Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar segir að loforð Sjálfstæðisflokksins um að lækka skatta muni hagnast best þeim tekjuhæstu, vill hann einnig fá að vita hvernig Sjálfstæðisflokkurinn hyggist lækka skatta án þess að skera niður þjónustu ríkisins. Samfylkingin hefur verið gagnrýnd fyrir að vilja hækka skatta. Logi segir á Fésbók að Samfylkingin vilji snúa við niðurskurði í þjónustu spítala, styrkja skólana, bæta kjör 6.000 barna sem líða skort og laga kjör eldri borgara, öryrkja og þeirra sem eru á lægstu laununum:
Þeir flokkar sem talar hæst um stöðugleika verða að líta sér nær. Sjálfstæðisflokkurinn lofar nú ófjármögnuðum skattalækkunum. Lækka á neðra þrep tekjuskattsins um 2%. Það kostar 26 milljarða,
segir Logi, spyr hann tveggja spurninga í þessu sambandi:
Hvaða þjónustu á að skera niður til að fjármagna tekjutapið? Sjúkrahús, heilsugæslu, skóla, vegi?
Finnst ykkur sanngjarnt að fólk á lágmarkslaunum, 280.000 kr., fái þrisvar sinnum minna en tekjuhæsta fólk landsins þ.e. þau 20% landsmanna sem eru með 835.000 kr. eða meira í laun á mánuð?
Logi segir að þörf sé á vinstristjórn:
Ég er ekki í vafa um hvað mér finnst. Almannaþjónustan þolir ekki meiri niðurskurð. Fólkið í landinu þolir ekki meiri misskiptingu.