fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
Fókus

Áhugi á tennis er óþarfur

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 22. október 2017 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Lokamyndin á RIFF var sænska íþróttamyndin Borg-McEnroe sem fór samstundis í almenna sýningu eftir hátíðina. Íslendingar biðu sérstaklega eftir frumsýningu myndarinnar þar sem hún skartar Sverri Guðnasyni í aðalhlutverkinu sem tennisstjörnunni Björn Borg. Myndin hefur margt til brunns að bera og er skylduáhorf fyrir alla sanna „svedófíla“.

Rimma aldarinnar

Líklegt er að margir af yngri kynslóðinni geri sér ekki grein fyrir því hversu stórt nafn Björn Borg var á sínum tíma. Hann er án nokkurs vafa besti tennisleikmaður allra tíma og gæti jafnvel talist einn allra besti íþróttamaður sögunnar. Hann reis hratt upp á stjörnuhimininn sem unglingur og hætti aðeins 26 ára gamall, þá með ellefu slemmur á bakinu.

Myndin fjallar um einvígi Borg við hinn litríka og geðilla John McEnroe (Shia LeBeouf) sem var þá að brjótast fram á sjónarsviðið. Líkt og allar íþróttamyndir leiðir myndin að einhverjum lokaviðburði og að þessu sinni eru það úrslit Wimbledon-mótsins árið 1980. Það er látið líta út eins og þeir hafi aldrei áður mæst en raunin er sú að þetta var áttunda viðureign kappanna sem voru miklir keppinautar inni á vellinum en bestu mátar utan vallar.

Hún er þó ekki alveg línuleg heldur er flakkað fram og til baka í tíma og sýndar glefsur úr æsku þeirra beggja. Töluvert meiri áhersla er lögð á Borg og koma þar við sögu eiginkona hans Mariana Simionescu (Tuva Novotny) og þjálfarinn Lennart Bergelin (Stellan Skarsgård).

Samstæður og andstæður

Borg-McEnroe er mjög dramatísk, og ólík flestum íþróttamyndum að því leytinu. Aldrei koma fyrir samsett atriði með hressu popplagi undir og leikurunum stekkur varla bros. Borg og McEnroe eru sýndir sem ákaflega þjakaðir menn sem báðir hafa þurft að berjast við innri djöfla frá æsku. Í myndinni er þetta reyndar sett fram eins og þeir séu báðir andlega óstöðugir og lítið megi út af bregða svo þeir fari ekki yfir um. Þeir eru líkir að því leytinu, en hvernig þeir takast á við skap sitt gerir þá að fullkomnum andstæðum. Borg heldur sér rólegum með útpældum endurtekningum og kemur fram sem hinn fullkomni og elskaði herramaður. McEnroe lætur allt gossa og hellir sér yfir dómarana, andstæðingana og áhorfendurna, og fyrir það uppsker hann ekkert nema fyrirlitningu. Báðir leikararnir túlka sín hlutverk af stakri snilld.

Uppbyggingin og takturinn í myndinni er virkilega góður. Líkt og í svo mörgum öðrum íþróttamyndum fáum við að sjá brot af rimmum við minni spámenn áður en aðalrétturinn hefst. Hann er svo afgreiddur meistaralega með öllum brögðum dramatíkur sem til eru í bókinni. Það er sérstakt listform að geta gert atriði svo spennandi þegar áhorfandinn veit varla hvað er að gerast inni á vellinum og þekkir ekki reglurnar. Engir nema sérstakir áhugamenn um tennis vita hvernig leikurinn endaði og myndin er byggð upp á þann hátt að áhorfandinn er alveg á báðum áttum.

Niðurstaða

Borg-McEnroe er með þeim allra mest spennandi íþróttamyndum sem til eru. Henni er frábærlega leikstýrt, er frábærlega leikin, kvikmynduð og framleidd á allan hátt. En að sama skapi hefur maður það á tilfinningunni að hún taki sig aðeins of alvarlega. Við þekkjum Björn Borg og sérstaklega John McEnroe sem léttlynda einstaklinga í dag en ekki þær bældu og nánast einhverfu persónur sem koma fram í myndinni. En hafa verður í huga að þetta er sænsk framleiðsla en ekki Hollywood-mynd og það er vissulega dýpra á léttleikanum hjá okkur Evrópumönnum.

[youtube https://www.youtube.com/watch?v=IgfFdEOGUqE&w=100&h=315]

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Hvað varð um leikkonuna úr Shining sem sneri baki við Hollywood? – „Ég var stjarna“

Hvað varð um leikkonuna úr Shining sem sneri baki við Hollywood? – „Ég var stjarna“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Stórbrotið atvik í Pallborði Vísis – „Þetta er fáránleg spurning“

Stórbrotið atvik í Pallborði Vísis – „Þetta er fáránleg spurning“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Forsetaframbjóðandinn sem gerðist miðill – Hannes lætur efasemdaraddirnar sem vind um eyru þjóta

Forsetaframbjóðandinn sem gerðist miðill – Hannes lætur efasemdaraddirnar sem vind um eyru þjóta
Fókus
Fyrir 4 dögum

Margrét Friðriks tekur upp nýtt nafn – „Finnst það koma með ferskan blæ inn ì mitt líf“

Margrét Friðriks tekur upp nýtt nafn – „Finnst það koma með ferskan blæ inn ì mitt líf“