Við Øster Voldgade 12 í Kaupmannahöfn stendur Jónshús, húsið sem Jón Sigurðsson og kona hans Ingibjörg Einarsdóttir bjuggu í frá 1852 til 1879. Húsið hefur verið í eigu Alþingis frá 1967, en Carl Sæmundsen stórkaupmaður gaf Alþingi húsið, til minningar um Jón. Þar er nú rekið safn um ævi og störf Jóns, félagsheimili, bókasafn auk þess sem tvær íbúðir eru til afnota fyrir íslenska fræðimenn.
Búið er að úthluta íbúðinni á 4.hæð fyrir næsta ár, samkvæmt vef Alþingis. Auglýst verður eftir umsóknum fyrir íbúðina á 2. hæð í apríl. Umsækjendur voru 31, en tólf fræðimenn komast að með sín verkefni. Þeir eru:
Auður Hauksdóttir, til að vinna verkefni um danska tungu og menningu á Íslandi í sögulegu ljósi;
Bragi Guðmundsson, til að vinna verkefni um námsgreinina sögu og grenndaraðferð í skólastarfi.
Brynja Björnsdóttir, til að vinna verkefni um þróun dansk-íslenskra laga um fæðingar- og ríksborgararétt og veitingu ríkisborgararéttar frá 19. öld til 1944;
Guðrún Tryggvadóttir, til að vinna verkefni sem ber heitið „Lífsverk 13 kirkjur Á.J.S.“
Gunnar Þór Bjarnason, til að vinna verkefni um fullveldi Íslands 1918;
Hafdís H. Ólafsdóttir, til að vinna að undirbúningi handbókar um lagasnið þingskjala og lagahefð;
Helga Gottfreðsdóttir, til að vinna verkefni sem ber heitið „Prenatal diagnosis of Down’s syndrome in the Nordic countries: A qualitative study of prospective parents’ experiences and decision-making“
Hilmar J. Malmquist, til að vinna verkefni um sléttbaka frá Íslandi í fórum Dana;
Ingi Bogi Bogason, til að vinna verkefni um þróun iðn- og tæknimenntunar í Danmörku;
Katrín Ólafsdóttir, til að vinna verkefni sem ber heitið „The gender wage gap over the economic cycle: A Nordic Comparison“
Ólafur Þór Ævarsson, til að vinna verkefni um streitu á Norðurlöndum;
Ævar Harðarson, til að vinna verkefni um fræðastörf Magnúsar Eiríkssonar í Kaupmannahöfn 1831-1881.
Í úthlutunarnefndinni eiga sæti dr. Anna Soffía Hauksdóttir, prófessor við Háskóla Íslands, sem er formaður nefndarinnar, dr. Guðmundur Heiðar Frímannsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, og Drífa Hjartardóttir, fyrrverandi alþingismaður. Ritari nefndarinnar er Jörundur Kristjánsson, forstöðumaður skrifstofu forseta Alþingis.