Sjálfstæðisflokkur fengi 24,5 prósent atkvæða og 17 þingmenn kjörna en Vinstri græn fengju 20,2 prósent atkvæða og 14 þingmenn kjörna. Þetta er samkvæmt niðurstöðum umfangsmikillar könnunar Félagsvísindastofnunar sem unnin var fyrir Morgunblaðið.
Úrtak könnunarinnar var 3.900 kjósendur og verði niðurstöður kosninganna í samræmi við niðurstöðu könnunarinnar verður ekki möguleiki á tveggja flokka ríkisstjórn eftir kosningar.
Samfylkingin mælist með 15,3 prósenta fylgi, Miðflokkurinn 9,3 prósent, Píratar 8,8 prósent, Viðreisn 8,3 prósent, Framsóknarflokkur 7,9 prósent og Flokkur fólksins fengi 4,2 prósent atkvæða. Björt framtíð fengi 1,3 prósent og næði ekki manni inn. Sömu sögu er að segja af Dögun og Alþýðufylkingunni sem mælst með 0,0 og og 0,1 prósents fylgi.
Í samtali við Morgunblaðið í dag segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, að verði niðurstöður kosninganna á þessa leið sé það ákall um að stjórnarandstaðan myndi ríkisstjórn.
„Það eru í raun og veru mestu tíðindin að ríkisstjórnin er fallin og stjórnarandstaðan komin með meirihluta,“ segir Katrín. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, tekur undir það að könnunin leiði að því líkum að vinstristjórn verði mynduð eftir kosningar.
„Þessar tölur horfa þannig við mér að við þurfum að bæta okkur enn frekar. Við erum tryggingin gegn vinstristjórn eins og mætti orða það. Það er enn raunveruleg hætta á því að hér myndist vinstristjórn ef við náum ekki að bæta við okkur á endasprettinum.“
Verði niðurstöður kosninganna á þessa leið verður ekki unnt að mynda þriggja flokka ríkisstjórn án aðkomu Sjálfstæðisflokksins. Eins og Morgunblaðið bendir á væri hægt að mynda stjórn Sjálfstæðisflokks, Miðflokksins, Framsóknarflokks og Viðreisnar sem hefði 33 þingmenn. Stjórn VG, Samfylkingar, Pírata og Framsóknarflokks hefði aftur á móti 35 þingmenn.