

Góðverk ungra breskra hjóna fyrir 50 árum breytti lífi þeirra að eilífu. Þann 23. desember 1975 voru Rob Parsons og eiginkona hans, Dianne, að undirbúa jólin á heimili sínu í Cardiff þegar þau heyrðu bankað að dyrum.
Á tröppunum stóð maður og í hægri hendi hélt hann á ruslapoka sem innihélt eigur hans, og á frosnum kjúkling í þeirri vinstri.
Rob mundi óljóst eftir manninum sem Ronnie Lockwood, sem hann sá stundum í sunnudagaskólanum sem drengur og sem honum var sagt að vera góður við þar sem Ronnie væri „aðeins öðruvísi“.
„Ég sagði: Ronnie, hvað er með kjúklinginn? Og hann svaraði: Einhver gaf mér hann í jólagjöf. Og svo sagði ég tvö orð sem breyttu lífi okkar allra. „Og ég er ekki alveg viss af hverju ég sagði þau. Ég sagði: Komdu inn.“
BBC fjallar um þessa einstöku sögu í gær.
Hjónin sem voru aðeins 27 og 26 ára gömul og fannst þeim þau knúin til að taka Ronnie, sem var einhverfur, undir sinn verndarvæng. Þau elduðu kjúklinginn hans, leyfðu honum að fara í bað og samþykktu að Ronnie fengi að vera hjá þeim um jólin.

Það sem hófst sem samkennd breyttist í einstakt verk kærleika og málamiðlana sem entist í 45 ár, allt þar til Ronnie lést.
Rob, sem nú er 77 ára, og Dianne, sem nú er 76 ára, höfðu aðeins verið gift í fjögur ár þegar þau tóku Ronnie opnum örmum.
Ronnie var þá næstum þrítugur og hafði verið heimilislaus frá 15 ára aldri, búið í og við Cardiff og flutt á milli starfa, Rob sá hann stundum í æskulýðsfélagi sem hann rak.
Til að láta Ronnie líða eins vel og mögulegt var báðu hjónin fjölskyldu sína um að færa honum jólagjöf, allt frá sokkapari til einhvers ilms.
„Ég man eftir honum enn þá. Hann sat við jólaborðið og fékk þessar gjafir og grét því hann hafði aldrei kynnst þessari tilfinningu áður, ást og væntumþykju,“ sagði Dianne. „Það var ótrúlegt, í raun, að horfa á.“
Parið ætlaði að leyfa honum að vera þar til næsta jól, en þegar sá dagur rann upp gátu þau ekki fengið sig til að reka Ronnie út og leituðu ráða hjá yfirvöldum. Hjálparmiðstöð heimilislausra sagði þeim að Ronnie þyrfti heimilisfang til að fá vinnu, sagði Rob, en „til að fá heimilisfang þarf maður vinnu“. „Þetta er staðan sem fullt af heimilislausum er í.“

Ronnie var settur á heimili aðeins átta ára gamall og hvarf frá Cardiff ellefu ára gamall að sögn Rob. Það var ekki fyrr en hann var að rannsaka ævi Ronnie fyrir bók sína, A Knock on the Door, að hann uppgötvaði hvað gerðist. Ronnie hafði verið sendur 320 kílómetra í burtu í skóla sem í skýrslu var nefndur „skóli fyrir óeðlilega drengi“ og bjó hann þar í fimm ár.
„Hann átti enga vini þar. Hann hafði engan félagsráðgjafa sem þekkti hann. Hann hafði enga kennara sem þekktu hann.“
Rob sagði að Ronnie hefði oft spurt „hef ég gert eitthvað slæmt?“ eitthvað sem hjónin telja að hann hafi lært af tíma sínum í skólanum. „Hann var alltaf áhyggjufullur um að hafa móðgað þig eða gert eitthvað rangt.“
Fimmtán ára gamall var Ronnie sendur aftur til Cardiff „til að gera ekkert“, sögðu hjónin. Þau segja að Ronnie hefði verið svolítið vandræðalegur í byrjun þar sem hann átti erfitt með að ná augnsambandi og samræður voru í lágmarki.
„En svo kynntumst við honum og ef satt skal segja fórum við að elska hann,“ sögðu þau.
Þau hjálpuðu Ronnie að fá vinnu í sorphirðu og fóru með hann að kaupa ný föt eftir að hafa komist að því að hann var í sömu fötunum og hann fékk sem unglingur í skólanum.
„Við áttum ekki börn sjálf, þetta var eins og að klæða börnin sín fyrir skólann, við vorum stoltir foreldrar,“ sagði Rob. „Þegar við komum út úr búðinni sagði Dianne við mig: Hann er með vinnu í sorpinu, við höfum klætt hann upp eins og hann sé aðalpersónan á Dorchester hótelinu,’“ hló Rob.
Rob, sem var lögfræðingur, vaknaði klukkutíma fyrr til að skutla Ronnie í vinnuna áður en hann fór sjálfur í vinnuna. Hann segir að við heimkomu hafi Ronnie oft setið þar og brosað, og eitt kvöldið spurði hann: „Ronnie, hvað gerðist svona skemmtilegt?“
Ronnie svaraði: „Rob, þegar þú ferð með mig í vinnuna á morgnana, þá segja hinir mennirnir: „Hver er það sem keyrir þig í vinnuna á þessum bíl?“ Og ég segi: „Þetta er lögfræðingurinn minn.“
„Við höldum að hann hafi kannski ekki verið stoltur af því að vera keyrður í vinnuna af lögfræðingi, en við höldum að kannski hafi hann aldrei fengið neinn til að keyra hann fyrsta skóladaginn,“ sagði Rob. „Og nú er hann næstum þrítugur … loksins er einhver sem bíður hans við hliðið.“
Ronnie hafði marga siði sem hjónin urðu vön, þar á meðal að tæma uppþvottavélina á hverjum morgni, og á hverjum þóttist Rob vera undrandi yfir verkinu til að forðast vonbrigði Ronnie.
„Það er erfitt að líta undrandi út þegar maður fær sömu spurninguna á þriðjudegi og maður fékk á mánudeginum, en svona var Ronnie. Við gerðum þetta í 45 ár,“ hlær Rob.
„Hann átti greinilega erfitt með að lesa og skrifa, en hann keypti South Wales Echo [daglegt fréttablað sem dreift er í Cardiff, Wales og nágrenni] á hverjum degi,“ bætti Dianne við.
Ronnie keypti eins Marks and Spencer gjafakort handa hjónunum um hver jól en á hverju ári var hann jafn spenntur yfir viðbrögðum þeirra. Ronnie varði miklu af frítíma sínum í kirkjunni þeirra, safnaði framlögum fyrir heimilislausa og undirbjó guðsþjónustur, og raðaði stólunum með nákvæmum hætti.
Dianne minnist þess að einn daginn kom Ronnie heim í öðrum skóm en um morguninn og hún spurði: „Ronnie, hvar eru skórnir þínir.“ Hann sagði henni að heimilislaus maður þurfti á þeim að halda. „Þannig manneskja var hann, hann var frábær,“ segja hjónin.
Hjónin upplifðu erfiða tíma þegar Dianne veiktist af ME, einnig þekkt sem langvinnt þreytuheilkenni, þar sem hún minntist þess að það voru dagar þar sem hún gat ekki farið fram úr rúminu.
„Ég átti litla þriggja ára dóttur, Rob var í burtu að vinna,“ sagði Dianne. En Ronnie reyndist þeim hjálparhella, hann bjó til pela fyrir son þeirra Lloyd, hjálpaði til á heimilinu og lék sér við Katie, dóttur þeirra.


