fbpx
Mánudagur 21.júlí 2025
Eyjan

Að allt verði einsog það var

Ari Brynjólfsson
Sunnudaginn 15. október 2017 08:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mynd/Wikimedia commons

Arnaldur Máni Finnsson skrifar:

Hún er áhugaverð draumsýnin um að hægt væri að spóla veröldinni tilbaka, stöðva tímann jafnvel, eða festa fólk og staði í rómantískri og þægilegri útgáfu af sjálfu sér; úr samhengi við samtímann. Það er furðulegt þegar við þurfum að óttast framtíðina, jafn spennandi og við gefum okkur að hún sé. Það er því furðulegt – þegar allir flokkar ganga inn í kosningabaráttuna með einhverskonar bjartsýni að vopni – að alið sé á ótta um að einhver ein útgáfa af ríkisstjórn í landinu sé óæskilegri en önnur. Það er einhverskonar hugsun sem felur ekki í sér að flykkja fólki á bakvið málstað, heldur á móti mögulegum lýðræðislegum niðurstöðum fólksins í landinu, þegar atkvæðin hafa verið talin og „umboðið“ framselt í hendur kjörinna fulltrúa að mynda starfhæft þing og yfirstjórn þess. Þeir eru keimlíkir en þó fjölbreytilegir frasarnir sem stjórnmálamenn- og konur halda á lofti; keimlíkir því þeir fela á ísmeygilegan hátt í sér sömu fortíðarþránna. Fjölbreyttir því það eru mismunandi þættir í hugmyndinni um „fortíðina“ sem við viljum halda á lofti. Ég ætla ekki að velja úr og dæma um hvort eða hver þeirra eigi rétt á sér. En eitt er augljóst þegar vísað er til þess að við búum í bestu mögulegu útgáfunni af Íslandi, og að aldrei hafi verið jafn gott að búa hér; að það fer algjörlega eftir stétt og stöðu.

Ríkidæmi og fátækt

Þó hinir fátæku hafi aldrei haft jafn mikið á milli handanna og nú, þá er fátækt þeirra þó meiri en nokkru sinni ef hún er sett á vogarskálina og metin með hliðsjón af ríkidæmi hinna ríku. Þó „verkalýðurinn“ keyri Range Rover og gláp’á flatskjá, þá er hyldýpið á milli þeirra sem skortir og þeirra sem njóta jafn óbrúanlegt. Við fáum aldrei aftur hið rómantíska Ísland þar sem slagorð flokkanna geta verið „stétt með stétt“ – eða „Ísland fyrir Íslendinga“. Og kannski æskjum við þess ekki heldur. Það er óþarfi að draga fram ummæli eða setja einn frekar en annan í sviðsljósið vegna skorinorðs málflutnings nú í upphafsrimmum kosningabaráttunnar, en þó er áhugavert að leyfa sér að hrífast af taktík eða persónum sem fram koma, burtséð frá samleið manns með viðkomandi þegar kemur að áherslum og forgangsröðun. Kosningar eru mannfélags- og persónustúdía og áhugaverðar að því leyti að einhverskonar þverskurður skoðana og mannkosta birtist, ásamt með góðri slettu af gallagripum, í þeim spegli samtímans sem fjöl- og samfélagsmiðlar birta okkur. Spurningin er hvort við sjáum okkur sjálf í þessum spegli? Eru þarna fulltrúar sem við trúum að hafi svipaðar hugmyndir og við sjálf um það hvernig samfélagið á að vera og fúnkera?

Við sjálf – og ábyrgðin

Arnaldur Máni Finnsson ritstjóri Austurlands.

Flestir sem gefa sér tíma til að lesa leiðara í blaði hafa vit og þroska til að horfast í augu við að öll erum við fyrirmyndir á einhvern hátt. Við krefjumst þess af stjórnmálamönnum – eins og okkur sjálfum – að ráða við það að koma hreint fram og af heiðarleika gagnvart mönnum og málefnum. Flestum er illa við undirferli og aldrei er vísan of oft kveðin um flísina í auga náungans; við þurfum stöðugt að minna okkur á dæmisöguna sem afhjúpar þann mannlega eiginleika að benda heldur á böl annarra en horfa í eigin bresti. Afbrýðisemi, græðgi, sjálfshygli og ofmetnaður er ekki bara vandi afvegaleiddrar umræðu í aðdraganda kosninga heldur okkar daglega brauð, þegar við reynum að halda eða rétta okkar hlut, í basli hversdagsins. Ekkert hreyfir jafn heiftarlega við okkur eins og sært stolt, óréttlát málsmeðferð eða kúgun sem helst í hendur við ógn og vald. Og ekkert snertir jafn innilega viðkvæma taug smáþjóðar eins og okkar, eins og þegar vinnusemi og dugnaður, einlægni og heiðarleiki skila verðskulduðum heiðri, sanngjörnum málalokum. Við megum þakka fyrir að þær fyrirmyndir sem margt af unga fólkinu okkar lítur til; landsliðsmennirnir og þjálfararnir í kringum hið ótrúlega afrek – að komast á HM í knattspyrnu karla 2018 – eru öllu betri fyrirmyndir en margur stjórnmálamaðurinn. Þarna er fullt af sterkum karakterum sem bera ábyrgð, hafa stjórn á skapi sínu og geðshræringu, hvort sem blæs í seglin eða beint á móti.

Það eru kosningar í nánd og við berum ábyrgð á því að láta okkur ekki dreyma um eitthvað sem var, eða þyrfti að vera meira eins og það hefur alltaf verið. Möguleikar okkar í dag eru meiri en nokkurntíma hefur verið; þessvegna þurfum við ekki stjórnmál og flokkadrætti af gamla skólanum. Við þurfum hugmyndafræði liðsheildar, samábyrgðar og metnaðar, þar sem þing og þjóð deilir kjörum, til þess fyrst og síðast að ungt fólk í samtímanum fái ekki á tilfinninguna að það sé algjörlega marklaus pæling að sækjast eftir því að hafa áhrif á samfélagið sitt. Þjóðfélög stefna þá fyrst í óefni þegar almenningur missir allan áhuga á stjórnmálum og lætur valdastéttunum eftir að deila og drottna. Vonandi missum við ekki okkar „gamla góða Ísland“ lengra inní þá hít – að ekkert skipti máli nema næsta fix.

Grein Arnaldar er leiðari Austurlands. Smelltu hér til að lesa blaðið.  

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Dineout og Heimar umbreyta upplifun gesta í mathöllum – ein greiðsla, margir staðir

Dineout og Heimar umbreyta upplifun gesta í mathöllum – ein greiðsla, margir staðir
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Orðið á götunni: Hvenær tekur maður þátt í málþófi og hvenær ekki?

Orðið á götunni: Hvenær tekur maður þátt í málþófi og hvenær ekki?