fbpx
Föstudagur 14.nóvember 2025
Eyjan

Biskup fór um víðan völl í nýárspredikun

Trausti Salvar Kristjánsson
Mánudaginn 1. janúar 2018 11:36

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands. Mynd/DV

Umhverfismál, náttúruvernd og mikilvægi þess að heimsbyggðin sameinist í baráttunni gegn loftslagsbreytingum var megininntakið í nýárspredikun Agnesar M. Sigurðardóttur, biskups Íslands, í Dómkirkjunni í Reykjavík í morgun. Þá gerði hún jafnréttismál og kynbundið ofbeldi að umræðuefni.

 

Biskup sagði sköpunarverkið eiga undir högg að sækja vegna ójafnvægis, misnotkunar og ofnotkunar í heiminum. Nú þurfi þjóðarleiðtogar um allan heim að standa saman og fá almenning í lið með sér. Parísarsamkomulagið verði að halda og það sé einkennilegt að nokkrum detti í hug að hundsa það. Ólíkar vísinda- og fræðagreinar þurfi að leggjast á eitt og kirkjan geti lagt sitt af mörkum til að hafa áhrif á viðhorf almennings til náttúrunnar.

 

„Umhverfisvandinn sem blasir við er margþættur. Vandinn snertir jörðina og allt sem á henni er.  Hann snertir allt lífið á jörðinni, lífsviðhorf, lífsstíl og neyslu og það hefur komið í ljós að afleiðingar loftslagsbreytinganna bitna hvað harðast á fátækustu íbúum jarðar. Umhverfisvandinn snertir því baráttuna fyrir félagslegu réttlæti í heiminum. Þær siðferðislegu spurningar sem vakna í ljósi umhverfisvandans beinast því ekki aðeins að hlutverki okkar gagnvart náttúrunni heldur einnig að stöðu okkar og ábyrgð gagnvart náunganum.”

 

Biskup fjallaði einnig um jafnréttismál og rifjaði upp skrif Páls postula frá fyrstu öld, þar sem talað er um að allir menn séu jafnir, karlar og konur, þó ekki væru allir eins. Þá hafi Jesús Kristur sýnt jafnrétti í verki, líkt og Biblían greini frá. Það sé umhugsunarvert, að enn í dag skuli þurfa að berjast á hverjum degi fyrir þeim sjálfsögðu réttindum sem jafnrétti er.

 

“Kynbundið ofbeldi á sér stað eins og margar sögur kvenna bera með sér, sem opinberaðar hafa verið í MeToo byltingunni. Það er ekki ofsögum sagt að flestar konur hafi fundið samsömun með þeim reynslusögum sem þar hafa birst. Ég og fleiri konur innan kirkjunnar getum vitnað um kynbundið ofbeldi sem við höfum ekki þorað að orða fyrr en nú þegar við vitum að margar konur hafa sömu sögu að segja. Við þurfum að horfast í augu við raunveruleikann á hvaða sviði sem er. Loftslagsbreytingarnar eru staðreynd. Kynbundið ofbeldi er staðreynd.”

Ræðuna í heild sinni má lesa hér að neðan:

Prédikun flutt 1. janúar 2018 í Dómkirkjunni.

