fbpx
Þriðjudagur 23.desember 2025
Fréttir

Helgi Hrafn segir að ógeðsleg slaufunarmenning hafi ráðið ríkjum – „Ég veit mætavel hvernig það er að lenda í svona hakkavél“

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 23. desember 2025 10:00

Helgi Hrafn Gunnarsson. Mynd/Sigtryggur Ari

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Slaufunaræðið sem gekk yfir Ísland fyrir nokkrum árum var ekki í lagi,“ segir Helgi Hrafn Gunnarsson, fyrrverandi þingmaður Pírata, í pistli á Facebook-síðu sinni. Segir hann að framferði ýmissa baráttuhópa í umræðunni hafi gengið mikla lengra en sem nemur óvæginni gagnrýni heldur hafi verið um að ræða ofbeldi gegn einstaklingum, þar sem reynt var að eyðileggja líf þeirra með fráleitum réttlætingum um að þeir ættu þetta skilið.

„Það var þessi ofbeldismenning sem gerði „vókið“ að svona einskonar grýlu. Þetta orð er auðvitað notað á mjög ólíkan hátt af ólíku fólki, en andstyggðin sem varð til í garð jafnréttis- og frelsisbaráttunnar er að stórum hluta vegna þess að á tímabili hagaði sér þessi jafnréttis- og frelsisbarátta eins og franska byltingin þar sem allir voru óvinir og öll höfuð áttu að fjúka. Risavaxnir hópar af froðufellandi ofbeldisseggjum sem fundu farveg fyrir hefndarþorsta sinn réðu deginum og stjórnuðu ferðinni,“ segir Helgi Hrafn í pistli sínum og segir þetta framferði fyllilega sambærilegt við einelti í grunnskóla.

Helgi Hrafn segist hafa andæft þessum tíðaranda á meðan hann réð ríkjum en gert það á lágværum nótum þar sem hann óttaðist að lenda í hakkavélinni sjálfur. Slíkt þekki hann af eigin raun þar sem hann hafi verið þolandi eineltis í æsku.

Hann hafnar því algjörlega að slaufunarmenningin hafi eitthvað haft að gera með það að verja mannréttindi. Þetta hafi verið ofbeldi sem hafi komið óorði á mikilvæg baráttumál. Afraksturinn af þessu sé sá að við sitjum uppi með andstöðu við mannréttindi frelsi og jafnrétti.

Hann segir að þeir sem hafi lent í þessari slaufun hafi liðið vítiskvalir og það sé sjálfsblekking að telja sér trú um annað. Hópofbeldi af þessu tagi eyðileggi líf fólks.

Pistillinn er eftirfarandi:

„Slaufunaræðið sem gekk yfir Ísland fyrir nokkrum árum var ekki í lagi. Þetta var ofbeldismenning, þar sem stórir hópar af fólki tóku sig beinlínis saman og markvisst og meðvitað meiddu og skemmdu fyrir fólki sem það var ósammála. Spennan og hetjustælarnir sem fylgdu voru stundum ógnvænlegir. Þvílíka kátínan yfir því að hafa tortímt einhverjum.

Ef maður sagði nokkurn skapaðan hlut sem var fræðilega, hugsanlegt hægt að skilja á einhvern annan hátt heldur en veg helstu byltingarforingjanna, þá tók sig til hópur sem beinlínis vildi eyðileggja allt fyrir manni. Allt saman. Félagslífið, fjölskylduna, vinnuna, allt.

Þetta gerist stundum í mannlegu samfélagi, að krítískur massi af snarbrjáluðu fólki nær einhvern veginn yfirhöndinni og það kemst tímabundið í tísku að vera fullkomlega ógeðslegur við annað fólk. Að sjálfsögðu alltaf með einhverjum helvítis réttlætingum um að allir eigi þetta skilið.

En þótt að auðvitað lentu allskonar drullusokkar í þessu líka, ekki bara blásaklaust fólk, þá var þetta samt ofbeldishegðun og hún er ekki í lagi.

Nú, síðan gerist það auðvitað líka, að fólk er gagnrýnt eða kannski kallað eitthvað sem því finnst ljótt, og það fer að væla yfir því að það sé verið að þagga niður í því, sem er auðvitað della. Íhaldssamir einangrunarsinnar með króníska minnimáttarkennd eru sérstaklega iðnir við að barma sér þegar einhver yrðir á þá öðruvísi en þeim þykir þægilegt og láta eins og að maður sé að þagga niður í þeim jafnvel þegar maður er að taka virkan þátt í samtali við þá á þeirri eigin vettvangi. Það er líka til.

En það er ekki það sem gerðist þarna í þessu slaufunaræði. Það var ekkert bara einhver gagnrýni eða óvægin lýsing á málflutningi. Það voru stórir hópar fólks, sem tóku sig beinlínis saman til þess að meiða, rægja, niðurlægja, særa og eyðileggja allt sem þeir gátu hugsanlega eyðilagt í lífi manneskju ef hún tók nokkurs konar feilspor. Það versta sem manneskja gat gert, var að biðjast afsökunar því að henni var þá bara tekið sem játningu og réttlætingu fyrir meira félagslegu og efnahagslegu ofbeldi.

