
Í dag var birtur úrskurður úrskurðarnefndar um upplýsingamál, frá því í október, sem varðar synjun forsætisráðuneytisins á beiðni ónefnds manns um að fá afhent gögn úr ráðuneytinu. Umrædd gögn eru frá árinu 2014 en þá var Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, núverandi formaður Miðflokksins, forsætisráðherra. Gögnin tengjast öryggi síma þáverandi æðstu ráða- og embættismanna landsins. Forsætisráðuneytið neitaði að afhenda gögnin á grundvelli þess að þau snerust um öryggi ríkisins og samskipti við erlend ríki. Nefndin tók hins vegar ekki undir mat ráðuneytisins og úrskurðaði að það skyldi afhenda gögnin.
Maðurinn fór upphaflega fram á að fá gögnin afhent í september 2016. Forsætisráðuneytið synjaði beiðninni.
Maðurinn endurnýjaði beiðni sína um aðgang að gögnunum í október á síðasta ári og taldi að í ljósi þess tíma sem liðinn væri og tækniþróunar síðan þá væri öryggi ríkisins ekki stefnt í hættu þótt hann fengi gögnin afhent. Þegar 30 dagar voru liðnir án svars frá forsætisráðuneytinu kærði maðurinn málið til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.
Forsætisráðuneytið svaraði erindi nefndarinnar vegna kærunnar í janúar á þessu ári. Ráðuneytið sagði manninn hafa óskað eftir samantekt um öryggi síma æðstu ráðamanna sem lögð hafi verið fram á fundi ríkisstjórnar 19. september 2014. Ráðuneytið hafi metið það svo að samantektin, sem var í formi minnisblaðs, og kynning sem ríkislögreglustjóri hélt fyrir ráðherra 16. september 2014, sem maðurinn hafi einnig óskað eftir að fá afhenta, kynni að varða öryggi ríkisins.
Leitað hafi verið eftir afstöðu embættis ríkislögreglustjóra og niðurstaða greiningardeildar embættisins hafi verið sú að ekki bæri að afhenda kynningu ríkislögreglustjóra og að í minnisblaðinu væri efni sem þyrfti að afmá á grundvelli upplýsingalaga með vísan til öryggis ríkisins.
Með vísan til þessarar afstöðu ríkislögreglustjóra var það mat forsætisráðuneytisins að synja bæri beiðni mannsins um aðgang að gögnunum.
Maðurinn fékk tækifæri til að veita umsögn um afstöðu ráðuneytisins. Benti hann meðal annars á að umbeðin gögn skýrðu frá valkostum um tæknibúnað sem til tals hafi komið að kaupa fyrir um 10 árum síðan. Þar að auki væri í skýringum ráðuneytisins engu vikið að því að afhending umbeðinna upplýsinga myndi fela í sér hættu gagnvart íslenskum hagsmunum.
Nefndin, sem hafði þá fengið að sjá gögnin, sendi annað erindi til forsætisráðuneytisins í maí síðastliðnum. Þar kom fram að umrædd gögn væru annars vegar minnisblað til ríkisstjórnar Íslands, frá 19. september 2014, sem fjallaði um öryggi síma æðstu ráðamanna, og hins vegar afrit af glærukynningu ríkislögreglustjóra sem bæri yfirskriftina „Örugg farsímakerfi. Fyrir æðstu stjórn ríkisins.“ Einnig fór nefndin yfir samskipti ráðuneytisins við embætti ríkislögreglustjóra, vegna beiðni mannsins, í nóvember og desember 2024. Efnisleg umfjöllun um hvort upplýsingar í umbeðnum skjölum væru viðkvæmar virtust aðeins koma með beinum hætti fram í tölvupósti starfsmanna ríkislögreglustjóra, sem sendur var til forsætisráðuneytisins í nóvember 2024.
Í þeim tölvupóstsamskiptum var rætt um að framleiðendur farsímakerfa myndu mögulega ekki vilja að verð og upplýsingar um veikleika og styrkleika kerfanna yrðu gerðar opinberar.
Nefndin vísaði til þess að beiðni um afhendingu gagnanna hafi verið hafnað á þeim grundvelli að þau vörðuðu öryggi ríkisins en ekki hagsmuni framleiðanda farsímakerfa. Fór nefndin þá fram á frekari skýringar frá ráðuneytinu um með hvaða hætti gögnin snerust um öryggi ríkisins.
Forsætisráðuneytið leitaði þá aftur til greiningardeildar ríkislögreglustjóra. Sagði ráðuneytið greiningardeildina vísa til þess að upplýsingar um hvaða öruggu símakerfi komi til álita til notkunar fyrir örugg símtöl milli ráðherra ríkisstjórnar um öryggis- og varnarmál snúi beint að öryggi ríkisins. Vildi greiningardeildin meina að væru upplýsingar um hvaða símkerfi voru til skoðunar og sérstaklega hvaða símkerfi komu vel út gerðar aðgengilegar almenningi gæti það gert þeim auðveldara fyrir sem hefðu hug á að njósna um símtöl æðstu ráðamanna.
