Í síðustu viku kom Helgi Seljan fréttamaður á RÚV að máli við mig og óskaði eftir viðtali um nýútkomna bók mína „Með lognið í fangið“ og málssókn Benedikts Bogasonar hæstaréttardómara á hendur mér. Benedikt byggir málssókn sína á því að ég hafi meitt æru hans með því að nota í bókinni orðið„dómsmorð“ um dóm hans og þriggja annarra dómara í febrúar 2012 þar sem gamall vinur minn, heiðursmaðurinn Baldur Guðlaugsson, var dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir innherjasvik. Krefst Benedikt ómerkingar ummæla minna um þetta og 2ja milljón króna bóta.
Viðtalið var tekið á skrifstofu minni í síðustu viku. Fréttamaðurinn hafði ekki haft orð á því fyrir fram að hann hygðist beina spjótum sínum að minnisblaði, sem Benedikt eða lögmaður hans hafði fengið honum í hendur. Var ég sagður hafa afhent Benedikt og tveimur öðrum dómurum blaðið, þegar þeir voru með þetta mál til meðferðar í dóminum, en ég var þá einnig starfandi sem dómari við Hæstarétt. Eftir að viðtalið hafði staðið góða stund tók Helgi að spyrja mig um blaðið. Benedikt eða lögmaður hans höfðu sýnilega afhent honum það í því skyni að reyna að koma höggi á mig. Og Helgi reyndist verða fús til þess. Ég segi það satt að ég mundi ekki sérstaklega eftir þessu blaði. Mér fannst afhending þess ekki mjög merkileg og er það sjálfsagt ástæða þess að ég mundi ekki eftir því á augabragði, þegar maðurinn tók að spyrja mig um það. Þegar hann framvísaði því við upptöku á viðtalinu tók þetta að rifjast upp fyrir mér og kannaðist ég þá við að hafa samið það sem á blaðinu stóð.
Eftir viðtalið hafði ég upp á þessu blaði í tölvu minni og sendi fréttamanninum orðsendingu um það. Á þessu minnisblaði er að finna nokkrar spurningar sem tengdust sakarefninu í máli Baldurs og lögfræðileg svör mín við þeim. Efnið var frekar gagnsætt og svörin við spurningunum augljós. Þau vörpuðu ljósi á að ekki væru skilyrði fyrir því að sakfella Baldur í málinu (Minnisblaðið er birt í heild á Mbl.is í frétt af málinu 14. nóvember). Algengt er að dómarar við Hæstarétt ræði sín á milli um sakarefni mála sem þeir hafa til meðferðar, og þá eftir atvikum við aðra dómara sem ekki eiga sæti í viðkomandi máli. Ég sá því ekkert athugavert við að ég afhenti þeim þetta blað, enda voru bara á því áreitnislausar ábendingar um lögfræðileg atriði sem vörðuðu málið. Eftir að forseti dómsins í þessu máli kom að máli við mig af þessu tilefni varð mér ljóst að dómurunum hafði mislíkað afhending þess. Fyrst svo væri bað ég hann að skila afsökunarbeiðni minni til þeirra. Hafði ég ekki frekari afskipti af málinu.
Í fréttaþættinum Kveik komu fram hugleiðingar um að ég kynni að hafa brotið gegn lögum með háttsemi minni. Þær eru bersýnilega fráleitar og aðeins settar fram til að þyrla upp meira ryki. Ég var auðvitað ekki að beita neinu valdi eða þvingunum, þó að ég vildi benda á fáein lagaatriði í málinu sem hefðu átt að liggja ljós fyrir dómurunum. Það hefði hver sem er getað gert, t.d. með grein í blaði, án þess að slíkt teldist þvingun gagnvart dóminum. Dómarar njóta sjálfstæðrar stöðu samkvæmt lögum og láta því ekki utanaðkomandi ábendingar um efni dómsmálanna hafa önnur áhrif á sig en þeim finnst sjálfum tilefni til.
Skítt með dómsmorðið
Í ljós kom við útsendingu á þættinum Kveikur s.l. þriðjudag að þetta blað var eina umfjöllunarefnið tengt þessu dómsmáli sem flutt var í þættinum. Ekkert var þar vikið að dómsmáli Benedikts né efni bókar minnar, þar sem ég kalla þennan dóm dómsmorð. Fyrir þeirri orðnotkun færi ég ítarleg rök í bók minni. Það eru þau sem munu verða til umfjöllunar í dómsmálinu og ættu einnig að vera það á hinum opinbera vettvangi. Þetta minnisblað skiptir þar engu máli. Sá gjörningur að leggja það fram í málinu er sýnilega ekki til annars ætlaður en að drepa málinu á dreif. Hér á að reyna að koma á mig einhvers konar höggi, í þeirri von að rugla muni væntanlegan dómara málsins í ríminu og auka sigurlíkur Benedikts. Ekki veit ég hvers vegna upplýst er um blað þetta núna en ekki fyrir þremur árum þegar ummæli mín um dómsmorðið birtust fyrst (sjá bók mína „Í krafti sannfæringar“, bls. 304). Mér finnst ámælisvert af fréttamanni RÚV að taka þátt í þessu með þeim hætti sem hann gerði í þessum sjónvarpsþætti. Það var eins og hann hefði engan áhuga á að fjalla um rök mín fyrir því að saklaus maður hefði verið dæmdur til fangelsisrefsingar á forsendum sem dómararnir hlutu að vita að voru algerlega ófullnægjandi. Hugarfarinu á bak við þetta verður best lýst með þessum hætti: Skítt með dómsmorðið á sakfellda manninum ef unnt er að koma höggi á þennan mikla skaðvald sem hefur leyft sér að taka til máls opinberlega um misnotkun dómsvaldsins í landinu.
Að flytja mál gegn sjálfum sér
Það er kannski ekki rétt hjá mér að minnisblaðið skipti engu máli í dómsmálinu, því það styður þá skoðun mína að dómararnir hafi kveðið upp dóminn gegn betri vitund. Þarna fengu þeir að minnsta kosti lögfræðilegar ábendingar sem hefðu átt að duga þeim til að dæma þetta mál eftir lögum. Það sýnir ekki mikla snilli við málfærsluna að flytja málið gegn sjálfum sér eins og stefnandi gerir með því að leggja blaðið fram. Lögmaðurinn hefði kannski átt að hafa vit fyrir honum en hefur kannski sjálfur talið að tilefnislaust moldviðri myndi þjóna málssókninni vegna skorts á frambærilegum málflutningi.
Ég skora á þá landsmenn, sem áhuga hafa á þessu, að kynna sér röksemdirnar sem ég færi fram í bók minni um misnotkun dómsvaldsins eftir hrun, bæði í máli Baldurs Guðlaugssonar og öðrum málum. Menn ættu ekki að láta eftir Benedikt Bogasyni og hjálparkokkum hans að drepa því alvarlega máli á dreif með tittlíngaskít, eins og Nóbelsskáldið kallaði það.
Jón Steinar Gunnlaugsson er fyrrverandi hæstaréttardómari