Eyjan mun fram að kjördegi fjalla um áherslur framboðanna sem taka þátt í Alþingiskosningunum 28. október næstkomandi í ýmsum málefnum, allt frá sjávarútvegsmálum til afstöðu flokka til refsiþynginga í kynferðisbrotamálum.
Krabbameinsfélagið hefur tekið saman stefnu flokkanna í málefnum krabbameinssjúklinga í myndbandi og gaf Eyjunni góðfúslegt leyfi til að birta það í heild.
Spurningarnar snúa að málefnum þeirra sem greinast með krabbamein.
Allir flokkar nema Miðflokkurinn þáðu boð félagsins um að svara spurningunum. Þær eru eftirfarandi:
1) Í vor gaf velferðarráðuneytið út skýrslu ráðgjafarhóps með tilögu að íslenskri krabbameinsáætlun til ársins 2020, þar sem m.a. er kveðið á um að framboð nýrra krabbmeinslyfja verði sambærilegt við önnur Norðurlönd. Hvernig mun flokkurinn útfæra tillögurnar?
2) Fyrir liggur að krabbameinum mun fjölga verulega á næstu árum og mikilvægt er að beita öllum ráðum til að fyrirbyggja eða greina krabbamein á byrjunarstigi. Styður flokkurinn að skimun eftir krabbameinum verði gjaldfrjáls og þá hvenær?
3) Þak á greiðsluþátttöku sjúklinga var lækkað nýverið en engu að síður standa Íslendingar ekki jafnfætis nágrannaþjóðunum, þar sem kostnaður fólks í krabbameinsmeðferðir er nánast enginn. Fjöldi nauðsynlegra lyfja í krabbameinsmeðferð (til að mynda sýkla-, sveppa-, svefn-, geð- og hægðalyf) falla ekki undir greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga og viðbótarkostnaður fólks vegna þeirra í tengslum við krabbameinsmeðferð getur verið verulegur.
Ákveðin heilbrigðisþjónusta eins og sálfræðiþjónusta og tannlækningar fellur ekki undir greiðsluþátttökuþakið og getur því einnig leitt til mikils viðbótarkostnaðar. Styður flokkurinn að a) greiðsluþátttökuþakið nái til fleiri þátta og að b) greiðsluþátttaka sjúklinga verði afnumin eða lækkuð á næstunni?
4) Krabbameinsmeðferð er afar krefjandi og sjúklingum er eindregið ráðlagt að hafa aðstandanda sér til halds og trausts. Margir verða að leita meðferðar langt frá heimilum sínum með tilheyrandi viðbótarkostnaði vegna ferðakostnaðar aðstandenda. Í dag veitir hið opinbera enga ívilnun vegna þess kostnaðar. Styður flokkurinn að hið opinbera taki upp styrki/endurgreiðslur vegna ferðakostnaðar aðstandenda fólks í krabbameinsmeðferð?