Gleðilegt ár kæri söfnuður og áheyrendur.  Árið 2017 hefur runnið sitt skeið í
veraldarsögunni og lífi hvers einstaklings og árið 2018 tekið við.  Í kirkjum
landsins er lesið úr 90. Davíðssálmi en sr. Matthías orti lofsönginn út frá þeim
sálmi en lofsöngurinn var frumfluttur þegar Íslendingar minntust þúsund ára
afmælis Íslandsbyggðar árið 1894. Ljóðið varð vinsælt meðal almennings og
var flutt sem þjóðsöngur okkar við fullveldistökuna árið 1918. Hennar
minnumst við á þessu nýbyrjaða ári eins og kunnugt er. Við heyrðum líka lesið
úr bréfi Páls til Galatamanna þar sem hann minnir okkur á að við erum öll Guðs
börn. Guðspjallið er í beinu framhaldi af guðspjalli jólanna um fæðinguna í
Betlehem, en þar er sagt frá því að barnið í jötunni er látið heita Jesús eins og
„engillinn nefndi hann áður en hann var getinn í móðurlífi.“ Kærleiksrík orð
Ritningarinnar fylgja okkur yfir mærin milli ára og styrkja trú okkar að í hendi
Guðs er hver ein tíð, eins og við sungum núna rétt í þessu.
Á gamlársdag horfum við til baka og minnumst þess sem árið færði okkur.  Á
nýársdag horfum við fram á veginn og berum vonir í brjósti um að árið verði
gott til sjós og lands og í lífi okkar.  Við tökum með okkur farangur liðins árs að
því leyti sem við veljum og stefnum ótrauð inn í framtíðina sem enn er óskrifað
blað.
Eitt af því sem kristin kirkja hér á landi og víða um heim tekur með sér inn í
nýja árið er umhyggja fyrir sköpunarverkinu og verndun umhverfisins.  Það
verkefni var sett á fót í kirkjunni á síðasta ári hér á landi eins og í svo mörgum
öðrum löndum meðal annars með því að helga haustið tímabili
sköpunarverksins.
Þjóðkirkjan er aðili að alþjóðlegum kirknasamtökum, bæði lútherskum og
samkirkjulegum. Á síðast liðnu ári var eitt af meginþemum heimsþings
lútherska heimssambandsins, „sköpunin ekki til sölu.“ Aðalfyrirlesarinn um það
efni sagði að endurhugsun hagfræðinnar væri lykillinn að því að takast á við
vistfræðileg vandamál. Í dag á sköpunin undir högg að sækja vegna ójafnvægis,
misnotkunar og ofnotkunar. Auði jarðar er misskipt og neyslan er of mikil og
hún eykst með hverjum deginum.

Allar fræðigreinar geta lagt til málanna varðandi framtíð lífs á jörðinni. Engin
fræðigrein er þar undanskilin. Í sambandi við loftslagsbreytingarnar og áhrif
þeirra á jörðina hafa náttúruvísindin lagt mikið af mörkum við að skilgreina
vandann og kortleggja hann. Vísindamenn eru búnir að vinna vinnuna sína og
við vitum hver staðan er. Sú mynd sem við blasir er skelfileg fyrir framtíð lífs á
jörðu. Nú er spurningin hvernig mannkyn bregst við?
Samtakamáttur er lykilorð í þessari baráttu. Samkomulag eins og
Parísarsamkomulagið verður að halda og einkennilegt að einhverjum detti það í
hug að hundsa það. Núna er brýnt að leiðtogar allra landa sameinist um
viðbrögð og fái almenning í lið með sér. Nú snýst málið ekki um að greina
stöðuna heldur um siðferði og siðfræði, um það hvernig við lifum lífinu.
Ráðstefna Alkirkjuráðsins í boði íslensku þjóðkirkjunnar um réttlátan frið við
jörðina var haldin hér á landi í október. Það var stór stund á Lögbergi þegar
ályktun ráðstefnunnar var lesin upp og síðan undirrituð í Þingvallakirkju. „Sem
trúarleiðtogar og trúað fólk deilum við áhyggjum og sjónarmiðum með þeim
stefnumótendum og hagsmunaaðilum sem koma saman til Hringborðs
Norðursins (13.-15. október) og áformaðrar Loftslagsráðstefnu Sameinuðu
þjóðanna (COP 23) í Bonn í Þýskalandi (6.-17. nóvember), sem og með
samfélagi kirkna um heim allan, þar sem kallað er í Krists nafni eftir
nauðsynlegri stefnumörkun, aðgerðum og viðhorfsbreytingum til að vernda og
varðveita umhverfi jarðarinnar, dýrmæta og lifandi sköpun Guðs, viðkvæm og
fögur heimkynni mannkyns og alls lífs á jörðu“ segir í formála ályktunarinnar.
Ráðstefnugestir deildu sögum sínum, meðal annars Peter Loy Chong erkibiskup
kaþólsku kirkjunnar á Fiji eyjum sem sagði frá því hvernig sjávarstaðan hefur
hækkað svo á eyjunum að íbúar geta ekki lengur búið við ströndina. Byggðin er
því að flytjast ofar í landið. Loftslagsbreytingar af manna völdum eru orsökin.
Mannlífinu hefur verið ógnað vegna þessa.
Kirkjan getur haft áhrif á viðhorf almennings til náttúrunnar og umhverfismála
eins og Michael Oleksa prestur orþódoxu kirkjunnar í Alaska sagði frá á
ráðstefnunni. Stórfyrirtæki hafði ætlað að koma á fót starfsemi í Alaska, þar
sem mikil hætta yrði á því að náttúran myndi mengast mikið og jafnvel
skemmast til framtíðar, ef starfseminni yrði komið á fót. Í kjölfar þess að kristin
kirkja á svæðinu leiddi helgihald, blessun vatnsins sem er þekkt hjá Orthodoxu
kirkjunni snérist viðhorf almennings sem gerðist í kjölfarið málsvari
náttúrunnar.

