fbpx
Sunnudagur 28.desember 2025
Eyjan

Björn Jón skrifar: Gríski menntaandinn

Eyjan
Sunnudaginn 28. desember 2025 16:00

Endurfundir Ódysseifs og Penelópu í túlkun bandaríska málarans Newells Convers Wyeth frá árinu 1929.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég gerði Markús Túllíus Cíceró að umtalsefni hér í seinasta pistli fyrir jól og vitnaði þar meðal annars til bókar dr. Jóns Gíslasonar, fornfræðings og skólastjóra Verzlunarskólans, Cicero og samtíð hans, sem fyrst kom út hjá Menningarsjóði 1963 en var endurútgefin í lærdómsritaflokki Bókmenntafélagsins 2009. Orðkynngi dr. Jóns þar er slík að það er engu líkara en lifandi myndir kvikni fyrir hugskotssjónum lesandans. Þannig lýsir hann til að mynda sjóferð Cícerós til Grikklands síðla sumars árið 79 f. Kr.:

„Nú var ágústmánuður, um það leyti sólarhringsins, er nóttin nálgast og vindinn lægir og nauðsynlegt hafði reynst að grípa til ára í stað segla. Löðrið blikaði og freyddi í kjölfari snekkjunnar, er hún klauf hafflötinn með stefninu eins og arðursjárni. Aðeins áraglammið rauf kyrrðina og þungur andardráttur þrælanna, er þeir lögðust á árar eftir háttbundnum hamarshöggum gæslumannsins. Máninn skein á himni eins og kringlóttur skjöldur. Nú var sú stund er Cýpris, gyðja sjómannanna, skyldu fluttar bænir og Dioskúroi, Seifsdrengirnir, ákallaðir, verndarar sjófarenda.“

Dr. Jón hafði fulla ástæðu til að draga upp svo fagra mynd af siglingunni enda urðu kynni Cícerós af grískri menningu í meira lagi afdrifarík. Sjálfur orðaði Cíceró það svo að „enginn smálækur“ hefði streymt frá Hellas yfir í Rómaborg „heldur mikil elfur menningar og lærdóms“. Seinna átti hin gríska dulspeki í formi kristilegrar guðfræði eftir að bera sigurorð af guðum Rómverja og heimsveldið varð loks grískt við flutning höfuðborgarinnar austur í Miklagarð. Þegar sú heimsborg féll í hendur Múhameðstrúarmanna úr austri sigraði grísk menning Ítalíu öðru sinni — og raunar álfuna alla — endurreisnaröld gekk í garð, upphaf þess tímaskeiðs sem við enn lifum.

Rómverskir Fjölnismenn

Grísk menning hafði raunar gegnsýrt hina rómversku löngu fyrir daga Cícerós. Hershöfðinginn Aemilíus Pálus, sem lést 160 fyrir Krists burð, kom heim til Rómar úr herleiðangri með feiknamikið hellenskt bókasafn og lét fræða syni sína um grískar bókmenntir jafnt sem rómverskar listir veiðar og hermennsku. Yngsti sonur hans var ættleiddur af Cornelíusi Scipíó og nefndist upp frá því Cornelíus Scipíó Aemilíanus. Scipíó hinn ungi varð frækinn hermaður en þá voru í heiðri hafðar ljóðlínur Emníusar: Moribus antiquis stat res Romana virisque — ríki Rómverja hvílir á fornum siðum og vöskum drengjum. Á okkar dögum er Scipíós þó nær eingöngu minnst fyrir lærdómslistaiðkun. Hann safnaði um sig flokki rómverskra atkvæðamanna sem lögðu stund á hellenskar bókmenntir (við gætum hugsað okkur þá sem Fjölnismenn á öðrum stað, á öðru árþúsundi). Öld síðar tileinkaði Cíceró einum þeirra, Gaiusi Laelíusi, ritgerð sína um vináttuna og óskaði sér að hann hefði heldur fengið lifað meðal svo siðfágaðra menntamanna en á þeirri umbrotaöld sem þá gekk yfir Róm.

