fbpx
Þriðjudagur 29.júlí 2025
Eyjan

Áherslur flokkanna: Sjávarútvegsmál

Ari Brynjólfsson
Miðvikudaginn 25. október 2017 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eyjan mun fram að kjördegi bjóða framboðum sem taka þátt í Alþingiskosningunum 28. október næstkomandi að svara spurningum um ýmis málefni, allt frá menntamálum til heilbrigðismála.

Í dag er spurt:

Hver er stefna flokksins í sjávarútvegsmálum?

Svörum flokkanna er raðað eftir listabókstaf framboðsins.

 

Björt framtíð – X-A

 

Að mati Bjartrar framtíðar er mikilvægt að sú vinna sem er í gangi á vegum sjávarútvegsráðherra um að kanna kosti þess að í auknum mæli verði byggt á langtímasamningum við úthlutun aflaheimilda og að tryggja betur að gjald fyrir aðgang að sameiginlegri auðlind verði í eðlilegu hlutfalli við afrakstur veiðanna ljúki sem fyrst og hafist verði handa við tillögugerð og útfærslur.

 

 

Framsóknarflokkurinn – X-B

 

Framsókn vill vinna að sátt um sjálfbært fiskeldi

Vöxtur og viðgangur laxeldisins má ekki gerast á kostnað náttúrunnar eða villta íslenska laxastofnsins. Framsókn vill ná sátt um uppbyggingu og starfsemi fiskeldis á Íslandi. Slík sátt næst aðeins með virku eftirliti og rannsóknum ásamt tryggu regluverki og vísindalegu áhættumati. Beita þarf mótvægisaðgerðum sem lágmarka umhverfisáhrif af eldinu og taka mið af bestu fáanlegu tækni (BAT). 

 

 

Viðreisn – X-C

 

Markaðsleið í sjávarútvegi tryggi sátt um greinina

Viðreisn vill tryggja sátt um sjávarútveginn til framtíðar.  Í stað veiðileyfagjalds verði ákveðinn hluti kvótans settur á markað á hverju ári. Þannig fæst sanngjarnt markaðstengt afgjald fyrir aðgang að auðlindinni og umgjörðin um atvinnugreinina verður stöðug til frambúðar. Leiðin hvetur til hagræðingar og hámarks arðsemi þegar til lengri tíma er litið. Einnig opnast leið fyrir nýliðun.

 

Sjálfstæðisflokkurinn – X-D

 

Íslenskur sjávarútvegur er í fremstu röð á heimsvísu, jafnt hvað varðar gæði, sjálfbærni, þróun og arðsemi. Við viljum tryggja stöðugleika í sjávarútvegi svo hann geti áfram staðið að nýsköpun og vöruþróun og lagt drjúgan og sanngjarnan skerf af mörkum til lífsgæða landsmanna.

 

Flokkur fólksins – X-F

 

Sjávarútvegurinn er undirstaða fyrir blómlega byggð á Íslandi. Afar mikilvægt er að tryggja að nýtingarréttur á fiskimiðunum glatist ekki frá sjávarbyggðum umfram það sem orðið er. Hlúa ber að þessum byggðum. Þjóðin öll á að njóta afraksturs af fiskimiðum hennar. Aukið verði frelsi til strandveiða.

 

Píratar – X-P

 

Auðlind í þjóðareigu

Píratar telja auðlindir bæði á landi og sjó tilheyri íslensku þjóðinni og að henni bera að njóta þess. Sjávarútvegstefna Pírata snýst í grundvallaratriðum um uppboð á aflaheimildunum þar sem íslenska ríkið fyrir hönd íslensku þjóðarinnar er sá sem leigir og innheimtir leiguverðið. Niðurstöður uppboðanna skuli vera opinberar og öllum heimil þátttaka. Þannig skapast frjáls markaður þar sem útgerðarmenn greiða það verð sem er sanngjarnt fyrir afnot af auðlindinni og sá peningur nýtist til að fjármagna innviði eða rennur í auðlindasjóð, eftir því sem íslenska þjóðin ákveður.
Með þessari tilhögun mun ríkissjóður fá meira þegar afkoman er góð en minna þegar hún er lakari, opið verður fyrir nýliðun og samkeppni virkari. Jafnframt þessu verður samkeppniseftirlitið virkjað til að tryggja að engin einokunarstaða myndist á markaði.

Strandveiðar og frjáls samkeppni

Píratar ætla sér að veita Íslendingum frelsi til handfæraveiða. Það mun tryggja atvinnuöryggi sjómanna um allt land og styrkja fámenn byggðalög. Frelsi til strandveiða er grundvallaratriði í sjávarútvegsstefnu Pírata.
Einnig telja Píratar mikilvægt að setja allan afla á markað. Fiskur, bæði hold og aukaafurðir, svo sem slóg, beinagarður  og haus verða til sölu á fiskmarkaði. Það mun tryggja að minni og sérhæfðari vinnslur hafi aðgang að öllu því hráefni sem veiðist í kringum landið. Það mun ýta undir nýsköpun og framþróun í vinnslu hliðarafurða og binda enda á stöðugar kjaradeilur og þörfina á verðlagsstofu skiptaverðs.

