fbpx
Mánudagur 21.júlí 2025
Eyjan

Áherslur flokkanna: Utanríkismál

Ari Brynjólfsson
Föstudaginn 13. október 2017 20:13

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eyjan mun fram að kjördegi bjóða framboðum sem taka þátt í Alþingiskosningunum 28. október næstkomandi að svara spurningum um ýmis málefni, allt frá utanríkismálum til heilbrigðismála.

Í dag er spurt:

Hver er stefnan í umhverfismálum?

Svörum flokkanna er raðað eftir listabókstaf framboðsins.

 

Björt framtíð – X-A

 

Björt framtíð er Evrópusinnaður flokkur. Við erum staðföst í þeirri trú okkar að Íslandi sé betur borgið innan Evrópusambandsins en utan þess. Ísland er hluti af Evrópu landfræðilega, efnahagslega og menningarlega! Ársfundur Bjartrar framtíðar 2017 lýsti yfir ánægju sinni með umræðuna um gjaldmiðilsmál sem hefur verið í gangi undanfarna mánuði. Gjaldmiðilsmál voru tíðrædd af þingmönnum Bjartrar framtíðar á síðasta kjörtímabili og lögðu þeir ítrekað fram þingmál um að íslenska ríkið móti sér gjaldmiðilsstefnu. Íslenska krónan er ótraustur gjaldmiðill og uppihald hennar felur í sér gífurlegan kostnað fyrir Íslensku þjóðina. Það er skoðun Bjartrar framtíðar að skynsamlegra væri að stefna að upptöku evru samhliða aðild að Evrópusambandinu.

Björt framtíð vill að Íslendingar leggi sitt af mörkum til friðar í heiminum með þátttöku í þróunarsamvinnu, hjálparstarfi og friðarumleitunum, en taki ekki þátt í hernaði. Við viljum líka taka vel á móti flóttamönnum og sinna málefnum innflytjenda af stakri prýði. Þannig aukum við líkurnar á því að þeir aðlagist samfélaginu og verði hluti af því. Björt framtíð vill að Ísland vinni Eurovision

 

Framsóknarflokkurinn – X-B

 

Framsókn hafnar aðild að Evrópusambandinu

Framsókn telur hagsmunum Íslands best borgið með því að vera áfram sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins. Breska þjóðin hefur ákveðið að yfirgefa sambandið og því er komin upp gjörbreytt staða innan Evrópusambandsins. Framtíðarskipulag Evrópu mun taka breytingum á næstu misserum og því er brýnt að tryggja efnahags- og viðskiptalega hagsmuni Íslands gagnvart Bretlandi. Stefnumótun í utanríkismálum á miðast að þessu breyta heimi.

EES-samningurinn

EES-samningurinn er mikilvægasti og umfangsmesti efnahagssamningur Íslands og því þurfi að tryggja skilvirka framkvæmd hans í aukinni samvinnu við löggjafarvaldið.

Brátt eru liðin 25 ár frá því Ísland gekk í EES. Samstarfið hefur tekið miklum breytingum á þeim tíma og frekari breytingar í vændum t.d. með útgöngu Bretlands úr ESB.

Framsókn vill að Ísland verði virkur aðili í stefnumótun um málefni  norðurslóða

Ísland á að nýta möguleikana sem kunna að skapast með opnun siglingaleiðar um norðurslóðir og eiga frumkvæði að stofnun alþjóðlegrar öryggis- og björgunarmiðstöðvar með höfuðstöðvar á Íslandi.

Framsókn leggur áherslu á öryggi og varnir lands og þjóðar

Varnarsamningurinn við Bandaríkin og aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu ásamt þátttöku í varnarsamstarfi við aðrar þjóðir á jafnréttisgrundvelli tryggir best öryggi borgaranna og ríkisins enda séu mannréttindi og lýðræði leiðarljós slíks varnarsamstarfs. Þátttaka Íslands í slíku samstarfi skal byggja á borgaralegum, félagslegum, og mannúðartengdum verkefnum. Unnið skal eftir nýsamþykktri þjóðaröryggisstefnu sem tryggir sjálfstæði, fullveldi og friðhelgi landamæra Íslands, öryggi borgaranna, vernd stjórnkerfis og innviði samfélagsins.

