Sex þingmenn, þar af þrír úr röðum Sjálfstæðisflokks, eiga rétt á biðlaunum eftir að hafa dottið af þingi. Fjórtán þingmenn sem féllu af þingi eftir kosningarnar um helgina eiga rétt á biðlaunum og tveir til viðbótar sem ekki gáfu kost á sér til endurkjörs.
Fjallað er um þetta í Fréttablaðinu í dag. Bent er á að þó svo að kjörtímabilið hafi aðeins staðið í ett ár eigi þessir þingmenn rétt á biðlaunum í þrjá til sex mánuði. Biðlaun eru jafn há þingfararkaupi, eða rúmlega 1,1 milljón króna.
Í umfjöllun Fréttablaðsins kemur fram að Unnur Brá Konráðsdóttir, Valgerður Gunnarsdóttir og Vilhjálmur Bjarnason hjá Sjálfstæðisflokki eigi rétt á sex mánaða biðlaunum. Sömuleiðis þau Óttarr Proppé og Björt Ólafsdóttir hjá Bjartri framtíð. Ásta Guðrún Helgadóttir, Pírati, á einnig rétt á sex mánaða biðlaunum.
Í umfjöllun Fréttablaðsins er bent á að Theodóra S. Þorsteinsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, hafi lýst því yfir að hún ætlaði ekki að nýta biðlaunarétt sinn. Hún var í hópi þeirri sem áttu rétt á þriggja mánaða launum. Þeir fimmtán þingmenn sem eiga rétt á biðlaunum munu að óbreyttu fá tæplega 70 milljónir næstu mánuði.