

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sakfellt mann fyrir líkamsmeiðingar af gáleysi og umferðarlagabrot með því að hafa bakkað bíl sínum á konu á bílastæði við verslunarkjarnann í Lóuhólum í Breiðholti. Voru þau bæði á leið í verslun Bónuss sem er þar. Konan slasaðist mikið og glímir enn við afleiðingarnar.
Atvikið átti sér stað í mars 2024 rétt fyrir klukkan 16 en konan var á gangi á leið í verslunina en maðurinn að eigin sögn að bakka í leit að lausu stæði. Konan hlaut mörg rifbrot, brot á höfuðkúpu og andlitsbeinum, opið sár á fingri og marga yfirborðsáverka á höfði, úlnlið og hendi.
Atvikið átti sér stað við Pizzuna sem er örskammt frá verslun Bónuss. Konan var fyrst föst undir bifreiðinni en vegfarendur náðu að losa hana áður en viðbragðsaðilar komu á vettvang en þá lá hún í götunni. Vitni, einn þeirra sem lyfti bílnum af konunni, að slysinu ræddi við lögreglu á vettvangi og sagði manninn hafa bakkað bílnum þvert yfir stæðið og hefði hvorki horft í kringum sig né í baksýnisspegil. Konan hafi slegið ítrekað í afturrúðu bílsins áður en hún féll í götuna og aftari hjólbörðum bílsins hafi verið ekið yfir hana. Hún hefði verið á milli fremri og aftari hjólbarða og hefði maðurinn ekið fram og til baka í tvígang og konan rúllað sér á malbikinu til að forðast að fá hjólbarðana yfir sig aftur.
Maðurinn sagðist á vettvangi hafa verið að snúa bílnum til að leita að stæði fjær verslunarkjarnanum. Hann hefði litið í báða hliðarspeglana en engan séð fyrir aftan bílinn. Skyndilega hefði hann fundið dynk líkt og hann hefði ekið yfir eitthvað. Vegfarandi hefði þá komið snarlega til hans og látið hann vita af konunni undir bifreiðinni og sagt honum að hreyfa ekki bifreiðina, sem hann hefði farið eftir. Sagðist maðurinn hafa verið á mjög lítilli ferð og taldi sig hafa sýnt næga aðgæslu.
Konan tjáði lögreglu á bráðamótttöku Landspítalans að hún hafi farið gangandi frá heimili sínu og verið á leið í verslun Bónuss. Hélt konan að hún hefði gengið fyrir aftan bílinn. Sagðist hún finna mikið til í baki, höndum og andliti og var hún marin og hrufluð.
Fram kemur í dómi héraðsdóms að atvikið hafi náðst á upptöku öryggismyndavélar. Segir þar að á upptökunni sjáist að bílnum hafi verið ekið framhjá konunni en síðan hafi maðurinn stöðvað, sett í bakkgír og bakkað til baka en á þeim tímapunkti standi konan beint fyrir aftan bílinn.
Samkvæmt læknisvottorði var konan greind með mörg rifbrot, fleiri en þrjú með blóð-/loftbrjósti, brot á höfuðkúpu og andlitsbeinum, opið sár á fingri/um án skaða á nögl, marga yfirborðsáverka á höfði og marga yfirborðsáverka á úlnlið og hendi. Var það rakið í vottorðinu að konan hafi hlotið marga mjög alvarlega og lífshættulega áverka og fjölmörg beinbrot í andliti, brjóstkassa og mjaðmargrind.
Við skýrslutöku hjá lögreglu í október 2024 sagði konan að maðurinn hafi ekki stöðvað bílinn fyrr en vegfarendur hafi öskrað á hann. Sagðist hún hafa legið á gjörgæslu í tvo mánuði, einn á lungnadeild og á Grensásdeild í tvo mánuði. Sagðist hún vera búin að ná sér ótrúlega vel af meiðslunum en væri enn að jafna sig. Aðspurð sagðist hún ekki hafa tekið eftir bifreiðinni þegar hún var að ganga yfir bílastæðið.
Í skýrslutöku í janúar 2025 ítrekaði maðurinn að hann hefði litið í kringum sig og gáð í baksýnisspegilinn áður en hann bakkaði af stað. Hann véfengdi ekki framburð konunnar og sagði þau greinilega ekki hafa séð hvort annað. Hann andmælti framburði vitnisins sem sakaði hann um gáleysi.
