

Undir árslok vegur tíminn salt á milli þess liðna og ókomna, og þá er alla jafna ráðlegt að velta því fyrir sér hvað hefur gagnast manni best í lífinu, og hvað má betur fara.
Auðmýkt og þakklæti skiptir auðvitað miklu máli í hversdagsleika hverrar manneskju, en þar að auki koma gildin við sögu og þær vogarskálar sem vega og meta afstöðu okkar og breytni. Og spurningin er eilíflega sú hvað vegur þar þyngst og hefur mesta vægið.
Sjálfan langar mig að nefna mannúðina og mildina. Þar er að mínu mati mestan þunga mennskunnar að finna. Allt annað, hygg ég, er býsna léttvægt fundið á vettvangi dagsins, því í grunninn er þar komin sú afstaða í samvistum við aðra menn – og raunar sjálfan sig líka – sem færir einstaklingum hvað mestu lífsfyllinguna á ævinnar braut.
Vertu góður við annað fólk og þér mun verða umbunað í sama mæli.
Þetta er einfalt. Og þetta er flókið.
En um það snýst trú okkar, von og kærleikur; að greiða úr flækjunni og henda reiður á því sem er rétt og sanngjarnt í mannlífinu – og færir samfélagi okkar mestan ávinning.
Sjálfur er ég alinn upp í kristni. Það er menning mín og saga. Og þótt kirkjusóknin hafi að mestu verið bundin við jól og páska og helstu vörður á vegferð vandamanna, breytir það ekki því að ég er mótaður af því fagnaðarerindi sem kennt er við Jesú Krist, og er að finna í Nýja testamenti Biblíunnar. Og er þar raunar harla ólíku saman að jafna við Gamla testamentið þar sem harka og mannfyrirlitning á það til að yfirskyggja annan boðskap innan um saklausari dæmisögur.
„ … það er eins og mannkærleikur sé að verða varasamur. Það beri að gjalda varhug við honum.“
Hér tekst kristnin nefnilega á við sjálfa sig. Hvort fer manninum betur? Að sýna vald sitt eða vægð?
Það er Jesú Kristi að þakka að kúrsinn var réttur af. Frelsarinn fann veginn og greiðustu götuna, því allt sem þú vilt að aðrir menn gjöri yður, skalt þú og þeim gjöra. Og það merkir í raun og veru að elska beri náungann eins og sjálfan sig. Því þú ert ávallt í augnhæð við hann og aldrei yfir hann hafinn, hvort heldur verði á vegi þinn veikasti bróðir eða fátækasta systir.
Í þessum einfaldleika er kjarni mennskunnar falinn. Hann snýst um jöfnuð og sanngirni.
Og einmitt í því ljósi er svo kvíðvænlegt að fylgjast með þeim munnsöfnuði sem lætur hvað hæst nú um stundir – og á það jafnvel til að kenna sig við kristni þótt kokhreystin geti af sér slík gífuryrði að líkja má við lúnatík. Dómharkan veður þar uppi innan um afbökun og útúrsnúninga, en þó einna helst óttafulla umræðu um útlendinga sem óæðra fólk en það sem fyrir er í landi.
Og ekkert er fjarri atferli og orðum Jesú Krists. Því dæmið ekki, og þér munið ekki dæmdir verða.
En það er eins og mannkærleikur sé að verða varasamur. Það beri að gjalda varhug við honum. Slík sé linkindin við að bjóða hinn vangann, að túlka beri það sem aumustu uppgjöf. Á annan veg er ekki hægt að túlka orð þeirra stjórnmálamanna sem ákafast tala nú um stundir gegn öðru fólki en sjálfu sér. Og hver er einmitt tilætlunarsemin? Jú, þeir krefjast tafarlausra forréttinda í heimi hér. Og það er gert með fordæmingu og útskúfun.
Kristnin í þeim orðum er engin.
Mannúð og mildi í boðskap Jesú Krists fer nefnilega lengra en nefi hans nemur. Hún er skilyrðislaus. Hún fer ekki í manngreinarálit. Hún er algild og ofar öðru erindi.
Og þar er gjáin komin sem blasir við um enn ein áramótin , sú að vera með fólki, eða á móti því.