Björn Valur Gíslason er í bankaráði Seðlabankans. Hann segir alvarlegt að trúnaðargögn hafi farið úr bankanum og endað á fjölmiðli. Þar á hann við símtal Davíðs Oddssonar þáverandi seðlabankastjóra og Geirs H. Haarde þáverandi forsætisráðherra sem birt var í Morgunblaðinu um helgina. Fjölmargir fjölmiðlar hafa reynt að fá samtalið afhent frá Seðlabankanum en verið hafnað. En Davíð er ritstjóri Morgunblaðsins og á þeim síðum birtist samtalið sem er frá 6. október 2006.
Í annarri frétt á Eyjunni segir að samkvæmt Seðlabankanum fékk Morgunblaðið símtalið ekki afhent og var það ekki gert með leyfi Seðlabankans. Það séu því líkur á því að Davíð Oddsson hafi tekið afrit af símtalinu á brott með sér út Seðlabankanum. Björn Valur vill fá það staðfest að samtalið sé raunverulegt og ekkert sé skilið eftir.
„Ég tel eðlilegt að bankaráð Seðlabankans ræði þetta mál út frá því hvernig gögn fara úr bankanum. Ég tel að bankaráðið sem eftirlitsaðili bankans hljóti að ræða þetta og taka afstöðu til þess.“
Þá segir Björn Valur:
„Það er auðvitað alvarlegt mál ef trúnaðargögn og önnur gögn, sem meira að segja Alþingi hefur ekki fengið aðgang að, skuli fara úr Seðlabankanum. Það ber að taka það alvarlega.“