Á heimasíðu Hæstaréttar hefur nú verið birt viðtal við Eirík Tómasson sem lét af störfum sem dómari við réttinn 1. september s.l. Það er nýbreytni í starfi réttarins að birta svona efni á heimasíðu sinni. Gaman væri að heyra hvernig starfsháttum við þessa léttmetissíðu er háttað. Hver er ábyrgðarmaður síðunnar? Hver tók viðtalið við Eirík? Skrifaði hann það sjálfur? Er þarna kannski verið að mynda vettvang þar sem dómarar geta tjáð sig um starfshætti almennt við dóminn? Megum við eiga von á að dómarar sem enn eru við störf muni sýna sig þarna? Kannski telur dómurinn að venjulegir fjölmiðlar í landinu ráði ekki við að fjalla um starfsemi réttarins og þess vegna þurfi hann að sjá um það sjálfur?
Ekki verður betur séð en að Eiríkur leitist við að svara sjónarmiðum sem ég hef sett fram á undanförnum árum og áratugum um starf Hæstaréttar og hlutverk dómara við meðferð mála. Þar hef ég talið að hverjum og einum dómara sé skylt að taka afstöðu til máls sem fyrir honum liggur eftir bestu samvisku sinni og þekkingu á aðferðafræði lögfræðinnar. Þar snúist málið um að beita réttarheimildum við úrlausn málanna, settum lögum og að þeim slepptum öðrum heimildum. Ein aðferð sé jafnan betri en önnur og þess vegna sé bara ein rétt niðurstaða í hverju máli, jafnvel þó að menn kunni að greina á um hvaða heimildir eigi við og þá einnig um það hver hin rétta niðurstaða sé. Dómara beri að greiða atkvæði í samræmi við niðurstöðu sína um beitingu heimildanna sem honum ber skylda til að starfa eftir, en ekki samningum við aðra dómara sem kunna að hafa verið honum ósammála. Forsenda fyrir því að hafa Hæstarétt fjölskipaðan sé að dómararnir vinni svona.
Ástæða er til að hvetja menn til að lesa þetta viðtal við Eirík. Textinn er ekki langur.
Af viðtalinu verður ekki annað ráðið en að Eiríkur sé á allt annarri skoðun en ég um hlutverk dómaranna. Hann kveðst oft hafa talið sig eiga val um fleiri en eina mismunandi niðurstöðu í málunum sem hann sat í sem dómari. Talar hann um þörfina á að dómarar sætti sig við málamiðlun við hina dómarana og standi þá að dómum sem þeir sjálfir hefðu viljað haga öðru vísi. Með öðrum orðum eigi niðurstaðan að ráðast af samningum við hina dómarana en ekki beitingu réttarheimilda. Ég man eftir dæmi úr starfi mínu, þar sem samdómari minn vísaði til þess að hann hefði fallist á niðurstöðu mína í öðru máli áður og ég gæti því vel fallist á niðurstöðu hans núna! Hann áleit greinilega að samningsstaðan væri honum hagfelld. Kannski menn þurfi að una ranglátri skerðingu á frelsi sínu vegna þess að samningsstaða milli misviturra dómara hafi krafist þess?
Eiríkur segir: „Engin launung er á því að stöku sinnum á þessum sex árum hef ég staðið frammi fyrir tveimur kostum, annaðhvort að fylgja meirihluta dómenda að málum eða skila sératkvæði. Yfirleitt valdi ég fyrri kostinn, að því tilskildu að hann uppfyllti að mínum dómi það frumskilyrði að vera réttur í lagalegum skilningi. Með því móti átti ég þess kost að taka þátt í að ganga frá atkvæði meirihlutans og þar með endanlegum dómi réttarins.“
Eiríkur er að segja að hann hafi átt aðild að dómum sem hann hefði frekar viljað haga á annan hátt. Engin grein er gerð fyrir þessu við birtingu dómanna. Þar eru dómararnir bara nafnlausir þátttakendur í hópnum. Fróðlegt væri að fá frá Eiríki upptalningu á þeim dómum, þar sem hann lét af eigin bestu skoðun í þágu samstöðunnar. Eiga dómþolar ekki rétt á að fá að vita þetta?
Í 60. gr. stjórnarskrár er kveðið svo á að dómendur skuli einungis fara eftir lögunum. Beiting þeirra getur ekki leitt til margra niðurstaðna sem teljast „réttar í lagalegum skilningi“. Í þessari grunnskyldu dómara hlýtur að felast krafa um að þeir fylgi sinni eigin sannfæringu um efni laganna. Niðurstaða í fjölskipuðum dómi getur aldrei átt að ráðast af samningum milli dómaranna. Svo er að sjá sem Eiríkur telji að mismunandi dómsniðurstöður í sama málinu geti verið réttar „í lagalegum skilningi“. Kannski telur hann að sakfelling og sýkna í refsimáli geti verið jafn réttar niðurstöður.
Það er varla ásættanlegt fyrir þá, sem eiga hagsmuni sína undir niðurstöðum dómstólsins, að þurfa að una vinnubrögðum á borð við þau sem Eiríkur lýsir.
Jón Steinar Gunnlaugsson hrl.