fbpx
Miðvikudagur 31.desember 2025
Eyjan

Orðið á götunni: Ólán Sjálfstæðisflokksins tekur engan enda

Eyjan
Miðvikudaginn 31. desember 2025 12:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mestu mistök sem gerð hafa verið í stjórnmálum á Íslandi hin síðari ár er sú ákvörðun forystu Sjálfstæðisflokksins að fylkja sér ekki um Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, þáverandi varaformann Sjálfstæðisflokksins, og styðja hana til formannsstöðu í flokknum þegar Bjarni Benediktsson ákvað að stíga af sviðinu í byrjun árs 2025 eftir að hafa horfst í augu við erfið úrslit kosninga í lok árs árið 2024 sem leiddu til þess að vinstri stjórn Katrínar Jakobsdóttur og Bjarna var hafnað og valdaskipti urðu á Íslandi.

Eftir 15 ára formennsku í Sjálfstæðisflokknum á erfiðum tímum var ekkert athugavert við að Bjarni vildi ljúka ferli sínum, rýma sviðið í flokknum og hverfa til annarra verka. Það sem vekur furðu er að hann skyldi ekki tryggja varaformanni sínum formennsku í flokknum þegar hann vék af velli. Bjarni lét ógert að hlutast til um eftirmann sinn og lét skeika að sköpuðu. Þá gerðust þau ósköp að fráfarandi fyrrum ráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, var fljót til að lýsa yfir formannsframboði sem telja má býsna djarft í ljósi þess sem hún hafi áorkað i flokknum. Þar sem flokkurinn er klofinn í fylkingar í kringum Guðlaug Þór Þórðarson annars vegar og flokkseigendur hins vegar mátti gera ráð fyrir því að Áslaug nægði ekki kjöri hljóðalaust á þeim landsfundi sem boðað var til í febrúar 2025. Guðlaugur og hulduher hans studdu Guðrúnu Hafsteinsdóttur til formennsku og hún bar sigur úr býtum.

Orðið á götunni er að sjaldan hafi verið eins áberandi hve mikil mistök Sjálfstæðisflokkurinn gerði á síðasta landsfundi sínum þegar Þórdísi var ekki falin formennska í flokknum og þegar hún birtist í áramótaþætti Gísla Marteins á RÚV og sat við hlið forsætisráðherra og ræddi málin. Kristrún og Þórdís geisluðu báðar af sterkum persónuleika og yfirvegun snjallra stjórnmálamanna. Þær fóru yfir stöðu mála á þessum næstsíðasta degi ársins og þar sýndi Þórdís enn á ný að hún hefur þroska til að láta af starfi ráðherra án þess að þjást af því „ráðherrafráhvarfi“ sem þjakað hefur nokkra fyrrverandi ráðherra svo sem berlega hefur komið í ljós. Þórdís Kolbrún sýndi þarna enn á ný að hún verðskuldar mikilvægar stöður og hún er greinilega einn þeirra íslensku stjórnmálamanna sem munar um. Ástæða er til að fylgjast vel með þessari ungu konu sem er samt með svo með mikla reynslu á sviði stjórnmálanna. Hún hefur verið ráðherra í 8 ár, varaformaður Sjálfstæðisflokksins í sjö ár og hún er einungis 38 ára, traust fjölskyldumanneskja.

Merkilegt var að velta því fyrir sér þegar horft var á þessar tvær glæsilegu ungu forystukonur í sjónvarpsþættinum, forsætisráðherrann og Þórdísi, hvers vegna flokkur Þórdísar stillti henni ekki upp í fremstu víglínu. Einlægum sjálfstæðismönnum hlýtur að hafa liðið illa á þessum næstsíðasta degi ársins þegar þeir horfðu á þennan vinsæla spjallþátt. En þannig er það bara. Þannig er staðan og hún er ekki góð eins og allar kannanir sýna. En það ber ekki allt upp á sama daginn og við skulum bíða og sjá hvernig þeirri frambærilegu konu, Þórdísi Kolbrúnu, reiðir af á stjórnmálasviðinu.

Orðið á götunni er að ógæfu Sjálfstæðisflokksins beri samt víðar að þessa dagana.

Öldungurinn Björn Bjarnason, sem tengdur er Sjálfstæðisflokknum, hefur nú orðið sér til skammar með því að krefjast þess að forseti Alþingis segi af sér vegna orða sem Birni þessum þóttu ekki viðeigandi. Björn Bjarnason er enginn háyfirdómari og orð hans þykja almennt ekki mikils virði. Björn komst inn á Alþingi árið 1991 og langaði mikið að verða ráðherra sem tókst ekki fyrr en síðar. Hann er sonur stórmennisins Bjarna Benediktssonar, eldri, forsætisráðherra.

Orðið á götunni er að Björn Bjarnason hafi langað mikið að feta í fótspor stórmennisins, föður síns. Það tókst hins vegar ekki. Björn vildi verða borgarstjóri í Reykjavík, en því fór fjarri. Hann vildi verða ritstjóri á Morgunblaðinu eins og Bjarni en allt kom fyrir ekki. Björn varð ekki formaður eða varaformaður Sjálfstæðisflokksins, eins og faðir hans. Hann langaði að verða utanríkisráðherra eða forsætisráðherra eins og Bjarni en það var aldrei á dagskrá. Björn fékk þó að verða menntamálaráðherra og dómsmálaráðherra um tíma. Sennilega hefði hann aldrei átt að biðja um meira.

Orðið á götunni er að Björn Bjarnason bæti engu við stjórnmálaumræðu dagsins, síst af öllu fyrir fallandi Sjálfstæðisflokk. Hann er hluti vandans en alls ekki lausnin. Orð hans falla í grýttan jarðveg nema kannski hjá þeim allra innvígðustu og innmúruðu í flokknum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Innkalla rakettupaka
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Ljós í myrkri

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Ljós í myrkri
Eyjan
Fyrir 1 viku

Guðrún Karls Helgudóttir: Umbúðirnar breytast en innihaldið ekki

Guðrún Karls Helgudóttir: Umbúðirnar breytast en innihaldið ekki
Eyjan
Fyrir 2 vikum

Örn Bárður Jónsson: Sagði allt til sölu á Íslandi – Davíð fyrtist við og hjólaði í biskup

Örn Bárður Jónsson: Sagði allt til sölu á Íslandi – Davíð fyrtist við og hjólaði í biskup
Eyjan
Fyrir 2 vikum

Orðið á götunni: Áfallahjálp eða lífsleikninámskeið fyrir fallna ráðherra

Orðið á götunni: Áfallahjálp eða lífsleikninámskeið fyrir fallna ráðherra