Við hér á landi höfum kynnst þessum sið, að blessa vatnið hjá bróður okkar
Timor presti í rússnesk orþodoxu kirkjunni í Reykjavík sem hefur haft slíka
athöfn árlega í Nauthólsvík í tengslum við samkirkjulega bænaviku í janúar.
Báðir þessir kennimenn minntu okkur á viðhorf frumbyggja sem hafa mikil
tengsl við náttúruna og bera mikla virðingu fyrir henni. Af reynslu þeirra má
mikið læra og þekking þeirra nýtist vel til viðbragða varðandi þá ógn sem
mannkynið horfist í augu við.
Í áðurnefndri ályktun segir meðal annars:
Við hvetjum til þess að viska frumbyggja sé virt enda búi þeir að fornri og
djúpstæðri þekkingargeymd á umhverfi sínu sem er heimkynni forfeðra þeirra.
Slík lífsviðhorf og viska miða að þeirri farsæld allrar lífssköpunar, sem bæði
jörð og alheimur hafa ætlað komandi kynslóðum.
Í ályktuninni er einnig kallað eftir vitundarvakningu einstaklinga og samfélaga
um ábyrgð sína og hlutdeild í því að bregðast við þeim áskorunum sem felast í
loftslagsbreytingunum. Kirkja Krists um víða veröld er hvött til að nýta sér sitt
eigið tungutak, ekta biblíumál og kirkjuhefðir til að auka umhverfisvitund,
hvetja til aðgerða og auka sjálfbærni í kirkju og samfélagi.
Umhverfisvandinn sem blasir við er margþættur. Vandinn snertir jörðina og allt
sem á henni er. Hann snertir allt lífið á jörðinni, lífsviðhorf, lífsstíl og neyslu
og það hefur komið í ljós að afleiðingar loftslagsbreytinganna bitna hvað harðast
á fátækustu íbúum jarðar. Umhverfisvandinn snertir því baráttuna fyrir
félagslegu réttlæti í heiminum. Þær siðferðislegu spurningar sem vakna í ljósi
umhverfisvandans beinast því ekki aðeins að hlutverki okkar gagnvart
náttúrunni heldur einnig að stöðu okkar og ábyrgð gagnvart náunganum.
„Þegar átta dagar voru liðnir skyldi umskera hann og var hann látinn heita Jesús
eins og engillinn nefndi hann áður en hann var getinn í móðurlífi.“ Þannig
hljóðar guðspjall þessa dags, fyrsta dags nýs árs. Kristið fólk um allan heim
leitast við að gera hann að leiðtoga í lífi sínu og líta til hans sem fyrirmyndar og
frelsara.
Páll postuli segir í bréfi sínu til Galatamanna sem lesið var úr hér í dag: „Hér er
hvorki Gyðingur né annarrar þjóðar maður, þræll né frjáls maður, karl né kona.
Þið eruð öll eitt í Kristi Jesú.“ Í ljósi þessara orða og framkomu Jesú gagnvart
fólki eigum við ekki að fara í manngreinarálit. Við erum öll jöfn fyrir Guði þó
við séum ekki öll eins. Gildi góðs lífs felst í jafnrétti þar sem hver einstaklingur

