Ungliðahreyfing Vinstri grænna sendu frá sér ályktun í gærkvöldi þar sem stjórnarmyndunarviðræður þingflokks VG við Sjálfstæðisflokkinn voru fordæmdar. Þar segir að Ung vinstri græn muni „ávallt fordæma gjörðir sem eru þvert á stefnu Vinstri grænna og í andstöðu við grasrótina,“ og að UVG séu eindregið á móti fyrirhuguðum viðræðum.
Þá segir frekar í ályktuninni:
„Við getum ekki samþykkt síendurteknar lygar, spillingu og frændhygli. Við getum ekki samþykkt leyndarhyggju með kynferðisbrotamönnum.- /- Við biðlum því til þingflokks Vinstri grænna að sýna ábyrgð til framtíðar með því að fara ekki í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum og láta reyna á stjórnarmyndum með öllum öðrum flokkum en Sjálfstæðisflokki og Miðflokki, þar sem ríkisstjórnarsamstarf með spilltum flokkum mun rýra trúverðugleika hreyfingarinnar. Það er mikilvægt til þess að Vinstri græn verði sterkt afl til framtíðar og til þess að geta staðið að langtímaúrbótum í samfélaginu. Til þess að svo geti orðið verðum við að taka skýra afstöðu gegn samstarfi við flokka þar sem að spilling og leyndarhyggja hefur grasserað.“
Ljóst er á þessum orðum að UVG treysta Katrínu Jakobsdóttur ekki til að ná viðunandi málefnasamningi við Sjálfstæðisflokkinn, jafnvel þótt talið sé víst að hún verði forsætisráðherra í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki. Er ályktunin í tak við önnur viðbrögð baklands VG sem hefur látið óánægju sína í ljós á samfélagsmiðlum. Hvort þetta skaði VG og stöðu Katrínar í viðræðunum við hina flokkana tvo skal ósagt látið, en ljóst er að Katrín Jakobsdóttir þarf að gera mikið til að friða óánægjuraddirnar.