fbpx
Sunnudagur 21.desember 2025
Fréttir

Allir íbúar sem þurftu að yfirgefa Grindavík geti kosið þar

Ritstjórn DV
Laugardaginn 20. desember 2025 10:30

Grindavík

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Lögð hafa verið fram drög að lagafrumvarpi sem ætlað er til þess að allir sem höfðu lögheimili í Grindavík þegar bærinn var rýmdur vegna jarðhræringa í nóvember 2023 geti kosið þar í sveitarstjórnarkosningum hvort sem viðkomandi hafa flutt aftur til bæjarins eða ekki. Þau í þessum hópi sem búa nú utan Grindavíkur þurfa hins vegar að sækja um að fá að kjósa þar.

Drögin voru gerð aðgengileg í samráðsgátt stjórnvalda í gær. Frumvarpið snýr að breytingum á kosningalögum, sveitarstjórnarlögum og lögum um lögheimili og aðsetur.

Samkvæmt 1. grein frumvarpsins munu þau sem áttu lögheimili í Grindavíkurbæ 9. nóvember 2023, en flutt hafa lögheimili sitt í annað sveitarfélag, geta sótt um að vera tekinn á kjörskrá í bænum við sveitarstjórnarkosningarnar sem fram fara 2026.

Sé umsóknin samþykkt á umsækjandi kosningarrétt í Grindavíkurbæ en telst þar með hafa afsalað sér kosningarrétti í lögheimilissveitarfélagi sínu. Þjóðskrá Íslands auglýsi í Stjórnartíðindum fyrirkomulag á móttöku og meðferð umsókna og geti umsóknarferlið verið rafrænt. Umsókn skuli send Þjóðskrá Íslands eigi síðar en 45 dögum fyrir kjördag. Þjóðskrá Íslands skuli afgreiða umsóknina eins fljótt og unnt sé og tilkynna umsækjanda um niðurstöðuna. Umsækjanda sé heimilt að skjóta synjun Þjóðskrár Íslands til úrskurðarnefndar kosningamála innan sólarhrings frá dagsetningu hennar.

Þegar umsóknarfrestur sé liðinn sé Þjóðskrá Íslands heimilt að láta sveitarstjórn Grindavíkurbæjar í té upplýsingar um þá einstaklinga sem um ræði og upplýsa lögheimilssveitarfélag hvers og eins um niðurstöðuna.

Kjörgengi

Frumvarpið snýr einnig að kjörgengi þeirra sem vilja bjóða sig fram til bæjarstjórnar í Grindavík.

Sá sé kjörgengur sem eigi kosningarrétt í sveitarfélaginu nú í vor og hafi óflekkað mannorð. Sá sem sé á framboðslista, eða hljóti kosningu haldi kjörgengi í bæjarstjórn Grindavíkurbæjar til loka kjörtímabilsins án tillits til þess hvar viðkomandi eigi lögheimili.

Frumvarpsdrögin kveða einnig á um að fari svo að umferð um Grindavík verði bönnuð á kjördag verði heimilt að hafa kjörstað utan marka sveitarfélagsins.

Segir í greinargerð með drögunum að vegna náttúruhamfara undanfarinna missera sé nauðsynlegt að útfæra sérákvæði um kosningarétt og kjörgengi þannig að Grindvíkingar geti komið að endurreisn samfélagsins þrátt fyrir að hafa þurft að flytja úr sveitarfélaginu. Endurreisn Grindavíkurbæjar sé verkefni fyrir allt samfélagið sem upplifði hamfarirnar en ekki aðeins fyrir þá sem enn haldi lögheimili í bænum. Kosningaréttur sé eitt helsta tækið til að tryggja að ákvarðanir endurspegli vilja þeirra sem eigi beina aðild að framtíð samfélagsins.

Ef aðeins hluti Grindvíkinga fengi að kjósa geti það skapað hættu á vantrausti og tilfinningu um að vera útilokaðir frá ákvarðanatöku um framtíð bæjarins. Ljóst sé að stór meirihluti Grindvíkinga hafi breytt lögheimilisskráningu sinni eftir fyrstu rýmingu bæjarins þann 10. nóvember 2023. Sumir sjái fyrir sér að flytja aftur til Grindavíkur við fyrsta tækifæri en aðrir ekki.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Sérkennilegt ástand hjá Auto Park – Eigendaskipti í skugga ógreiddra launa

Sérkennilegt ástand hjá Auto Park – Eigendaskipti í skugga ógreiddra launa
Fréttir
Í gær

Sönn saga sem sló í gegn og er uppseld hjá útgefanda

Sönn saga sem sló í gegn og er uppseld hjá útgefanda
Fréttir
Í gær

Kristján Sívarsson fær ekki að áfrýja til Hæstaréttar – Olli höfuðkúpubroti konu

Kristján Sívarsson fær ekki að áfrýja til Hæstaréttar – Olli höfuðkúpubroti konu
Fréttir
Í gær

Verðkönnun á jólabókum: Þarna finnurðu oftast lægsta verðið

Verðkönnun á jólabókum: Þarna finnurðu oftast lægsta verðið
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þurfti að bíða í nærri fjögur ár eftir svari frá ráðuneytinu

Þurfti að bíða í nærri fjögur ár eftir svari frá ráðuneytinu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Súlunesmálið: Margrét misþyrmdi foreldrum sínum eftir að hún var búin að opna afmælispakkana frá þeim

Súlunesmálið: Margrét misþyrmdi foreldrum sínum eftir að hún var búin að opna afmælispakkana frá þeim