Framsókn vill efla verslun, viðskipti og samvinnu við önnur ríki

Fríverslunarsamningar greiða leið fyrir íslensk útflutningsfyrirtæki en við gerð slíkra samninga þarf ávallt að hafa hagsmuni almennings og fullveldi þjóðarinnar að leiðarljósi. Framsókn vill ekki að Ísland taki þátt í viðskiptaþvingunum nema þeim sem samþykktar eru af öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og Alþingi, enda bitna viðskiptaþvinganir jafnan á þeim sem síst skyldi.

Ísland skal áfram beita sér fyrir bættu aðgengi fátækra ríkja að alþjóðaviðskiptum og afnámi viðskiptahindrana gagnvart þeim.

Framsókn vill að Ísland sé í fremstu röð í alþjóðlegri baráttu gegn skattaskjólum

Skattaskjól eru ríki sem gera litlar eða engar kröfur um að eignarhald fyrirtækja sé þekkt og innheimta litla eða enga skatta af fyrirtækjum. Með þessu skapa skattaskjólin fyrirtækjum og fjárfestum aðstöðu til að komast hjá skattlagningu. Skattheimta er forsenda þess að ríki geti byggt upp nauðsynlega innviði og veitt íbúum mikilvæga þjónustu. Skattaskjólin veikja því velferðarsamfélögin um leið og þau auka ójöfnuð.

Framsókn vill að Ísland verði áfram í fararbroddi í mannréttindum og jafnrétti og efli þróunaraðstoð

Mannréttinda- og jafnréttismál skipi áfram veglegan sess í utanríkisstefnu Íslands á vettvangi alþjóðastofnana og samskiptum Íslands við önnur ríki og ríkjasambönd. Því er mikilvægt að Ísland sýni gott fordæmi í þessum málaflokki á heimsvísu og beiti sér gegn mannréttindabrotum.

Unnið skal áfram að uppbyggingu þróunarsamvinnu og þekkingu sem byggð hefur verið upp innanlands á vettvangi Háskóla Sameinuðu þjóðanna, í sjálfbærum sjávarútvegi, jarðhita, jafnrétti og landgræðslu.

Unnið verði að því að framlög Íslands til þróunarsamvinnu endurspegli markmið Sameinuðu þjóðanna.

Mikilvægt er að Ísland beiti sér áfram fyrir þróunarsamvinnuverkefnum sem stuðla að jafnrétti kynjanna

Sýnt hefur verið fram á aukin efnahagslegan ávinning fyrir ríki heims með virkri þátttöku kvenna á öllum sviðum samfélagsins.

Ísland á að tala máli hinsegin fólks á alþjóðavettvangi.

 

Viðreisn – X-C

 

Ísland í samstarfi vestrænna ríkja
Grunnstoðir utanríkisstefnu Íslands eru samstarf vestrænna ríkja, evrópskt og norrænt samstarf, aðild að Sameinuðu þjóðunum og vestrænt friðar- og öryggissamstarf. Mikilvægt er að efla og styrkja enn frekar samvinnu Íslands og annarra ríkja á vettvangi Norðurlandanna, Evrópusamstarfs, Sameinuðu þjóðanna,Norðurskautsráðsins og Vestnorræna ráðsins.

Íslendingar virkir og ábyrgir þátttakendur
Í samstarfi þjóða eiga Íslendingar að vera virkir og ábyrgir þátttakendur. Hagsmunir Íslands verða að vera vel skilgreindir og jafnframt þarf að forgangsraða þeim.

Áskoranir alþjóðavæðingar teknar alvarlega
Aukinni alþjóðavæðingu fylgja áskoranir sem Viðreisn tekur alvarlega. Fjölmörg ríki og alþjóðastofnanir vinna að því að draga úr möguleikum einstaklinga og fyrirtækja til að komast hjá lögum og reglum í skjóli alþjóðlegrar starfsemi. Ísland á að taka þátt í því starfi.

Evrópusamvinna

Ísland er hluti af Evrópu
Hagsmunir Íslands eru samofnir hagsmunum Evrópuríkja á sviðum menningar, efnahags- og viðskipta. Ísland deilir gildum með Evrópuríkjum og leggur þar áherslu á mannréttindi, athafnafrelsi, neytendavernd, réttlæti í samskiptum borgaranna við hið opinbera og óháð eftirlit með framkvæmd milliríkjasamninga. Styrkur Íslands í samskiptum við umheiminn er fólginn í skýrri samstöðu og samvinnu við þau ríki sem byggja á sömu gildum.