Fyrir dómi sagðist maðurinn hafa verið á leiðinni í verlsun Bónuss. Hann stóð fast á því að hann hefði litið í kringum sig, horft í baksýnisspegilinn og nýtt sér bakkmyndavél bílsins. Fullyrti maðurinn að hann hefði stoppað bílinn um leið og hann hefði fundið fyrirstöðu. Hann hefði fengið áfall þegar ljóst var hvað hefði gerst og væri ekki enn búinn að jafna sig. Hann hefði ekki heyrt konuna berja í rúðuna eins og vitni héldi fram og taldi vitnið mögulega vera að rugla því saman við þegar vegfarandi hafi bankað í hliðarrúðu til að láta hann vita hvað hefði gerst. Maðurinn andmælti enn á ný framburði vitnisins um að hann hefði ekki ekið gætilega og ekki sýnt umhverfi sínu neina athygli.
Þegar honum var sýnd upptakan og bent á að miðað við hana hefði hann átt að geta séð konuna fyrir aftan bílinn sagðist maðurinn ekki hafa séð hana. Hann gat ekki skýrt þá vegalengd sem bifreiðinni hefði verið bakkað og að hún samræmdist illa fullyrðingum hans um að hann hefði stoppað bílinn strax og hann fann fyrir fyrirstöðu. Maðurinn neitaði því jafnframt, sem vitnið fullyrti, að hann hefði ekið fram og aftur yfir konuna.
Konan sagði fyrir dómi að það væri vegfarendum að þakka að maðurinn hefði bara bakkað hálfa leið yfir hana en ekki alla leið. Hún hafi fallið í götuna þegar hún hefði séð að maðurinn væri að bakka í átt að henni og svo hefði bíllinn farið yfir hana. Hún hefði ekki reynt að rúlla sér undan bílnum, myndi ekki eftir því að hafa slegið ítrekað í afturrúðuna og maðurinn ekki bakkað með hana lengra en konan sagði þó minningar sínar um slysið gloppóttar. Hún væri enn að glíma við afleiðingar slyssins. Væri enn með verki, ætti erfiðara með öndun og þyrfti að taka mikið af lyfjum. Hún hefði þurft að nota hjólastól og síðan göngugrind en svo staf. Hún hefði farið í hjartastopp og þess vegna gangráður verið settur í hana.
Áðurnefnt vitni kom fyrir dóm og ítrekaði fyrri framburð sinn og fullyrti að maðurinn hefði ekki stöðvað bílinn um leið og hann ók á konuna. Hann hefði bakkað áfram með konuna fasta undir bílnum en á meðan hefði vitnið og vinnufélagi hans barið í hliðarrúður til að reyna að fá manninn til að stöðva bílinn. Það væri skrýtið að maðurinn hefði ekki séð konuna, það hefði verið bjart úti og gott útsýni úr bílnum.
Í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur segir að framburður mannsins hafi verið á reiki. Á vettvangi hafi hann aðeins sagst hafa litið í hliðarspegla bílsins en við skýrslutöku hjá lögreglu einnig nefnt baksýnisspegil en svo fyrir dómi jafnframt nefnt bakkmyndavélina. Framburður vitnisins um aðgæsluleysi mannsins hafi verið stöðugur og trúverðugur. Upptaka renni stoðum undir framburð vitnisins um að maðurinn hafi ekki stoppað strax og hann ók bifreiðinni á konuna heldur hafi tekið nokkra stund að ná athygli hans.
Sá framburður mannsins að kona hafi verið nær horni bifreiðarinnar sé ekki í samræmi við upptökuna og önnur gögn hafi heldur ekki komið fram því til staðfestingar. Þá segist maðurinn hafa litið á alla speglana og skjáinn ítrekað og hefði hann því átt að verða var við konuna í seinasta lagi þegar hún var komin fyrir aftan bifreiðina. Verði því ekki fallist á þær röksemdir mannsins að hann hafi ekki séð konuna þar sem hún hafi farið inn í blindan blett horft frá honum. Framburður mannsins teljist því ótrúverðugur.
Niðurstaðan er því sú að maðurinn hafi sýnt af sér gáleysi þegar hann hafi ekki gætt að umferð fyrir aftan bílinn og með því að stoppa hann ekki um leið og hann heyrði dynkinn þegar hann ók á konuna. Maðurinn hefur aldrei áður hlotið dóm en við ákvörðun refsingar var horft til þess að konan hlaut alvarlega og mikla áverka. Við hæfi þótti að dæma manninn í 30 daga skilorðsbundið fangelsi og að hann greiði konunni 3,5 milljónir króna í miskabætur auk vaxta.