Greiningardeildin hafi líka bent á að gögnin vörðuðu samskipti við erlend ríki og væru þar með samkvæmt upplýsingalögum undanþegin afhendingu. Í kynningu embættis ríkislögreglustjóra fyrir ríkisstjórn komi sérstaklega fram að kerfin hafi verið valin eftir upplýsingaöflun hjá nánum vinaþjóðum. Upplýsingar um öryggis- og varnarmál erlendra ríkja séu veittar Íslandi á grundvelli gagnkvæms trausts um að þeim verði ekki deilt með öðrum ríkjum eða gerðar opinberar. Væri það gert myndi það stórskaða íslenska hagsmuni.
Ráðuneytið spurði greiningardeildina sérstaklega hvort aldur gagnanna, sem eru eins og áður segir frá 2014, skipti einhverju máli en deildin vildi ekki meina það. Upplýsingar í skjölunum segðu til um hvaða öruggu símkerfi erlendir samstarfsaðilar væru að nota og yrðu slíkar upplýsingar aðgengilegar almenningi myndi það hafa áhrif á samskipti Íslands við þessi sömu ríki.
Var þá ráðuneytið á því að ekki ætti að afhenda minnisblaðið nema með því að strika yfir upplýsingar í því um öryggi síma æðstu ráðamanna og enn fremur ætti ekki að afhenda kynningu ríkislögreglustjóra.
Í andsvörum mannsins kom meðal annars fram að röksemdir ráðuneytisins væru almennar, og ekki hafi verið sýnt fram á að þær upplýsingar sem fram kæmu í umbeðnum gögnum fælu í sér hættu fyrir almannahagsmuni. Þar á meðal væri afar ólíklegt að þau kerfi sem um réði væru haldin slíkum öryggisveikleikum að nauðsynlegt væri að halda tilvist þeirra leyndum. Enn fremur hefði ekki verið sýnt fram á að gögnin hefðu að geyma upplýsingar um samskipti við erlend ríki.
Í niðurstöðu úrskurðarnefndar um upplýsingamál segir að umrædd tvenn gögn, eins og áður kom fram, séu annars vegar minnisblað forsætisráðuneytisins um öryggi síma æðstu ráðamanna, dagsett 19. september 2014. Þetta minnisblað sé um ein og hálf blaðsíða og hafi verið lagt fyrir ríkisstjórn í september 2014. Hins vegar sé um að ræða kynningu frá ríkislögreglustjóra, sem sé skjal með sex glærum, sem muni einnig hafa verið tekið saman og lagt fyrir ráðherra í tengslum við minnisblaðið og til kynningar fyrir ráðherra. Skjalið sé með yfirskriftina „Örugg farsímakerfi. Fyrir æðstu stjórn ríkisins.“
Segir nefndin að bæði gögnin geymi stutta lýsingu á fjórum tæknilegum lausnum sem tengist farsímakerfum, tæknilegum kostum þeirra og göllum og almennt mat á öryggi símtala við notkun kerfanna. Í gögnunum komi einnig fram grófar upplýsingar um kostnað við að innleiða þær tæknilegu lausnir sem vísað sé til.
Nefndin segir einnig að í minnisblaðinu komi fram upplýsingar um trúnaðargráðu þessara lausna.
Nefndin fellst ekki á að upplýsingar um heiti þeirra kerfa, sem til skoðunar voru á árinu 2014, séu þess eðlis að þær geti talist fela í sér hættu fyrir íslenska hagsmuni verði þær aðgengilegar. Upplýsingar um mögulega trúnaðargráðu hverrar lausnar séu í gögnunum settar fram með mjög almennum hætti, svo og lýsing á kostum og göllum einstakra lausna. Um sé að ræða upplýsingar sem séu um 11 ára gamlar og þá komi ekki fram í gögnunum hvort einhver þessara lausna varð fyrir valinu.
Upplýsingar sem fram komi í gögnunum tveimur teljist ekki vera upplýsingar um öryggi ríkisins eða varnarmál sem mikilvægir almannahagsmunir kalli á að haldið sé leyndum.
Því fellst nefndin ekki á að aðgangur að þeim sé takmarkaður á þessum grundvelli. Nefndin fellst heldur ekki á að synja beri beiðni mannsins með vísan til þess að gögnin geymi upplýsingar um samskipti við erlend ríki. Í þeim komi fram að tiltekin lausn hafi verið notuð í tilteknum ríkjum, en það þó aðeins sett fram með mjög almennum hætti. Þá sé þjónustu við tiltekin ríki getið á heimasíðum framleiðenda lausnanna. Nefndin segir einnig að í ljósi aldurs gagnanna sé ekki hægt að fallast á að afhending þeirra muni skaða samskipti Íslands við erlend ríki.
Forsætisráðuneytinu beri því að afhenda manninum minnisblaðið og kynningu ríkislögreglustjóra.