Ísland verði virkari þátttakandi í EES samstarfinu
EES samningurinn veitir Íslandi aðgang að innri markaði Evrópu. Nauðsynlegt er að Ísland verði virkari þátttakandi í EES samstarfinu svo að einstaklingar og fyrirtæki njóti þeirra kosta sem samningurinn felur í sér. Til að svo megi verða þarf að gera stjórnsýslunni betur kleift að takast á við verkefni á sviði EES samstarfsins.

Kosið verði um áframhald aðildarviðræðna við ESB
Aðild að Evrópusambandinu fylgja margir kostir sem styrkja stöðu Íslands og efla hagsæld. Þess vegna á að bera undir þjóðaratkvæði hvort ljúka eigi aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Viðreisn hvetur til þess að þeim viðræðum verði haldið áfram og lokið með hagfelldum aðildarsamningi, sem borinn verði undir þjóðina og farið að niðurstöðum þeirrar atkvæðagreiðslu.

Mannréttindi, friðar- og öryggismál

Mannréttindi varða alla
Mannréttindi eru einn af hornsteinum íslenskrar utanríkisstefnu. Þau eru óaðskiljanlegur hluti alþjóðastjórnmála en ekki einkamál sérhverrar þjóðar. Viðreisn vill að Ísland leggi sitt af mörkum til þróunarsamvinnu, mannúðar- og neyðaraðstoðar, sem og vegna móttöku flóttafólks.

Áhersla á friðar- og öryggismál
Unnið skal að því að tryggja frið og öryggi í heiminum í samstarfi við vestrænar lýðræðisþjóðir. Það skal meðal annars gera á vettvangi Atlantshafsbandalagsins, innan ramma varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna ásamt nánu samstarfi við þær stofnanir Evrópusambandsins sem fást við innra öryggi og landamæraeftirlit. Þegar kemur að netöryggismálum og baráttunni gegn hryðjuverkastarfsemi, ofbeldi öfgahópa, mansali, eiturlyfjasmygli og peningaþvætti er mikilvægt að efla vestræna samvinnu. Viðreisn vill að Ísland verði áfram ötull talsmaður ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna númer 1.325 um konur, frið og öryggi í alþjóðasamstarfi.

Alþjóðleg umhverfismál

Langtímamarkmið um efnahagslega sjálfbærni
Viðreisn leggur áherslu á að staðinn sé vörður um stefnu sjálfbærra nytja náttúruauðlinda á faglegum forsendum og vísindalegri ráðgjöf. Langtímamarkmið um efnahagslega sjálfbærni með tilliti til auðlinda-, orku- og umhverfismála eiga að ráða för á grundvelli Parísarsamningsins um sameiginlegar varnir gegn loftslagsbreytingum. Íslendingar eiga að láta að sér kveða á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, stofnana þeirra og innan svæðasamtaka nágrannaríkja, til að tryggja og verja skynsamlega nýtingu náttúruauðlinda og vinna gegn skaðlegum áhrifum á loftslag og umhverfi. Efla skal deildir Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi á sviði jarðhita, sjávarútvegs, landgræðslu og jafnréttismála.

Heildaráhrif loftlagsbreytinga varða norðurslóðir
Innan Norðurskautsráðsins skal Ísland leggja áherslu á víðtækt samstarf þjóða í málefnum norðurslóða með tilliti til legu landsins. Þrátt fyrir að áhrif hnattrænnar hlýnunar séu sýnilegri á norðurhveli jarðar en víða annarstaðar er nauðsynlegt að horfa á heildaráhrif loftslagsbreytinga á heimsvísu og vinna náið með þeim þjóðum sem láta sig málin varða.

Skilvirk, nútímaleg og öflug utanríkisþjónusta

Fagleg utanríkisþjónusta skapar verðmæt tækifæri
Utanríkisþjónustan þarf að styðja við menningu, listir og viðskipti og geta staðið vörð um íslenska hagsmuni á erlendum vettvangi. Hún kemur íslenskum sjónarmiðum á framfæri og vinnur þeim framgang á faglegan hátt gagnvart einstökum ríkjum og alþjóðastofnunum. Utanríkisþjónustan á skapa tækifæri og aðstoða við að koma á tengslum á sem flestum sviðum og hjálpa til við að efla hvers kyns samskipti. Utanríkisþjónustan þarf að vera í stakk búin að tryggja gerð viðskiptasamninga fyrir hönd Íslands og greiða þannig fyrir aðgangi íslenskra fyrirtækja að erlendum mörkuðum.

