Svo virðist sem að nokkrir flokksbundnir stuðningsmenn Vinstri grænna hafi skráð sig úr flokknum, í mótmælaskyni við ákvörðun þingflokks VG um að hefja stjórnarmyndunarviðræður við Sjálfstæðisflokkinn í dag.
Samtals um þrjátíu manns hafa sagt sig úr flokknum um helgina og í dag, samkvæmt framkvæmdarstjóra flokksins, Björgu Evu Erlendsdóttur, en þetta kemur fram á Vísi. Hún segir um sex þúsund manns skráða í flokkinn og því sé þetta ekki stórt hlutfall fólks sem hafi skráð sig úr flokknum.
„Svo er alltaf einhver hreyfing, en þessi er meiri en venjulega. Svo eru þeir sem hringja með þjósti og segja sig úr en eru alls ekki skráðir.“
Mikillar óánægju gætir meðal margra stuðningsmanna VG við þeim tíðindum að flokkurinn vilji fara í stjórnarviðræður við Sjálfstæðisflokkinn. Þetta sést best á samfélagsmiðlum, þar sem margir lýsa vanþóknun sinni með gang mála. Þar er þingmönnunum Andrési Inga Jónssyni og Rósu Björk Brynjólfsdóttur hampað, en þau kusu gegn því að hefja viðræður við Sjálfstæðisflokkinn á þingflokksfundinum í dag.