
Í bænum Big Stone Gap í Virginíu í Bandaríkjanna er skóli sem ber heitið Union en hann er á því skólastigi sem kallast high school þar í landi og er fyrir nemendur á aldrinum 14-18 ára. Eins og margir skólar á þessu stigi þar vestra er skólinn með lið í amerískum fótbolta. Liðið hefur ekki tapað leik á þessu tímabili undir stjórn þjálfarans Travis Turner en eftir einn sigurleikinn í liðinni viku og á meðan hann var að undirbúa næsta leik virtist þjálfarinn hverfa af yfirborði jarðar. Framan af var á huldu hvers vegna en nú hefur verið upplýst að þjálfarinn sé eftirlýstur vegna gruns um að hafa barnaníðsefni í fórum sínum og hafa reynt að tæla börn.
Liðið átti leik framundan í úrslitakeppni í síðustu viku en eftir að Turner hvarf spilaði liðið leikinn án hans og vann og heldur því áfram í næstu umferð en aðstoðarþjálfarinn hefur tekið við til bráðabirgða.
Lögreglan hefur neitað að upplýsa hvort þolendur séu nemendur við skólann.
Skólayfirvöld í sýslunni hafa sent Turner í leyfi frá störfum og bannað honum að koma á skólalóðina eða hafa samband við nemendur. Þau vilja að öðru leyti ekki tjá sig um málið.
Upplýst var fyrir helgi að lögregla væri að leita að Turner vegna rannsóknar á máli. Í fyrstu var ekki greint frá hvers eðlis málið var en í gær var það opinberað.
Í yfirlýsingu frá fjölskyldu Turner var fólk beðið að dæma hann ekki fyrir fram og að einkalíf hennar yrði virt. Var lögð áhersla á að lögregla og dómstólar ættu að fara með málið en ekki dómstóll götunnar.
Málið er sagt mikið áfall fyrir bæjarbúa í Big Stone Gap en þar búa aðeins 5.000 manns en bæjarbúar eru sagðir vera eins og ein stór fjölskylda og Turner naut mikillar virðingar fyrir störf sín en góður árangur skólaliða er litlum bæjum í Bandaríkjunum oft mjög mikilvægur.