Jafnrétti að leiðarljósi í utanríkismálum
Utanríkisþjónustan skal í öllu alþjóða samstarfi styðja við jafnréttismál í samræmi við sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna. Jafnrétti og jafn aðgangur kynjanna að menntun, atvinnu, heilbrigðisþjónustu og ákvarðanatöku er nauðsynleg forsenda friðar, hagsældar og sjálfbærni í heiminum.

Endurskoða skal ráðningarferli og skipan í stöður utanríkisþjónustunnar. Þar skal sérstaklega litið til þess að ná markmiði um 40/60 hlutfalli milli kynjanna og að tryggt verði að faglegar forsendur liggi að baki ráðningum í sendiherrastöður.

 

Sjálfstæðisflokkurinn – X-D

 

Utanríkismál

  • Frjáls viðskipti á alþjóðavettvangi
  • Ísland standi utan ESB
  • Tengsl við Bretland eftir Brexit tryggð
  • Við viljum aukna fríverslun
  • Fríverslunarsamnings við Bandaríkin leitað
  • Utanríkisstefnan grundvölluð á norrænu samtarfi, EFTA- EES og NATO
  • Hagsmuna Íslands á norðurslóðum gætt

Ísland á að beita sér fyrir frjálsum viðskiptum á alþjóðavettvangi. Sjálfstæðisflokkurinn vill kappkosta að treysta tengslin við Bretland þar sem úrsögn þess úr Evrópusambandinu er í undirbúningi. Eins er brýnt að leitað verði eftir fríverslunarsamningi við Bandaríkin og víðar um heim.

Sjálfstæðisflokkurinn áréttar að hagmunir Íslands eru best tryggðir utan Evrópusambandsins. Aðildarviðræður má ekki hefja að nýju nema þjóðin verði fyrst spurð í beinni atkvæðagreiðslu hvort hún óski eftir aðild að ESB. Við ætlum að halda áfram á markaðri braut fríverslunar í viðskiptum okkar við umheiminn. Viðskiptastefna okkar hefur skilað gríðarlegum árangri á undanförnum árum. Nú eru um 90% allra tollskrárnúmera tollfrjáls en til samanburðar er aðeins um fjórðungur tollskrárnúmera í Evrópusambandinu tollfrjáls.

Forsendur bættra kjara íbúa fátækustu ríkja heims eru aukin utanríkisviðskipti og virðing fyrir umhverfismálum. Íslendingar eiga ekki að taka þátt í að reisa viðskiptamúra gegn þeim.

Evrópa er helsta markaðssvæði Íslands og mikilvægt að tryggja áfram opinn aðgang að innri markaði Evrópusambandsins á grundvelli EES. Í utanríkismálum verður samstarf við granna og bandamenn áfram grundvöllur þátttöku Íslands í alþjóðasamfélaginu. Þar ber hæst samstarf Norðurlanda, varnarssamstarfið í NATO og tengslin við Evrópu um EFTA og EES-samninginn.

Öryggi landsins er best tryggt með aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningi við Bandaríkin.

Skipting hafsvæða og nýting auðlinda á norðurskautssvæðinu þarf að vera í samræmi við hafréttarsamning Sameinuðu þjóðanna og Norðurskautsráðið er réttur samráðsvettvangur fyrir sameiginleg mál norðurslóða.

 

Flokkur fólksins – X-F

 

Flokkurinn styður aðild Íslands að NATO, er fylgjandi EES-samningnum en hafnar aðild að Evrópusambandinu. Flokkur fólksins styður endurskoðun á Schengensamkomulaginu líkt og aðrar eyþjóðir hafa gert með því að herða á landamæraeftirliti landsins með auknu vegabréfaeftirliti. Endurskoða skal þátttöku Íslands í viðskiptabanni gegn Rússlandi.

 

Píratar – X-P

 

Við mótun stefnu Íslands um samskipti við önnur lönd, milliríkjasamninga, aðrar alþjóðlegar skuldbindingar og varnarmál Íslands skal markmiðið vera skýrleiki, einfaldleiki og opið aðgengi almennings í lýðræðissamfélagi.

