Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins segir að salan og kaup Orkuveitu Reykjavíkur á OR-húsinu á Bæjarhálsi sé furðulegur fjármálagjörningur og sé mjög kostnaðarsamur fyrir íbúa Reykjavíkur og íbúum annarra sveitarfélaga sem eiga Orkuveituna.
Árið 2013 seldi Orkuveitan húsnæðið fyrir 5,1 milljarð króna til lífeyrissjóða og fjárfestingafélaga en hélt áfram að leigja húsnæðið. Síðar kom í ljós að hluti hússins, sem var tekið í notkun árið 2002, var mjög skemmdur af völdum myglu. Í gær var svo tekin ákvörðun um að kaupa húsið aftur á 5,5 milljarða, sem er rúmlega 50 milljónum meira en borgað var fyrir húsið á sínum tíma miðað við neysluverðsvísitölu. Á þeim fjórum árum sem liðin eru frá sölu hússins hefur OR borgað meira en 900 milljónir í leigu.
Kjartan segir að hann hafi ekki samþykkt þetta og málið í heild sé furðulegur fjármálagjörningur, ekki síst þegar litið sé til verðsins sem fékkst fyrir húsið þegar það var selt í toppástandi samanborið við verðið sem húsið er keypt á þegar vitað er að húsið sé meingallað:
Hvernig sem dæmið er skoðað er ljóst að þessi fjármálagerningur er mjög furðulegur og hefur verið mjög kostnaðarsamur fyrir Orkuveituna og eigendur hennar, þ.e. almenning í Reykjavík og öðrum eigendasveitarfélögum Orkuveitunnar. Ábyrgðina bera þeir pólitísku flokkar sem samþykktu söluna á sínum tíma,
segir Kjartan. Í bókun Kjartans á stjórnarfundi Orkuveitunnar í gær segir meðal annars:
Árið 2013 ,,seldi“ Orkuveita Reykjavíkur húsnæði sitt að Bæjarhálsi fyrir 5.100 milljónir króna sem nemur 5.467 milljónum króna að núvirði miðað við neysluverðsvísitölu. Nú, réttum fjórum árum síðar, er húsnæðið keypt aftur á 5.516 milljónir króna. Á þessu fjögurra ára tímabili hafa leigugreiðslur af húsinu numið 906 milljónum króna. Við þetta bætist áfallinn kostnaður vegna skemmda og viðgerða á vesturálmu OR-hússins sem nemur nú 470 milljónum króna.
Segir hann jafnframt að þetta hafi í raun verið dýrt lán og viðskiptin í heild hafi verið óhagstæð:
Enginn kostur virðist vera góður í þeirri stöðu sem nú er kominn upp. En í ljósi þess taps sem Orkuveitan hefur orðið fyrir vegna hins furðulega fjármálagjörnings frá árinu 2013 verður þó að telja æskilegt að kannað sé til hlítar hvort það fasteignafélag, sem er nú skráður eigandi hússins og hefur haft af því tekjur undanfarin ár, eigi ekki að axla meiri ábyrgð á kostnaði vegna óhjákvæmilegra viðgerða og endurbóta á því en ráð er gert fyrir samkvæmt fyrirliggjandi tillögu.