sem var 23 ára og 177 daga gamall þegar hann komst fyrst á þing 1934.
Bjarni Halldór er stúdent frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja og stundar nú nám í stjórnmálafræði og heimspeki við Háskóla Íslands. Bjarni situr í Stúdentaráði Háskóla Íslands en var áður framkvæmdastjóri nemendafélags NFS og MORFÍs. Hann er einn af stofnendum Viðreisnar og sat í fyrstu stjórn flokksins. Hann er jafnframt einn af stofnendum ungliðahreyfingar flokksins og er fyrsti formaður hennar.