Gegnsæi um störf fulltrúa Íslands

Almenningur skal hafa aðgengi að upplýsingum og ákvarðanatöku eins og hægt er. Halda skal aðgengilega skrá yfir fulltrúa Íslands á erlendum vettvangi sem og um ábyrgð þeirra og starfssvið samkvæmt stöðu. Undanskilja skal einstaklinga sem starfa að sáttamiðlun eða í öðrum álíka erfiðum og jafnvel lífshættulegum aðstæðum erlendis en þeir skulu vera þekktir af ráðherra utanríkismála, ef þörf krefur um aðstoð.

Birta skal opinbera skrá yfir þá alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að, stöðu þeirra innan kerfisins og upplýsingar um ábyrgð fyrir framkvæmd og framfylgd alþjóðlegra skuldbindinga. Tryggja skal aðgengi og framsetningu með skýrleika og einfaldleika.

Upplýsingaöryggi

Gera á heildarúttekt á upplýsingaöryggi ríkisins, þá sérstaklega með tilliti til öryggis í tölvukerfum stjórnarráðsins, Alþingis, og dómsstóla, sem og tölvukerfi almennings. Óháð aðild Íslands að Evrópusambandinu skal ríkislögreglustjóri og íslenska tölvuöryggisviðbragðsteymið (CERT) hefja samvinnu við Net- og upplýsingaöryggisstofnun Evrópusambandsins (ENISA) varðandi netvarnir.

Varnarmál

Stuðla skal að stórauknu samstarfi með nágrannaþjóðum okkar þegar kemur að eftirliti með landhelgi, lofthelgi og efnahagslögsögu, sem og björgunarstörfum á Norður-Atlantshafinu og Íshafinu. Hafna skal hernaðaruppbyggingu í Norður-Atlantshafi og Íshafinu.

 

Alþýðufylkingin – X-R

 

Aðalatriðin í utanríkisstefnu Alþýðufylkingarinnar eru fullveldið, friðsemdin og samstaða með alþýðu heimsins:
  • Fullveldið viljum við tryggja með því að hafna aðild að ESB, ekki út af stolti eða hagsmunum útgerðarinnar, heldur vegna þess að við vitum að við þurfum að nota fullveldisréttinn til að félagsvæða innviði samfélagsins, sem er aðalatriði í okkar stefnuskrá. ESB (þ.m.t. EES) er hagsmunabandalag evrópskra kapítalista, sem þrýstir á um meiri markaðsvæðingu — þveröfugt við hagsmuni almennings á Íslandi (og í Evrópu) en í fullkomnu samræmi við hagsmuni elítunnar.
  • Friðsemdinni viljum við stuðla að með því að segja okkur úr Atlantshafsbandalaginu, stríðsbandalagi heimsvaldastefnunnar, og hætta að styðja árásarstríð eins og Ísland hefur gert gegn Júgóslavíu, Afganistan, Írak og Líbýu. Ísland á að vinna að friði milli þjóða og getur gert miklu meira gagn með því heldur en með því að styðja loftárásir eða viðskiptabönn.
  • Samstaða með alþýðu heimsins kemur m.a. fram í þróunaraðstoð og stuðningi við flóttafólk, en líka í baráttu gegn stríði og umhverfisvá (sem rekur fólk á flótta) og í baráttu fyrir sanngjörnum viðskiptum heimshorna á milli, fyrir réttindum verkafólks o.fl.

 

Samfylkingin – Jafnaðarmannaflokkur Íslands – X-S

 

Evrópusambandið

Við viljum að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðan við ESB. Þjóðin á að ráða för í þessu risastóra hagsmunamáli með það fyrir augum að hér verði hægt að njóta annarra valkosta í gjaldeyrismálum.

Samfylkingin hefur til margra ára talað fyrir því að hagsmunum Ísland sé best borgið innan Evrópusambandsins. Margfalt hærri vextir hér á landi rýra lífskjör fólks hér og hækka húsnæðiskostnað fram úr hófi.

Besta leiðin til að lækka vexti og tryggja stöðugleika er að taka upp evru samhliða inngöngu í Evrópusambandið. Upptaka evru er líka nauðsynleg til að skapa betri starfsskilyrði hér á landi fyrir fyrirtæki sem starfa á alþjóðlegum markaði og í nýsköpun.

Frjáls Palestína

Samfylkingin fagnar því að sífellt fleiri ríki viðurkenna fullveldi og sjálfstæði Palestínu og áheyrnaraðild ríkisins að Sameinuðu þjóðunum og fylgi þar með fordæmi Íslendinga. Mikilvægt er að fylgja eftir frumkvæði Samfylkingarinnar gagnvart Palestínu.

