Miðflokkurinn var ótvírætt sigurvegarinn í Norðvesturkjördæmi í nýafstöðnum alþingiskosningum. Flokkurinn fékk 2.456 atkvæði eða 14,2% atkvæða og hlaut tvo þingmenn kjörna. Flokkurinn var stofnaður fáum vikum fyrir kosningar af fyrrverandi formanni Framsóknarflokksins, Sigmundu Davíð Gunnlaugsson, sem sagði sig úr flokknum. Með honum fór einnig þáverandi þingmaður kjördæmisins Gunnar Bragi Sveinsson. Eru vandfundin dæmi þess að nýr flokkur nái viðlíka árangri í fyrstu tilraun. Framsóknarflokkurinn fékk einnig mjög góða útkomu og tapaði aðeins 2,4% atkvæða þrátt fyrir djúpstæðan klofning og hélt báðum þingsætum flokksins.
Aðeins Flokkur fólksins og Samfylkingin bættu við sig fylgi frá kosningunum í fyrra. Flokkur fólksins fékk 5,3% fylgi nú og bætti við sig 2,8% en það dugði ekki fyrir þingsæti. Samfylkingin bætti við sig 3,5% atkvæða og hélt þingsæti sínu en er aðrar kosningar í röð með minna fylgi en 10%.
Sjálfstæðisflokkurinn tapaði mestu fylgi í kjördæminu eða 5% og missti eitt þingsæti. Það var Vestfirðingurinn Teitur Björn Einarsson sem missti þingsæti sitt.
Vestfirðingar eiga tvo þingmenn af átta, Höllu Signýju Kristjánsdóttur, Framsóknarflokki og Lilju Rafney Magnúsdóttur, Vinstri grænum. Aðrir þingmenn kjördæmisins eru búsettir á Vesturlandi. Athygli vekur að enginn þingmaður er frá gamla kjördæminu í Norðurlandi vestra.
Úrslitin voru nokkuð frábrugðin skoðanakönnunum sem birst höfðu fyrir kosningar um fylgi við flokkana. Þar voru Vinstri grænir með mikið fylgi og allt að 30% fylgi en reyndin varð að flokkurinn missti 0,3% af fylginu sem hann fékk á síðasta ári.
Atkvæði % Kjörsæti Jöfnsæti sæti alls % fylgi 2016
A Björt framtíð 135 0,8 0 0 0 3,5
B Framsóknarflokkurinn 3.177 18,4 2 0 2 20,8
C Viðreisn 423 2,5 0 0 0 6,2
D Sjálfstæðisflokkur 4.233 24,5 2 0 2 29,5
F Flokkur fólksins 911 5,3 0 0 0 2,5
M Miðflokkurinn 2.456 14,2 1 1 2 –
P Píratar 1.169 6,8 0 0 0 10,9
S Samfylkingin 1.681 9,7 1 0 1 6,3
V Vinstri grænir 3.067 17,8 1 0 1 18,1
Atkvæði samtals 17.252 7 1 8