

Í umdæmi lögreglustöðvar 1, sem sinnir meðal annars miðborginni, voru höfð afskipti af ökumanni bifreiðar sem reyndist vera að horfa á þátt í farsíma sínum undir stýri. Hann á yfir höfði sér sekt vegna málsins, en ekki kemur fram í skeyti lögreglu hvaða þátt hann var að horfa á.
Þá voru tveir handteknir vegna gruns um húsbrot en þeir eru grunaðir um að hafa brotið sér leið inn í íbúð í hverfi 101 þar sem þeir höfðu komið sér fyrir. Þeir voru vistaðir í fangaklefa vegna málsins. Loks var tilkynnt um líkamsárás í miðborginni og eru tveir einstaklingar grunaðir um verknaðinn. Málið er í rannsókn.
Í hverfi 109 var tilkynnt um rúðubrot í heimahúsi og er málið í rannsókn.
Fyrir utan þetta hafði lögregla afskipti af ökumönnum sem grunaðir eru um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.