Næsta skref er að styðja við inngöngu Palestínu í fjölþjóðlegar stofnanir, þar á meðal Sameinuðu þjóðirnar og að palestínskum yfirvöldum verði boðið að opna sendiráð á Íslandi.

Utanríkisviðskipti

Treysta ber samstarf við helstu viðskiptalönd Íslands. Jafnframt þarf að tryggja viðskiptahagsmuni Íslands til lengri framtíðar með því að vinna í anda þeirrar stefnu sem Samfylkingin markaði um gerð fríverslunarsamninga við vaxandi lönd.

Landfræðileg staða, saga og menningartengsl gerir það að verkum að Evrópa mun til frambúðar vera langmikilvægasta markaðssvæði landsins. Til að auka stöðugleika í utanríkisviðskiptum, ýta undir erlendar fjárfestingar og bæta hag landsmanna vill Samfylkingin að evra verði tekin upp sem gjaldmiðill hér á landi í kjölfar aðildar að Evrópusambandinu.

Full þátttaka í sameiginlegum markaði Evrópuríkja er lykilatriði til að halda framsæknum fyrirtækjum í landinu og fjölga störfum. Aðild að ESB fæli í sér mikil sóknarfæri á sviði fullvinnslu sem gætu fjölgað störfum og skapað mikil verðmæti í sjávarbyggðum landsins.

Samfylkingin leggur áherslu á:

  • afnám tolla og annarra viðskiptahindrana af vöru og þjónustu til að lækka verð og stuðla þannig að auknum kaupmætti.
  • afnám viðskiptahindrana sem gætu skapað sérstök sóknarfæri fyrir íslenska frumkvöðla og skapandi greinar. Tollfrelsi í kjölfar aðildar myndi einnig skapa mikla möguleika fyrir útflutning á landbúnaðarafurðum sem gætu stórstyrkt undirstöður greina einsog sauðfjárræktar. Sama gildir um sjávarútveg þar sem ýmsar tollareglur EES koma í veg fyrir að hægt sé að hámarka útflutningsverðmæti ýmissa íslenskra afurða.
  • að mikil tækifæri felist í viðskiptum við vaxandi hagkerfi og nýmarkaðsríki. Ísland stendur sterkara að vígi í samskiptum við þessi ríki sem fullgildur aðili að Evrópusambandinu en eitt síns liðs.
  • að samið verði sem fyrst um fríverslun við Grænland samhliða því að efla samskipti landanna á öllum sviðum.
  • að viðskiptasamningar íslenskra stjórnvalda og fyrirtækja skulu ætíð taka mið af mannréttinda- og umhverfissjónarmiðum.

Þróunarsamvinna

Samfylkingin leggur áherslu á að alþjóðleg þróunarsamvinna er ein af meginstoðum íslenskrar utanríkisstefnu. Íslendingum ber að leggja ríkulega af mörkum til að taka þátt í því alþjóðlega verkefni að draga úr hungri, fátækt, barnadauða og félagslegu ranglæti. Það er siðferðileg skylda auðugrar þjóðar að hjálpa hinum fátækustu til sjálfshjálpar. Sjálfbær þróun, ekki síst á sviðum sjávarútvegs og endurnýjanlegrar orku, á jafnan að vera í öndvegi.

Trúverðugleiki Íslands byggir á virkri þátttöku og að framlög til þróunarsamvinnu nái viðmiðum SÞ um 0,7% af vergri þjóðarframleiðslu.

Ísland beiti sér á alþjóðavettvangi fyrir aðgerðum sem auðvelda þróunarlöndum þátttöku í alþjóðaviðskiptum, sér í lagi afnámi hvers kyns tolla og tæknilegra hindrana. Eitt stærsta hagsmunamál þróunarlanda er bætt aðgengi að mörkuðum Vesturlanda.

Sjálfsákvörðunarréttur íbúa Vestur-Sahara verði viðurkenndur

Íslenska friðargæslan einbeiti sér áfram að mannúðarverkefnum og taki ekki þátt í hernaðarlegum aðgerðum. Leggja þarf áherslu á að efla konur til menntunar, atvinnu og sjálfstæðis í þróunarlöndum.