Það er ekki það sama og að gagnrýna einhvern eða svara einhverjum fullum hálsi, það er sama hegðunin og er kölluð einelti í grunnskólum. Þetta var múgæsingur tryllts skríls sem missti tímabundið getuna til að haga sér eins og fullorðið fólk.

Og það á slíkt ofbeldi bara fjandakornið enginn skilið. Það er ekkert í lagi að haga sér svona, jafnvel þótt einhver sé með einhverjar andstyggilegar skoðanir. Fullorðið fólk með siðferðiskennd og heilan hug þarf heldur ekkert að haga sér svona til þess að ná árangri í málefnalegri baráttu sinni.

Það var þessi ofbeldismenning sem gerði „vókið“ að svona einskonar grýlu. Þetta orð er auðvitað notað á mjög ólíkan hátt af ólíku fólki, en andstyggðin sem varð til í garð jafnréttis- og frelsisbaráttunnar er að stórum hluta vegna þess að á tímabili hagaði sér þessi jafnréttis- og frelsisbarátta eins og franska byltingin þar sem allir voru óvinir og öll höfuð áttu að fjúka. Risavaxnir hópar af froðufellandi ofbeldisseggjum sem fundu farveg fyrir hefndarþorsta sinn réðu deginum og stjórnuðu ferðinni.

Og ekki láta í eina sekúndu eins og þetta snúist eitthvað um að verja mannréttindi. Þessi ofbeldisfulla slaufunarmenning, sem virðist sem betur fer vera að mestu liðin hjá, var sumum af mikilvægustu baráttumálum samtímans til minnkunnar, og við búum við afraksturinn af þessu í dag í formi áframhaldandi uppgangs andstöðu við mannréttindi, frelsi og jafnrétti.

Eins og ég spáði fyrir þá – auðvitað mjög lágt og við fáa, því ég vildi ekki lenda í hakkavélinni sjálfur – varð auðvitað bakslag út af þessari ógeðslegu hegðun. Að sjálfsögðu kom bakslag. Það gat ekkert annað gerst.

Á sínum tíma sýndi ég þessu sjálfur alltof mikla meðvirkni, sem ég skammast mín fyrir í dag, en þegar stemningin er komin á þetta frönsku-byltingar-stig eins og var þarna, þá bara hefur maður ekkert marga kosti. Ég veit mætavel hvernig það er að lenda í svona hakkavél, enda ólst ég upp við þær aðstæður, og það var ekkert sjálfsagt að ég komst lifandi úr því.

Það er vegna þess að það er lifandi helvíti á jörðu að lenda í henni.

Það er ekki bara smá sárt, eða merki um viðkvæmni. Það er lifandi helvíti á jörðu sem drepur og eyðileggur líf fólks að lenda í félagslegu hópofbeldi eins og komst í tísku á þessum tíma. Ekki halda í eina sekúndu að bara vegna þess að það kom fyrir einhvern annan en þig, að þá hafi það ekki verið neitt mál.

Þetta er það sem gerðist þarna og það var rangt, og það á ekki að gerast aftur.

(P.S.: Eineltið sem ég varð fyrir í æsku markaði mig fyrir lífstíð og var yfirþyrmandi það versta sem hefur gerst í mínu lífi, þótt ég hafi alveg upplifað minn skerf af öðrum áföllum. Ég vildi óska þess að ég gæti leyft öllum að viðra hvaða skoðanir sem er á þessu á veggnum mínum, án þess að ég bregðist við með því að eyða því og blokka viðkomandi, en sannleikurinn er sá að ég get það ekki endilega. Ég get ekki setið undir réttlætingum fyrir félagslegu ofbeldi eins og því sem ég er að lýsa. Ef ég les eitthvað í þessari umræðu sem fær mig til að langa að gráta, þá ætla ég að eyða því og líklega blokka viðkomandi, ekki sem refsingu heldur til að skýla sjálfum mér frá óvelkomnum sársauka. Mér finnst það ekkert gaman og geri það ekki lettúðlega, en finnst rétt að láta bara vita af því fyrirfram. Þetta er ekki bara pólitískt málefni fyrir mér, þetta er eitt það persónulegasta í lífi mínu.)“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Hafnarfjarðarmálið: Lífsýni mannsins fannst á fatnaði drengsins

Hafnarfjarðarmálið: Lífsýni mannsins fannst á fatnaði drengsins
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Landsréttur vísar máli Sendinefndar ESB gegn Tómasi Hilmari frá – „Þetta er gríðarlegur léttir“

Landsréttur vísar máli Sendinefndar ESB gegn Tómasi Hilmari frá – „Þetta er gríðarlegur léttir“
Fréttir
Í gær

Einar segir Færeyinga hafa beitt sér gegn hagsmunum Íslands – „Frændur en engir vinir”

Einar segir Færeyinga hafa beitt sér gegn hagsmunum Íslands – „Frændur en engir vinir”
Fréttir
Í gær

Hraunar yfir jólatónleika Emmsjé Gauta – „Dröslað á svið í færibandavinnu sem minnti á sláturhús“

Hraunar yfir jólatónleika Emmsjé Gauta – „Dröslað á svið í færibandavinnu sem minnti á sláturhús“