Guðmundur Steingrímsson er hættur á þingi og í fyrsta sinn í 17 ára er hann ekki þátttakandi í kosningum. Nú fylgist hann með úr fjarlægð.
„Ertu ekki feginn að vera laus?“ spyr fólk. Jú, ég er það.“
Guðmundur skrifar stuttan pistil í Fréttablaðið um hvernig er að vera þingmaður. Og ekki er það allt gott sem þar fer fram. Langt í frá. Þingið er fínn staður að hans mati. Þingmennirnir þversnið af þjóðinni. Letingjar og asnar en skemmtilegt fólk í meirihluta.
„Mér tókst aldrei að koma mér upp almennilegum skráp. Við mínar fyrstu þingsetningar æpti fólk á okkur, gaf okkur fokkmerki og henti í okkur dósum og lyklum. Þetta situr í mér. Þingmenn grétu í kirkjunni.“
Guðmundur segir stjórnmál eineltisumhverfi, og það á sér stað utan þing.
„Ég las um mig í fjölmiðlum að ég væri puntustrákur, að ég vildi bara þægilega innivinnu, að ég væri í stjórnmálum bara út af því að mötuneytið væri svo fínt, að enginn myndi taka eftir mér í partíum, að ég liti út eins og lúðaleg útgáfa af Birni Thors (smá fyndið), að enginn gæti hugsað sér að fara út að borða með mér (hvað var það?), að ég væri innantómur og hugsjónalaus, með enga leiðtogahæfileika og að það EINA sem ég vildi í stjórnmálum væri að breyta klukkunni.“
Öll hin neikvæða orka sem fylgi stjórnmálum er að mati Guðmundar yfirþyrmandi og alltof mikil. Þá geti það gerst að fólk gangi alltof langt í framkomu sinni við stjórnmálamenn og nefnir Guðmundur eitt dæmi:
„Einu sinni var veist að mér á Gay Pride fyrir framan börnin. Hvað er málið? Við berjumst gegn einelti í skólum. Kannanir meðal unglinga sýna að upp undir 10% þeirra telja að einhver eigi skilið einelti. Það finnst okkur auðvitað sjokkerandi. Á einhver skilið einelti? Kannski finnst fólki það um stjórnmálamenn.“
Guðmundur segir svo að lokum að hann sé feginn að vera laus.
„Ég tek ofan fyrir ykkur sem standið í þessu núna. Gangi ykkur öllum vel. Hlýir straumar héðan. Virðing.“