Öflug hafrannsóknarstofnun

Píratar byggja ákvarðanir sínar á upplýstri gagnasöfnun og greiningu. Ljóst er að án öflugrar hafrannsóknarstofnunar er fiskveiðistefna bara skot í myrkri. Píratar munu því tryggja hafrannsóknarstofnun nægilegt fjármagn til að sinna skyldu sinni og rannsaka afleiðingar stefnunnar og aukningar á aflareglu.

 

Alþýðufylkingin  – X-R

 

Alþýðufylkingin vill að veiðileyfi séu á hendi byggðarlaga þaðan sem gert er út, sem eru háð sjávarútvegi og sem eru nálægt fiskimiðum. Fyrirtæki sem gera út á stórum skipum eiga að fá veiðileyfi, en útgerð á smærri bátum ætti að vera alveg frjáls. Endurgjald stærri fyrirtækja fyrir veiðileyfi ætti að skila sér til samfélaganna í byggðarlögunum.

 

 

Samfylkingin – Jafnaðarmannaflokkur Íslands – X-S

 

Útboð á aflaheimildum

Það hefur verið stefna Samfylkingarinnar frá stofnun að að vilja bjóða út fiskveiðikvóta. Þannig er almenningi best tryggðar sanngjarnar tekjur af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar.

Úthluta á aflaheimildum á jafnræðisgrundvelli til hóflegs tíma með gagnsæjum hætti.

Methagnaður hefur verið í sjávarútvegi undanfarin ár á sama tíma og veiðigjöld hafa lækkað. Þessi þróun mun ekki halda áfram verði Samfylkingin í ríkisstjórn.

Í Færeyjum var nýlega byrjað að bjóða út aflaheimildir að frumkvæði systurflokks okkar þar í landi.

Reynsla þeirra sýnir að við með útboðum á aflaheimildum gætum við fengið mun meiri tekjur af fiskveiðiauðlindum en í dag.

Útboðin þjóna þannig tvíþættum tilgangi:
– að veita nýliðum aðgengi og að
– skila eðlilegum arði til eigandans, þjóðarinnar.

Með því að láta bjóða í fiskveiðiheimildirnar þá fær þjóðin hæst verð fyrir afnotin af eign sinni. Mikilvægt er að slíkt úboð verði vel undirbúið með aðkomu erlendra og innlendra fræðimanna og sérfræðinga á sviðinu.

Við erum óhrædd við að sækja tekjur í sameiginlegar auðlindir til að fjármagna frábæra, gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu um land allt.

 

Vinstrihreyfingin grænt framboð – X-V

 

Meginmarkmiðið með sterkri sjávarútvegsstefnu er sjálfbær nýting fiskistofnanna, ábyrg umgengni um lífríki hafsins, samhengi í byggðaþróun og síðast en ekki síst að arðurinn af auðlindinni renni til þjóðarinnar. Fylgja þarf ráðgjöf vísindamanna við nýtingu fiskistofna. Eiga skal samstarf við nágrannaþjóðir á sviði rannsókna og nýtingar sjávarauðlinda. Auðlindagjald verði tekið af sjávarútvegsfyrirtækjum í hlutfalli við afkomu greinarinnar. Auka þarf strandveiðar og ráðstöfun heimilda til að verja byggðir landsins. Fiskeldi þarf að byggja upp með ítrustu varúð og í samræmi við ráðgjöf vísindamanna þannig að líffræðilegri fjölbreytni verði ekki ógnað.

 

Sjá einnig:

Þrjú helstu atriðin sem flokkurinn setur á oddinn í kosningabaráttunni

Velferðarmálin og almannatryggingar

Efnahags- og atvinnumál

Mennta- og menningarmál

Utanríkismál

Stjórnkerfið

Það sem kjósendur ættu að varast

Umhverfismál

Þarf að herða refsingar í kynferðisbrotamálum?

Samgöngumál

Á Þjóðkirkjan að vera á fjárlögum?

Stjórnarskráin

Húsnæðismál

Sjávarútvegsmál

Uppreist æra

Málefni krabbameinssjúklinga

Útlendingamál

Landbúnaðarmál

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Svarthöfði skrifar: Er ekki allt í lagi með ykkur andlega, stjórnendur RÚV?

Svarthöfði skrifar: Er ekki allt í lagi með ykkur andlega, stjórnendur RÚV?
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Staksteinar tilkynna um flokksmálgagn

Orðið á götunni: Staksteinar tilkynna um flokksmálgagn
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Thomas Möller skrifar: Ferðaþjónustan á betra skilið

Thomas Möller skrifar: Ferðaþjónustan á betra skilið
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Svarthöfði skrifar: Úlfaldi úr mýflugu – margur heldur mig sig – allt í gosmóðu hjá stjórnarandstöðunni?

Svarthöfði skrifar: Úlfaldi úr mýflugu – margur heldur mig sig – allt í gosmóðu hjá stjórnarandstöðunni?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sigmar Guðmundsson: Stjórnarandstaðan á erfitt með að sætta sig við nýjan veruleika í íslenskum stjórnmálum

Sigmar Guðmundsson: Stjórnarandstaðan á erfitt með að sætta sig við nýjan veruleika í íslenskum stjórnmálum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Gefur í skyn að formenn stjórnarandstöðunnar hafi lekið trúnaðarsamtölum formanna beint í SFS

Gefur í skyn að formenn stjórnarandstöðunnar hafi lekið trúnaðarsamtölum formanna beint í SFS