Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður Vinstri grænna skrifar:
Frammi fyrir margvíslegum afleiðingum hlýnunar á heimsvísu, reynum við að hemja losun gróðurhúsagasa og andæfa neikvæðum umhverfisbreytingum. Veðurfar á Íslandi breytist hratt. Gróðri fer fram en margt annað er okkur ekki að skapi, til dæmis öfgar í veðurfari og tilheyrandi tjón á landi.
Umhverfið líka í forgang
Í aðdraganda kosninganna verður mikil áhersla lögð á sömu mál og síðast; velferð og menntun í víðasta skilningi og úrbætur á vegum og brúm, tengingu þrífasarafmagns og ljósleiðara ofl. Umhverfismálin eiga líka að vera í forgangi, ekki bara jafnvægi milli náttúrunytja og náttúruverndar, heldur sér í lagi loftslagsmálin. Aðgerðir á stigi sveitarfélaga og ríkis verða að vera skipulagðar og full fjármagnaðar. Fólk og fyrirtæki til bæja og sveita eru líka mikilvægir leikendur í því dramatíska verki sem verður æ stærra og magnþrungnara. Þar gildia félagslausnir og samvinna í stað einkavæðingar og sérhyggju.
Mörg brýn verkefni
Vinstrihreyfingin – grænt framboð vill auka veg og festu landsbyggðarinnar. Einmitt sú stefna tengist loftslagsmálum. Ég hef fært rök fyrir málefnum sem ég minni á hér, í samræmi við grunngildi VG:
– Efnahagslega hvata og græna skatta til að stýra okkur í átt að grænna samfélagi – með tekjuívilnun til þeirra efnaminni svo þunginn þar verði sem léttbærastur.
– Skýra, fjármagnaða aðgerðaráætlun sem miðar hraðar en nú að því að minnka losun gróðurhúsagasa og leggur um leið áherslu á kolefnisbindingu. Til þess þarf uppgræðslu rofins lands, endurheimt hluta votlendis og margeflda skógrækt. Styrkja á bændur, sem vilja minnka bústofn jafnvel tímabundið, til að leika stærra hlutverk en landgræðslu – og skógræktarbændur gera nú.
– Heildræna orkuskiptaáætlun þar sem blandað er saman rafvæðingu bíla og vinnuvéla og nýtingu innlends eldsneytis á tækin. Þarna er um að ræða metan, alkóhól og lífdísil. Sumt af því má framleiða með samvinnu bænda.
– Myndarlegan fjárstuðning frá hinu opinbera til rafvæðingar í samgöngum og atvinnuskyni, til nýsköpunar í orkumálum og til verkefna sem binda kolefni, m.a. fyrir atbeina bænda.
– Að snúa við samþjöppun/fækkun vinnslustöðva í landbúnaði, minnka landflutninga, stytta vegalengdir að auðlindum, stytta vegalengdir okkar og ferðamanna að þjónustu, minnka sóun hráefna og matvæla, auka nýtingu hráefnis, t.d. lífræns úrgangs, og auka áherslu á innlenda matvælaframleiðslu.
– Skýra stefnu um orkuþörf og þolmörk orkuvinnslu, ásamt greiningu á þolmörkum lands og samfélaga gagnvart ferðaþjónustu sem mun leiða til álagsstýringar á sumum stöðum og landsvæðum. Stærri hluti tekna af ferðaþjónustu á að verða eftir í héraði.
Áhersluatriðum sem þessum verður fylgt eftir nái VG að leiða félagshyggjustjórn undir forystu Katrínar Jakobsdóttur; samsteypustjórn með öðrum og framsæknari áherslum en sáust á verkum fráfarandi stjórnar. Hverjum treystir þú?