Í janúar var Mahad Abib Mahamud sviptur norskum ríkisborgararétti en hann hafði búið í Noregi í 17 ár. Fyrst missti hann ríkisborgararéttinn, síðan nýbyggða húsið sitt og að lokum atvinnuleyfið. Nú er hann kominn til Íslands og hefur sótt um hæli hér á landi.
TV2 skýrir frá þessu í dag. Þar er haft eftir Mahad að hann hafi verið á leið til Kanada þegar hann var stoppaður þegar hann millilenti á Íslandi.
„Þegar ég hafði sagt þeim frá máli mínu sögðu þeir: „Þú getur sótt um hæli hjá okkur“.“
Er haft eftir honum á vef TV2.
Mál hans rataði í fréttir í Noregi í upphafi árs þegar hann kom fram og sagði frá því hvernig líf hans hefði hrunið til grunna eftir 17 ára dvöl í Noregi. Hann er 31 árs og kom til Noregs árið 2000 sem flóttamaður frá Sómalíu en þá var hann 14 ára og var einn á ferð. Hann settist að í Brumunddal, menntaði sig, fékk norskan ríkisborgararétt og var fyrirmynd annarra ungra Sómala í landinu.
En allt breyttist þetta þegar yfirvöldum barst ábending um að hann hefði logið og í framhaldinu missti hann allt. Það var í mars á síðasta ári sem útlendingastofnuninni barst ábending um að Mahad væri ekki frá Sómalíu heldur væri hann frá nágrannaríkinu Djibútí. Þessu neita yfirvöld í Djibútí og sómölsk yfirvöld hafa margoft staðfest að Mahad sé þaðan. Norska útlendingastofnunin tekur ekki mark á skjölum frá Sómalíu eða orðum æðstu embættismanna og leiðtoga landsins.
Í mars staðfesti þingréttur í Osló ákvörðun útlendingastofnunar um að svipta Mahad norskum ríkisborgararétti.
Í lok janúar missti Mahad starf sitt á Ullevål sjúkrahúsinu í kjölfar þess að hann var sviptur ríkisborgararétti. Hann er einnig búinn að missa húsið sitt og hefur verið upp á vini sína kominn undanfarna mánuði.
„Ég missti öll réttindi mín og það var erfitt að lifa á götunni í Osló án þess að hafa nokkuð til að lifa af. Ég var einfaldlega í neyð og þess vegna yfirgaf ég Noreg.“
Hefur TV2 eftir Mahad.
Í gærmorgun hitti hann fulltrúa Útlendingastofnunar og var í framhaldinu komið fyrir í húsnæði, sem Rauði krossinn rekur, í Hafnarfirði.
Mahad sagði TV2 að Rauði krossinn hafi aðstoðað hann við að senda umsókn um hæli til íslenskra yfirvalda og að vel hafi verið tekið á móti honum þegar hann kom til Íslands á miðvikudag í síðustu viku.
Mahad hafði aldrei áður komið til Íslands.
„Þetta er eldfjallaeyja, lítið af trjám. Það er kalt og það rignir svolítið. Það er eins og ég sé á Mars en fólkið er vinsamlegt.“
Sagði hann og bætti við að hann vonist til að íslensk stjórnvöld sendi hann ekki aftur til Noregs.
„Þá bið ég norsk stjórnvöld um að fá vegabréfið mitt aftur þannig að allt verði eins og áður. Þau verða að finna lausn á þessu máli.“
Lögmaður Mahad, Arild Humlen, sagði í samtali við TV2 að líklegast verði Mahad sendur aftur til Noregs frá Íslandi í samræmi við ákvæði Dyflinarsamningsins en íslensk stjórnvöld hafi þó fulla heimild til að taka mál hans til efnislegrar meðferðar og veita honum hæli ef þau fallast á að hann sé frá Sómalíu.
Niðurstöðu þingréttar í Osló hefur verið áfrýjað og verður tekin fyrir í Lögmannsrétti í ágúst á næsta ári en á meðan hefur Mahad ekkert til að lifa af í Noregi og ekki er hægt að vísa honum úr landi en nú hefur hann yfirgefið Noreg, að minnsta kosti að sinni, sjálfviljugur.