Hjónin segja fúslega að sambýlið með Ronnie hafi átt sína erfiðleika, þar á meðal baráttan við spilafíkn Ronnie í 20 ár, en þau segjast ekki geta ímyndað sér lífið án hans.
„Þetta er ekki eitthvað sem ég myndi mæla með sem aðferð,“ sagði Rob, „en Ronnie auðgaði líf okkar á margan hátt.“ „Hann hafði stórt hjarta, Ronnie. Hann var góður, hann var pirrandi,“ sagði Dianne. „Stundum var ég móðir hans, stundum var ég félagsráðgjafi hans og stundum var ég umönnunaraðili hans.
„Einhver sagði við börnin okkar: Hvernig tókstu á við Ronnie þegar vinir þínir komu í heimsókn?’ og þau sögðu: Við hugsuðum ekkert um það, þetta er bara Ronnie.’“
Rob bætir við: „Börnin okkar höfðu aldrei kynnst lífinu án Ronnie. Hann var þarna áður en þau komu og hann var þarna þegar þau voru flutt að heiman, með sín eigin börn.“


Aðeins einu sinni hugleiddu hjónin að styðja Ronnie til að búa sjálfstætt, nokkrum árum eftir að hann flutti inn.
Þegar börnin þeirra tvö voru að verða eldri og plássið á heimilinu með aðeins eitt baðherbergi varð minna í hugsa þeirra bönkuðu þau á herbergi Ronnie til að leggja til að hann fengi sér eigin íbúð neðar í götunni. En þegar þau komu inn í herbergi hans endurtók hann þessa kunnuglegu spurningu: „Hef ég gert eitthvað slæmt?“
Rob segir að Dianne hafi rekið hann út úr herberginu, brostiðí grát og sagt „Ég get þetta ekki.“
Nokkrum kvöldum síðar kom Ronnie inn í herbergi þeirra og spurði: „Við þrjú erum góðir vinir, er það ekki?“, sem Rob svaraði játandi.
„Og við munum vera saman að eilífu, er það ekki?“ spurði Ronnie.
„Og það varð andartaks þögn, líklega of löng, ég leit yfir á Di og sagði: „Já Ronnie, við verðum saman að eilífu.“ Og það vorum við.“

Ronnie lést árið 2020, 75 ára að aldri, eftir að hafa fengið heilablóðfall og hjónin segjast sakna hans sárt. Vegna COVID fengu aðeins 50 manns að mæta í útförina en Rob segir í gríni að miðarnir hafi veirð vinsælli en á Coldplay tónleika. Hjónin fengu að minnsta kosti 100 samúðarkort, frá „prófessorum við Oxford háskóla, til stjórnmálamanna og atvinnulausra“.
Eftir andlát Ronnie var ný 1,6 milljón punda miðstöð, tengd Glenwood kirkjunni í Cardiff, nefnd Lockwood House, eftir Ronnie. En gamla byggingin og nýja byggingin pössuðu ekki alveg saman og þurfti aukafjármagn til að klára endurbæturnar.
„En þau hefðu ekki þurft að hafa áhyggjur,“ sagði Rob. „Næstum því upp á pund var þetta nákvæmlega sú upphæð sem Ronnie hafði skilið eftir í erfðaskrá sinni. Að lokum kom heimilislausi maðurinn þakinu yfir höfuð okkar allra.“
„Er það ekki ótrúlegt, ég held bara að þetta hafi allt gerst eins og því var ætlað að vera,“ sagði Dianne. „Fólk spyr okkur hvernig þetta gerðist, heil 45 ár, en sannleikurinn er sá að á vissan hátt gerðist þetta einn dag í einu. Ronnie auðgaði líf okkar á allan hátt.“
