Greint er frá því á vef Ríkisútvarpsins að Íslenska þjóðfylkingin hafi tilkynnt yfirkjörstjórnum að allir listar hafi verið dregnir til baka. Gert var athugasemdir við listana af yfirkjörstjórn en margir sem voru á meðmælalista könnuðust ekki við að hafa mælt með Íslensku þjóðfylkingunni. Þá segir einnig í frétt RÚV að stór hluti undirskriftanna hafi haft afar svipaða rithönd, með öðrum orðum, grunur lék á að undirskriftir hefðu verið falsaðar.
Haft var samband við marga á listum Íslensku þjóðfylkingarinnar símleiðis og kannaðist meirihluti ekki við að hafa mælt með flokknum. Eyjan greindi frá því fyrr í vikunni að Íslensku þjóðfylkingunni gengi illa að ná tilskyldum fjölda meðmælenda og væri að berjast í bökkum.
Jón Valur Jensson, einn ötulasti talsmaður flokksins og ákafasti meðmælendasafnari, hringdi í símatíma Útvarps Sögu í þeirri sömu viku og upplýsti að nokkuð vantar enn uppá og auglýsti eftir aðstoð og meðmælendum. Þá stóð til að Jón Valur og Jens G. Jensson, oddviti flokksins í Reykjavík suður kæmu sér fyrir skammt frá Laugardalsvelli eftir leik Íslands og Kósóvó þar sem stóð til að reyna við hýra Íslendinga sem fögnuðu því að hafa tryggt sæti sitt á HM í Rússlandi. En nú er búið að flauta Jón Val og Jens úr leik og útséð með að þeir taki þátt í lokaslagnum um sæti á Alþingi.
Á Facebook fagna margir falli þjóðfylkingarinnar. Halldór Auðar Svansson Pírati segir:
„Íslensk pólitík glímir við mörg vandamál en uppgangur afla sem gera út á einangrunarhyggju gagnvart útlendingum er ekki eitt þeirra. Þetta fær einfaldlega lítinn hljómgrunn. Það er í raun stórmerkilegt og afar gleðilegt.“
Svanur Kristjánsson stjórnmálafræðiprófessor kann að meta þessi skrif sem og Snærós Sindradóttir á RÚV, Halldór Halldórsson borgarfulltrúi Sjálfstæðismanna, Hrannar Björn Arnarson, Tara Margrét Vilhjálmsdóttir og Andri Þór Sturluson.
Agnar Kristján Þorsteinsson:
„Djöfull væri nú gaman að finna öll Moggabloggin um stórsókn Íslensku þjóðfylkingarinnar og þjóðina sem flykkist á bak við ÍÞ.“
Þórgnýr Dýrfjörð segir:
„Jæja. Þar kom þó ein góð og uppbyggileg frétt úr kosningabaráttunni: Íslenska þjóðfylkingin getur ekki boðið fram. Bravó!“
Stefán Pálsson sagnfræðingur segir:
„Heimska hægrið verður sér enn og aftur til skammar. Því fagna allar góðar konur og menn.“