

Út er komin bókin Skrifarar sem skreyttu handrit sín [Alþýðulist og skreytingar í handritum síðari alda] eftir Kjartan Atla Ísleifsson. Útgefandi er Miðstöð einsögurannsókna við Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands í samstarfi við Háskólaútgáfuna.
Í laugardagsblaði Morgunblaðsins er fjallað um bókina og rætt við höfundinn. Bókin er í ritröðinni Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar og fjallar um list alþýðufólks í handritum frá 17.-20. aldar. Kjartan Atli hefur unnið ötullega að því á undan förnum árum að veiða þessi listaverk upp úr handritum Landsbókasafns Íslands. Í bókinni eru birtar 150 litmyndir sem aldrei hafa áður komið fyrir augu almennings og eru af ýmsum gerðum en allir voru listamennirnir fátækir bændur.
Megnið af efni bókarinnar hefur aldrei birst áður og því er um tímamótaverk að ræða. Höfundur segir að um frumrannsókn sé að ræða á þessu sviði. Í inngangi höfundar kemur fram að hann hafi skrifað rannsóknarritgerð sem byggðist á rímnahandriti sem Eyjólfur Eyjólfsson Wíum skrifaði og myndskreytti 1885. Þetta var 2020 þegar Kjartan Atli var í sagnfræðinámi í Háskóla Íslands.
fram kemur að Kjartan Atli hafi lengi haft brennandi áhuga á myndlist og að námskeið hjá Sigurði Gylfa Magnússyni og Davíð Ólafssyni um handritamenningu á 19. öld hafi orðið kveikjan að þessu verkefni. Fjallað er um 300 mismunandi handrit og sem fyrr segir eru 150 litmyndir í bókinni.
Kjartan Atli segist hafa þurft að þreifa sig áfram vegna þess að skreytingar séu ekki vel skráðar. Hann segir mikið verk óunnið, enda hafi hann einungis flett nokkur hundruð handritum af þeim 15 þúsund sem varðveitt eru íhandritasafni Landsbókasafnsins.
Kannski er þarna komin jólagjöf fræðimannsins og grúskarans.