Formenn Vinstri grænna, Framsóknarflokks, Samfylkingarinnar og Pírata komu saman til fundar klukkan 10 til að ræða stjórnarmyndun. Að þeim fundi loknum munu þingflokkar þessara flokka, hver í sínu lagi, funda um framhaldið.
Í frétt RÚV segir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, talsmaður Pírata, að hún sé bjartsýn á framhaldið. Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segist hóflega bjartsýnn; hann væri ekki í þessum viðræðum nema telja að samstarfið gæti orðið að veruleika.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, sagði í gær að framhaldið myndi ráðast í dag. Hún sagði við RÚV að engin sérstök mál gerðu viðræðurnar erfiðar.
„Ég myndi nú ekki segja það en það liggur auðvitað fyrir að við erum ekki öll á sömu blaðsíðu og það þarf að finna lausnir á málum. Það eru auðvitað verkefnið í svona samtali að finna lausnir á þeim málum sem menn eru ekki alveg sammála um,“ sagði Katrín.