

Á dögunum sá ég á BBC að forseti Bandaríkjanna kallaði fréttamann svín. Svo sá ég á Vísi að formaður Sjálfstæðisflokksins svaraði fréttamanni játandi þegar spurt var hvort forystumenn Evrópusambandsins væru glæpamenn.
Sumir ná árangri með stjórnmálaumræðu á þessu plani. Aðrir ekki.
Þingmenn sjálfstæðismanna sýnast af einhverjum ástæðum hafa valið að trompa málflutning Snorra Mássonar.
Klípan er sú að pólitísk hugmyndafræði hans hefur reynst Miðflokknum skær leiðarstjarna til fylgisaukningar en þingmönnum sjálfstæðismanna mýrarljós. Hvers vegna?
Í raun þarf ekki djúpar pælingar til þess að sjá svarið.
Miðflokkurinn hefur frá upphafi fylgt þjóðernispopúlískri einangrunarstefnu. Hann lítur á hófsama samvinnupólitík Evrópusambandsins sem andstæðu við íslenska hagsmuni.
Tillögur Miðflokksins um framkvæmd EES-samningsins miða að því að splundra samstarfinu.
Þegar forysta sjálfstæðismanna kýs að trompa popúlíska orðræðu Miðflokksins í utanríkismálum er hún endanlega að hverfa frá því hlutverki, sem flokkurinn gegndi áður með því að vera ábyrg kjölfesta fyrir þá stefnu að hagsmunum Íslands sé best borgið í alþjóðlegu samstarfi á sviði efnahagsmála jafnt sem varnarmála.
Þegar forysta Miðflokksins talar á sama plani og Trump er hún samkvæm sjálfri sér. Þar liggur einfaldlega hugmyndafræði hennar.
Þegar þingmenn sjálfstæðismanna tala á þessu plani komast þeir aftur á móti í mótsögn við arfleifð sína. Þeir rífa niður rótgróna ímynd flokksins og tala gegn því sem þeir í öðru orðinu segjast enn standa fyrir, (en þó æ sjaldnar).
Ólík gæfa í könnunum skýrist af því að Miðflokkurinn er trúr sínum málstað en Sjálfstæðisflokkurinn er ótrúr þeim málstað, sem fylgi hans og traust byggðist lengstum á.
Þeir sem lesa áratuga gömul eintök af Þjóðviljanum sjá hvaða meðulum sósíalistar beittu í kalda stríðinu gegn forystu sjálfstæðismanna og jafnaðarmanna í utanríkismálum.
Annars vegar var leiðtogum helstu bandalagsþjóða Íslands lýst sem óþokkum og illmennum, sem brugguðu Íslendingum launráð.
Hins vegar var dregin upp sú mynd af forystumönnum sjálfstæðismanna og jafnaðarmanna og stundum framsóknarmanna að þeir væru undirlægjur og þý sem skriði fyrir hinu erlenda valdi gegn íslenskum hagsmunum.
Eftir hrun hafa forystumenn sjálfstæðismanna talað við kjósendur sína á þann veg að í leiðtogum samstarfsþjóða okkar í Evrópu búi tvær ólíkar manngerðir.
Þegar þeir komi saman í höfuðstöðvum NATO í Brussel megi treysta þeim fyrir sjálfu fjöreggi landsins, fullveldinu.
Þegar sama fólk komi hins vegar til fundar í höfuðstöðvum Evrópusambandsins steinsnar frá í sömu borg liggi þar á fleti fyrir erkifjendur, sem hafi það markmið helst að brjóta niður fullveldi landsins og eyðileggja efnahag þess.
Svo bergmála þeir þá kenningu gömlu sósíalistanna að Ísland hafi meiri áhrif utan gátta en innan.
Vandinn er sá að gamla Þjóðviljavínið hefur ekki batnað þótt því sé nú útdeilt af nýjum belgjum.
Nýleg ákvörðun Evrópusambandsins um verndartoll á járnblendi er útfærð þannig, eftir þrýsting frá ríkisstjórnum Íslands og Noregs, að hlutabréfamarkaðurinn telur meiri líkur en minni á að staða íslenskra og norskra fyrirtækja í greininni styrkist.
Þegar þær málalyktir liggja fyrir telja þingmenn sjálfstæðismanna skynsamlegast að trompa Miðflokkinn og krefjast hefndaraðgerða, sem stefnt gætu EES-samningnum í uppnám.
Á sama tíma brýnir atvinnulífið ríkisstjórnina að bregðast þveröfugt við. Slíkar aðgerðir geti aðeins skaðað íslenska hagsmuni.
Þannig leiðir mýrarljósið forystu sjálfstæðisfólks frá atvinnulífinu.