
Stat News greinir frá þessu en um er að ræða fyrsta GLP-1 lyfið sem kemur út í töfluformi og er ætlað þeim sem glíma við offitu. Lyfið mun hafa sömu verkun og sprautuútgáfa lyfsins og er lyfið sérstaklega samþykkt til meðferðar við þyngdartapi og til að draga úr áhættu á hjarta- og æðasjúkdómum.
Bent er á að klínískar rannsóknir á töfluformi lyfsins hafi sýnt fram á 14% þyngdartap að meðaltali hjá þátttakendum. Það er sambærilegt við áhrif Wegovy í sprautuformi.
Notendur lyfsins munu taka eina töflu á dag sem er auðveldari í notkun og flutningi en sprautuform lyfsins sem þarf að vera í kæli. Novo Nordisk segir að þetta muni auka aðgengi að lyfinu sem mikil eftirspurn er eftir.
Novo Nordisk selur nú þegar skylt GLP-1 lyf í töfluformi, lyfið Rybelsus, en það er eingöngu ætlað til meðferðar við sykursýki af tegund 2.