á rétt til lífsins gæða sama hvar hann fæðist hér á jörð. Það er umhugsunarvert
að í texta frá fyrstu öld þar sem getið er um jafnrétti kynjanna skuli enn á 21.
öldinni þurfa að minna á jafnan rétt kynjanna til orðs og æðis. Kynbundið
ofbeldi á sér stað eins og margar sögur kvenna bera með sér sem opinberaðar
hafa verið í meeto byltingunni. Það er ekki ofsögum sagt að flestar konur hafi
fundið samsömun með þeim reynslusögum sem þar hafa birst. Ég og fleiri
konur innan kirkjunnar getum vitnað um kynbundið ofbeldi sem við höfum ekki
þorað að orða fyrr en nú þegar við vitum að margar konur hafa sömu sögu að
segja.
Við þurfum að horfast í augu við raunveruleikann á hvaða sviði sem er.
Loftslagsbreytingarnar eru staðreynd. Kynbundið ofbeldi er staðreynd.
Við finnum það þegar stóráföll verða, snjóflóð, eldgos, ofbeldismál eða stórslys,
hve þjóðin stendur þétt saman.
Þá finnum við svo sterkt hve mikilvægt það er að standa saman, hjálpast að,
bæta úr, gera betur, passa að enginn sé út undan.
Hvernig getum við stuðlað að því að samfélagið einkennist af slíku, án
áfallanna, án einhvers sem ógnar okkur?
Hæfileikinn til þess er til staðar í samfélaginu, en hann virkjast ekki endilega
nema eitthvað hræðilegt sameini okkur.
Kirkjan er vettvangur þar sem þessi hæfileiki er ræktaður. Í kórum, barna- og
æskulýðsstarfi, bænastundum, stuðningshópum þeirra sem glíma við sorg,
helgum athöfnum og fleiru.
Kirkjunni ber að leggja sitt af mörkum til þess að gera heiminn betri. Hún á að
vinna að því að allir njóti mannlegrar virðingar og fái að kynnast
kærleiksboðskap Jesú. Allt kristið fólk er kallað til að taka þátt í sköpun Guðs,
boða réttlæti, jafnrétti, frið og gleði.
Guð blessi okkur nýja árið. Megi kærleikur hans móta líf okkar og framkomu
gagnvart sjálfum okkur, náunga okkar og allri sköpuninni, í Jesú nafni. Amen.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Dagur B. Eggertsson: Þurfum að bregðast við gagnrýni Mannréttindadómstólsins

Dagur B. Eggertsson: Þurfum að bregðast við gagnrýni Mannréttindadómstólsins
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Sigmundur Ernir skrifar: Okkur fækkar og okkur fjölgar

Sigmundur Ernir skrifar: Okkur fækkar og okkur fjölgar
Eyjan
Fyrir 1 viku

Reynir Traustason: Ég ætla ekki að berja þig, Sveinn Andri, ég kæri þig til siðanefndar lögmanna

Reynir Traustason: Ég ætla ekki að berja þig, Sveinn Andri, ég kæri þig til siðanefndar lögmanna
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Þolinmæði þrotin gagnvart óhæfum, vanstilltum og spilltum silkihúfum á toppi kerfisins

Svarthöfði skrifar: Þolinmæði þrotin gagnvart óhæfum, vanstilltum og spilltum silkihúfum á toppi kerfisins