Hinir rómversku Fjölnismenn höfðu gríska fræðara í þeim Pólýbíosi og Panaitíosi. Sá síðarnefndi var frá Rhódos og boðaði stóuspeki sem leggur áherslu á að maðurinn sé hluti stærri heildar og starfi með henni. Fyrst komi fjölskyldan, þá þjóðin en yst sé hin guðdómlega alheimssál. Í stóuspekinni er megináhersla lögð á rækt við skylduverkin en fyrir rómversk áhrif varð þarna til ný stóuspeki sem krafðist ekki fullkominnar sjálfsafneitunnar — samhliða dyggðugu líferni mætti enn njóta lífsins lystisemda. Fram var komin siðfræði sem féll heldur betur í kramið hjá Rómverjum sem voru margir orðnir afhuga sínum gömlu guðum. Rómverjar iðkuðu stóuspeki af miklum móð næstu aldir, allt fram á daga hins síðasta í röð nafntogaðra keisara í Rómaborg, Markúsar Árelíusar, sem andaðist árið 180 eftir Krists burð og er af mörgum álitinn einhver mikilhæfasti stjórnandi allra tíma.

Ísland og fornmenningin

Fjölnismaðurinn Konráð Gíslason gaf árið 1860 út fornritið Veraldar sögu. Þar segir að Jústiníanus keisari í Miklagarði hafi látið gera lögbók mikla þar sem safnað hafi verið saman fornum lögum sem og hinum nýju kristnu lögum „svo að allir menn mættu ein lög halda í hans ríki“. Veraldar saga er stuttorð en athygli vekur hversu rækilega er fjallað um afrek Jústiníanusar keisara sem reist hefði hina mikilfenglegu Ægisif að ekki sé minnst á lögbókina sem segir að enn sé við lýði í Suðurlöndum. Ekki nóg með það heldur er líka getið nýmæla Jústiníanusar, novellae, sem voru lítt kunn í vestanverðri álfunni á ritunartíma Veraldar sögu. Þessi vitneskja um Rómarréttinn hefur fræðimönnum þótt til merkis um að þekkingin hafi borist hingað út beint frá Miklagarði enda vitum við sem var að margir norrænir menn, þar með talið Íslendingar, voru í liði Væringja, lífverði keisarans, hinir hraustustu stríðsmenn, en samhliða djúphugulir og kunna að hafa numið ýmis fræði, rétt eins og Cornelíus Scipíó Aemilíanus.

Löggjafarstarf var óvenju líflegt á þjóðveldisöld eins og við sjáum af Grágásarhandritum. Konungsbók Grágásar er til dæmis þrisvar sinnum lengri en lengstu landshlutalög dönsk sem varðveist hafa frá miðöldum. Þegar á tólftu öld, er lögin eru fyrst færð í letur, voru forsendur fyrir því að rómversks réttar gætti hér á landi og forvitnilegt hafi hann borist að einhverju marki beint frá Miklagarði.

Upphaf stórbrotinna menningarskeiða

Í Bessastaðaskóla var blásið nýju lífi í íslenska þjóðmenningu, meðal annars fyrir forngrísk áhrif, rétt eins og þegar þeir Scípíó og Laelíus sátu við fótskör sinna grísku fræðara, Pólýbíosar og Panaitíosar. Afraksturinn varð í báðum tilfellum stórbrotið og langvinnt menningarskeið, gullaldarskeið.

Frá Grikklandi hinu forna er runnin mikil elfur menningar og lærdóms, sem enn má verða gnægtabrunnur komandi afreksverka.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Gylfi Magnússon: Eini raunhæfi kosturinn er innganga í ESB og upptaka evru

Gylfi Magnússon: Eini raunhæfi kosturinn er innganga í ESB og upptaka evru
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Raunveruleikaflótti þingmanns á jólaföstu

Orðið á götunni: Raunveruleikaflótti þingmanns á jólaföstu
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Til hamingju – Eins árs afmæli og verkin tala

Orðið á götunni: Til hamingju – Eins árs afmæli og verkin tala
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Nína Richter skrifar: Fjöldaframleiddar jólaklisjur

Nína Richter skrifar: Fjöldaframleiddar jólaklisjur
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Thomas Möller skrifar: Af hverju hatar Trump Evrópu?

Thomas Möller skrifar: Af hverju hatar Trump Evrópu?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Örn Bárður Jónsson: Sagði allt til sölu á Íslandi – Davíð fyrtist við og hjólaði í biskup

Örn Bárður Jónsson: Sagði allt til sölu á Íslandi – Davíð fyrtist við og hjólaði í biskup