

Segja má að soðið hafi upp úr í þættinum þegar Heimir Már og Stefán Pálsson, sagnfræðingur og varaborgarfulltrúi VG, fóru yfir stjórnmálaumræðu síðustu daga ásamt Hildi Þórisdóttur, bæjarfulltrúa í Múlaþingi.
Myndbandið hér að neðan, sem er af Facebook-síðu RÚV, sýnir meðal annars að Heimir Már gaf Stefáni engan afslátt þegar talið barst að samgönguáætlun og Sundabraut.
Guðmundur Andri skrifaði færslu á Facebook í morgun þar sem hann sagði meðal annars þetta:
„Einhver þarf að segja Heimi Má – upplýsingafulltrúa FF og fulltrúa ríkisstjórnarinnar í þættinum – kannski gamli fjölmiðlamaðurinn Heimir Már – að það kemur aldrei vel út þegar fulltrúi Valdsins í svona þáttum ber sig mjög valdsmannslega; tekur stjórnina í umræðunum aftur og aftur og reynir mjög meðvitað að snúa þeim upp í hanaslag við þann sem hann telur fyrrverandi fulltrúa Valdsins, sem var Stefán Pálsson í þessu tilviki og stóðst atlögur Heimis ágætlega.”
Svona valdsmannsstælar virka ekki vel á okkur heima í stofu og gera lítið fyrir ásýnd stjórnarinnar. Að ekki sé talað um það þegar roskinn karl tekur þráfaldlega orðið af konu sem hefur það hlutverk að stýra umræðum, eins og Sigríður Hagalín gerði afar vel, þó að það sé ekki hennar stíll að æpa á gesti sína.“
Fyrir utan þetta segir Guðmundur Andri að Hildur Þórisdóttir, fulltrúi Seyðfirðinga, hafi staðið sig langbest – rökföst og skýr.
„Sjálfur held ég að ekki fari vel á því að hringlað sé svona með Samgönguáætlun frá einni stjórn til annarrar, ekki síst þegar fyrir liggur — með ærnum kostnaði – fullhönnuð framkvæmd og ei annað að gera, í raun og veru, en að „ræsa vélarnar“. Óneitanlega sýnist manni að fulltrúar Siglfirðinga hafi einhvers staðar í kerfinu góðan aðgang að ákvörðunum.“
Fjölmiðlamaðurinn reyndi Björn Þorláksson gerir færslu Guðmundar Andra að umtalsefni á eigin Facebook-síðu og tekur undir gagnrýni hans.
„Mitt sjónarhorn er einmitt, tengt fyrrgreindu, að leið Flokks fólksins ætti alltaf að liggja í gegnum auðmýktina – ekki hrokann. Það yrði nefnilega að mínu mati dapurlegt ef Flokkur fólksins þurrkaðist út, einkum fyrir láglaunahópa sem hafa átt öflugan málsvara í Ingu Sæland. En sumir gætu sagt að oddamenn hreyfingarinnar væru sumir hverjir sjálfum sér verstir. Þegar hroki og árásargirni fer saman hjá talsmanni flokks sem situr í ríkisstjórn og hefur gríðarleg völd í samfélaginu, er ekki von á góðu.”