

Mun Pétur þar berjast við Heiðu Björgu Hilmisdóttur borgarstjóra sem fram að tilkynningu Péturs hafði ein boðið sig fram í fyrsta sætið. Pétur hefur litla reynslu úr stjórnmálum, en bent hefur verið á að hann skipaði 9. sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík norður fyrir þingkosningarnar 2009.
Töluvert hefur verið rætt um framboð Péturs á Facebook og hefur færsla Þóru Kristínar Ásgeirsdóttur, fyrrverandi fjölmiðlakonu, vakið talsverða athygli.
„Mér finnst að svona framboði eigi að fylgja eitthvað manifesto. Það virðist vera algert aukaatriði í dag. Þetta er Temuvæðing stjórnmálanna. Nóg framboð af ódýru drasli en engar innihaldslýsingar,” segir Þóra Kristín í færslu sinni.
Hún bætir því við að hún sé ekki að gera lítið úr Pétri en henni finnist að aðalfókusinn eigi að vera á það sem fólk stendur fyrir en ekki „bara fallegar og vinsælar umbúðir“ eins og hún orðar það.
Egill Helgason, fjölmiðlamaður og samfélagsrýnir, leggur orð í belg við færslu Þóru og segist ekki vera sammála henni.
„Ég hef aldrei starfað í stjórnmálaflokki og þótt ég hafi lengi fjallað um pólitík þá skil ég eiginlega ekki hugarfarið sem ríkir meðal flokksfólks. Ef gott fólk vill gefa sig í stjórnmál þá er það almennt fagnaðarefni. Og varðandi innihaldið, þá var ég einmitt að velta því fyrir mér hversu íslensk stjórnmál hreyfast í raun á þröngu bili. Þegar öllu er á botninn hvolft er sáralítill munur milli flokka – og í borgar- og sveitarstjórnarmálum sama og enginn.“
Gunnar Smári Egilsson, stofnandi Sósíalistaflokksins, sló á létta strengi í sinni athugasemd.
„Ég gúgglaði hann og fann eina skoðanagrein á timarit frá því hann var í framboði fyrir xD 2009, hún var ekki mjög pólitísk. Kannski hefur hann verið virkur í samfélagsumræðunni annars staðar, kannski á Kaffi Vest. Kannski er hann hluti af samsæri Samfylkingarinnar, RÚV og Kaffi Vest sem Sigmundur Davíð var að tala um, tilheyrir djúpríkinu á Kaffi Vest.“
Sumir koma Pétri til varnar og segir til að mynda einn að hann sé góður drengur og ekki væri ósanngjarnt að leyfa honum að kynna hvað hann stendur fyrir.
Þóra svarar því til að hún hafi ekki verið að gagnrýna Pétur og hann sé eflaust mjög frambærilegur. „Ég var bara að nefna þá skoðun mína að fólk mætti tilgreina áherslur sínar og erindi þegar það býður sig fram.“
Pétur tilkynnti framboð sitt á Facebook-síðu sinni í gær og í færslunni sagðist hann hafa unnið að borgarmálum í Reykjavík „utan ramma stjórnmálamanna“. Þá segist hann sjá tækifæri í að borgarumhverfið skilvirkara og auka þannig velferð og lífsgæði borgarbúa til framtíðar. Bætti hann við að Reykjavík væri stórkostleg borg og hún geti boðið upp á lífsgæði sem jafnast á við það besta sem gerist í heiminum, sérstaklega hvað varðar velferðarþjónustu, menntunar- og félagsstarf barna og hið manngerða umhverfi.