Traustur gjaldmiðill er lykilatriði

Upptaka evru

Samfylkingin vill hagstjórn sem felur í sér að Íslendingar geti gengið í Evrópusambandið og tekið upp evru. Sú stefna styður jafnframt við krónuna og auðveldar afléttingu gjaldeyrishafta. Með upptöku evru yrði lands­mönnum loks tryggður traustur, alþjóðlegur gjaldmiðill til fram­tíðar. Vextir myndu lækka, verðtrygging verða óþörf og við­skipta­kostnaður minnka. Allt yrði þetta til að bæta lífskjör og treysta stoðir velferðarsamfélagsins í þágu almennings í landinu.

Raunhæf stefna í gjaldeyris- og peningamálum

Samfylkingin er eini stjórnmálaflokkurinn sem hefur til langs tíma haft skýra og raunhæfa stefnu í gjaldeyris- og peninga­málum, stefnu sem styrkir forsendur  hagvaxtar, fjárfestingar, atvinnu­sköpunar og velferðar á næstu árum og áratugum.

Evrópsk samvinna

Samfylkingin vill að unnið verði með Evrópusambandinu, evrópska seðlabankanum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að lausn á vanda krónunnar og hvernig henni verði skipt út fyrir evru. Áætlun sem unnin yrði í samvinnu við þessa aðila, með þátttöku í evrópska myntsamstarfinu að markmiði, hefur þann trúverðugleika sem þarf til að skila árangri.

 

Vinstrihreyfingin grænt framboð – X-V

 

Friðsamlegar lausnir

Ísland á að standa utan hernaðarbandalaga, tala fyrir friði hvarvetna í alþjóðasamfélaginu og beita sér fyrir pólitískum lausnum á átökum. Friðlýsa þarf Ísland fyrir kjarnorkuvopnum. Ísland á að beita sér fyrir banni gegn kjarnorkuvopnum á alþjóðavettvangi.

Tökum á móti fleiri flóttamönnum

Sífellt fleiri eru á flótta í heiminum undan stríðsátökum og afleiðingum loftslagsbreytinga. Ísland þarf að axla ábyrgð í þessum efnum. Þess vegna eigum við að taka á móti umtalsvert fleiri flóttamönnum og tryggja til þess fjármuni og aðstöðu. Jafna þarf aðstæður hælisleitenda og svokallaðra kvótaflóttamanna og tryggja fullnægjandi framkvæmd nýrra útlendingalaga með fjármagni og mannafla þannig að hún sé í takt við ákvæði Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Eflum þróunarsamvinnu

Ísland taki þátt í þróunarsamvinnu með myndarlegum hætti og stórauki framlög til málaflokksins til samræmis við alþjóðlegar skuldbindingar og markmið Sameinuðu þjóðanna.

Betri alþjóðleg viðskipti

Alþjóðlegir fríverslunarsamningar eiga ekki að vera metnir eingöngu úr frá viðskiptalegum hagsmunum né færa aukið vald til stórfyrirtækja á kostnað almennings. Samstarf um verslun og viðskipti hlýtur að vera háð því að mannréttindi almennings séu ekki fótum troðin í viðkomandi ríki. Eflum samstarf í skattamálum og tryggjum þannig aukið gagnsæi og bætta skattheimtu. Ísland á að vera í fremstu röð í baráttunni gegn skattaskjólum. Hvorttveggja stuðlar að jöfnuði.

 

Sjá einnig:

Þrjú helstu atriðin sem flokkurinn setur á oddinn í kosningabaráttunni

Velferðarmálin og almannatryggingar

Efnahags- og atvinnumál

Mennta- og menningarmál

Utanríkismál

Stjórnkerfið

Það sem kjósendur ættu að varast

Umhverfismál

Þarf að herða refsingar í kynferðisbrotamálum?

Samgöngumál

Á Þjóðkirkjan að vera á fjárlögum?

Stjórnarskráin

Húsnæðismál

Sjávarútvegsmál

Uppreist æra

Málefni krabbameinssjúklinga

Útlendingamál

Landbúnaðarmál

Heilbrigðismál

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Dineout og Heimar umbreyta upplifun gesta í mathöllum – ein greiðsla, margir staðir

Dineout og Heimar umbreyta upplifun gesta í mathöllum – ein greiðsla, margir staðir
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Orðið á götunni: Hvenær tekur maður þátt í málþófi og hvenær ekki?

Orðið á götunni: Hvenær tekur maður þátt í málþófi og hvenær ekki?