Sigurður Jónsson skrifar: Niðurstaða Alþingiskosninganna 28.október liggur nú fyrir. Hafi einhver búist við að úrslitin myndu leiða til ákveðinnar niðurstöðu um næstu ríkisstjórn varð það ekki raunin. Átta flokkar eiga fulltrúa á þingi og það liggur fyrir að stjórnarmyndun getur reynst snúin. Eins og allir vita sleit Björt framtíð ríkisstjórninni og sagðist gera það af prinsipp ástæðum. Þjóðin kallaði á traust og heiðarleika. Þöggun væri ekki i boði kallaði Björt framtíð það. Full ástæða væri til að slíta ríkisstjórn vegna þeirra mála sem uppi voru um uppreisn æru vegna barnaníðinga. Björt framtíð sagði þjóðina kalla á slíkt.
Í framhaldinu hlýtur það að vekja athygli að Björt framtíð þurrkaðist út og fékk ekki neinn stuðning meðal kjósenda. Það voru allt önnur mál sem kjósendur létu ráða atkvæði sínu.
Hér í okkar kjördæmi vekur það athygli að Sjálfstæðisflokkurinn er langt frá að ná sínu eðlilega fylgi.Það er mörgum mikil vonbrigði að Unnur Brá Konráðsdóttir náði ekki kjöri. Unnur Brá hefur á síðustu mánuðum unnið sér mikið traust með góðri frammistöðu sem forseti Alþingis. Það hlýtur að vera mikið umhugsunarefni fyrir Sjálfstæðismenn hve hlutur kvenna er lítill í þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Það sýndi sig hér í kjördæminu að það gengur ekki að stilla upp þremur körlum í efstu sæti.
Það sýnir sig líka að prófkjör ná ekki því markmiði að jafna kynjahlutföllin og það er erfitt fyrir ungt fólk að ná einu af efstu sætunum. Sjálfstæðisflokkurinn hlýtur að taka reglur um röðun á framboðslista til alvarlegrar endurskoðunar. Sveitarstjórnarkosningar eru framundan og það verður ákveðin prófraun fyrir Sjálfstæðisflokkinn til að leiðrétta hlut kvenna á framboðslistunum.
Það hlýtur að vera einnig ákveðin áminning til fleiri framboða hér í Suðurkjördæmi að einungis tvær konur eru meðal 10 þingmanna kjördæmisins.
Það má segja að sigurvegarar hér í kjördæminu séu Miðflokkurinn sem fær fínt fylgi og Birgir Þórarinsson úr Vogunum nær kjöri. Sama má segja um Flokk fólksins,þar sem Karl Gauði Hjaltason náði fínni kosningu. Framsóknarflokkurinn stendur sig útrólega vel eftir að hafa fengið klofningsframboð. Suðurnesjakonan Silja Dögg Gunnarsdóttir heldur sínu þingsæti og er það vel. Silja Dögg hefur sýnt það í verki að hún er duglegur þingmaður og hefur barist vel fyrir hagsmunamálum kjördæmisins.
Samfylkingin og Vinstri græn geta þokkalega unað við sína útkomu og halda sínum þingsætum,en ekkert meira en það.
Smári McCarthy náði jöfnunarsæti.Píratar hljóta að hugsa sinn gang og sérstaklega hér í Suðurkjördæmi. Málflutningur Smára fór yfir strikið og hann tapaði örugglega atkvæðum á sinni framkomu.
Þingmenn búsetti hér á Suðurnesjum verða fimm. ‚Asmundur Friðriksson og Vilhjálmur Árnason fyrir Sjálfstæðisflokkinn,Birgir Þórarinsson fyrir Miðflokkinn,Oddný G.Harðardóttir fyrir Samfylkinguna og Silja Dögg Gunnarsdóttir fyrir Framsóknarflokkinn.
Hlusta þarf á kröfur eldri borgara
Flokkur fólksins er einn af sigurvegurum kosninganna. Það sýnir sig að mikill hljómgrunnur er fyrir því að það verði að hlusta á stóran hóp í þjóðöfélaginu sem hefur ekki fengið í nægilega ríkum mæli að njóta góðærisins í landinu. Það er stór hópur meðal eldri borgara sem kallar á að fá betri kjör. Barátta eldri borgara hefur skilað því að málin eru á dagskrá hjá öllum flokkum. Að fenginni reynslu treysta margir eldri borgarar því ekki nógu vel að aðrir stjórnmálaflokkar en Flokkur fólksins standi við stóru orðin. Af þeirri ástæðu fékk flokkur fólksins þessa góðu útkomu.
Framtíð sveitarfélafganna ræðst 11.nóvember 2017
Kjósendur í Garði og Sandgerði taka ákvörðun um það laugardaginn 11.nóvember næst komandi hver framtíð sveitarfélaganna verður. Ætla þeir að samþykkja að sveitarfélögin renni saman í eitt eða verða þau áfram tvö.
Það er í höndum íbúanna sjálfra hvernig framtíðin verður.